Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 03:32:00 (2489)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið og er undrandi á því að þingflokksformaður annars stjórnarflokksins skuli sjá sérstaka ástæðu til að mótmæla því að hér skuli vera farið að þingsköpum.
    Ég vil í fyrsta lagi lýsa undrun minni á því að meiri hluti hv. fjárln. skuli ekki hafa tekið tillit til þessa máls í ljósi þess að þessi liður hefur verið opnaður gagnvart öðrum aðila.
    Í öðru lagi vil ég lýsa undrun minni yfir því að hv. fjárln. hefur ekki séð sér fært að fara að tillögu fjögurra þingmanna Austurl. í þessu máli sem er í fyrsta skipti sem fjárveitinganefnd eða fjárln. hafnar slíkri beiðni.
    Ég vil líka lýsa undrun minni yfir því að það skuli vera tekin upp ný skipan hér á Alþingi að því er fjárveitingar varðar. Mér var ekki kunnugt um það að fjárveitingavaldið væri komið til ríkisstjórnarinnar. Ég hafði haldið það fram að þessu eftir alllanga veru á Alþingi að fjárveitingavaldið væri hjá Alþingi sjálfu. Það er mjög undarlegt að nú skuli hæstv. forsrh. taka fjárveitingavaldið í sínar eigin hendur með því að rita bréf með þessum hætti. Ég get ekki tekið mikið mark á slíku bréfi, tel það lítils virði, og því hlýt ég að fara þess á leit við hv. fjárln. að þetta mál verði tekið upp á nýjan leik og afgreitt samkvæmt þeim vilja sem hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstjórn í tengslum við afgreiðslu lánsfjárlaga.