Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 19:19:00 (2927)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég ætla hæstv. menntmrh. út af fyrir sig ekkert verri hlut en hverjum öðrum í sambandi við þann niðurskurð sem hann ætlar að taka að sér að framkvæma. En það er stefnumarkandi mál hvort Alþingi afgreiðir heimildir af því tagi sem veittar voru með afgreiðslu fjárlaga og veita á ef uppfylltar verða óskir ríkisstjórnarinnar með samþykkt þessa frv., að leggja það í hendur einstakra ráðherra. Því fylgir hætta, ekki vegna þess að þeir séu illa innrættir ráðherrarnir frekar en gengur og gerist heldur vegna þess að það verða færri sem um málin fjalla og það er hætt við því að það verði handahófskenndar ákvarðanir sem teknar verði óhjákvæmilega og ákvarðanir sem eru pólitískar í eðli sínu og er eðlilegt að Alþingi taki á hverju sinni.
    Síðan heyrum við að hæstv. ráðherra ber sig allvel, að hann ætli að axla þá ábyrgð sem forsrh. brýndi fyrir honum og honum bæri að fylgja. Ég hygg að hæstv. ráðherra ásamt fleirum hafi verið tekinn í aukatíma af hálfu hæstv. forsrh. vegna þeirrar framsetningar sem nú kemur fram hjá þessum hæstv. ráðherra um þetta efni. ( Menntmrh.: Við þurfum enga aukatíma.) Nei, þeir eru vel staddir fyrir. Það er þá léttir fyrir forsrh., en kannski ekki fyrir aðra. --- Og það eru þá aðrar stofnanir sem mega vænta þess að það verði lagðar á þær kannski 100 millj. kr. í niðurskurði, aðrar en grunnskólinn. Ekki ætla ég út af fyrir sig að gera athugasemdir við að það verði reynt að gera þetta sem bærilegast fyrir börnin, skárra en á horfðist. En hitt er ljóst að það verður vandfundið held ég hjá hæstv. menntmrh. eins og fjárlög hafa verið afgreidd að rista niður og verða við þeim kvöðum sem hann hefur tekið þátt í að leggja á sjálfan sig í þessu efni.