Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:26:00 (3078)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Það er mjög eðlilegt að þessi mál komi hér til umræðu bæði í ljósi stöðunnar og eins vegna ummæla hæstv. forsrh. sem féllu á sama veg á Alþingi í fyrradag, í fyrrakvöld, þegar við ræddum þessi mál í tengslum við mál sem þá var á dagskrá. Hér upplýsir forsrh. og ítrekar þetta mat sitt og segir að það sé einnig mat ríkisstjórnarinnar eða telur svo vera og utanrrh. hlýtur auðvitað að segja orð í þessum umræðum á eftir.
    Það er líka athyglisvert að forsrh. gerir ráð fyrir því að sú niðurstaða sem einna líklegust sé og verið er að knýja á um af hálfu Evrópubandalagsins varðandi dómsþátt samninganna yrði Íslandi óaðgengileg og kannski einnig Norðmönnum en hinum löndunum ekki. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um að staðan er auðvitað orðin afar snúin að því er Ísland varðar frá sjónarhóli þeirra sem vilja ná þessum samningum.
    Forsrh. talar um að það þurfi að fara að móta stefnu um aðrar leiðir og ég tek undir það með málshefjanda að vonandi eru menn ekki að hugsa um inngöngu í Evrópubandalagið eða sækja um aðild þar eins og nú gerist með æ fleiri EFTA-ríki. En það skyldi þó ekki vera að hugrenningar væru í þá átt innan hæstv. ríkisstjórnar. Ég hef hér fyrir framan mig ljósrit úr Dagens Nyheter frá 19. jan. sl. þar sem greint er frá fundi formanna norrænna krataflokka og þar voru einnig fulltrúar verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum. Þar er greint frá því að þar hafi formenn krataflokkanna í norrænu ríkjunum tekið þátt, þar á meðal Jón Baldvin Hannibalsson, sem hafi greint frá því sem hann hefði orðið áskynja í Brussel, og síðan segir orðrétt í Dagens Nyheter, virðulegur forseti: ,,Deltagarna var helt eniga om EGs betydelse och om vikten af att deras länder satsar på medlemskap i EG.`` Þetta stendur í blaðinu og við hljótum að spyrja hæstv. utanrrh. sem er einn í þessum hópi: Er

þetta hans skoðun sem þarna er verið að vitna til? Hann hefur áður á erlendri grund, á fundi með stúdentum í mars 1989 að mig minnir, sagt það sem sitt sjónarmið að ef Noregur sækti um hlyti Ísland að fylgja á eftir.