Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 19:14:00 (2925)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svarar því til að hann sé að leita leiða til að skera niður með öðrum hætti og annars staðar hugsanlega en í grunnskólunum eins og þó hefur verið boðað og reitt fram við þingnefndir hugmyndir um og ítrekað hefur komið fram í umræðum. Hann er í rauninni að staðfesta það hér, ef ég hef skilið mál hans rétt, að hann þurfi eins og húsbóndi hans, hæstv. forsrh., hefur reyndar staðfest hér, að skila þessum umrædda niðurskurði innan fjárlagaársins frá sínu ráðuneyti. Það er í rauninni það sem hæstv. ráðherra er að staðfesta. Hins vegar hefur mátt skilja mál hans, jafnt í þingnefndum, ég er nú að vitna til fundar í menntmn. þingsins, sem og af máli hans úr þessum ræðustóli að hann gerði ráð fyrir því að geta dreift þessum niðurskurði yfir á næsta fjárlagaár og seinni hluta skólaársins 1992--1993. En sem sagt er það ekki uppi lengur heldur ætlar hæstv. ráðherra að standa skil á þessum niðurskurði. Þá vitum við það.
    En það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti frætt okkur á því hvaða þættir það eru sem hann er að leita fanga til að skila þessu fjármagni og hafi hann ekki greið svör við því nú og liggi það ekki þegar fyrir vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann muni þegar sú niðurstaða er fengin innan ráðuneytis kynna Alþingi í hverju þær ákvarðanir af hálfu ráðuneytisins yrðu fólgnar. Ég tel í rauninni eitt það lakasta við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið hér að því er skólamálin varðar, en það gildir vissulega um fleiri þætti, að ráðherrarnir eru að afla sér heimildar til að fara óbundnir af Alþingi með stórar fjárhæðir og fúlgur frá sínum ráðuneytum sem er algert nýmæli í þessum mæli a.m.k. í sambandi við stjórn landsins og heimildir af hálfu Alþingis. Þetta er stórkostleg afturför og mikil hætta sem þessu fylgir.