Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 13:04:00 (3305)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég vil lýsa ánægju með þessa tillögu um framleiðslu sem þingmenn Kvennalistans hafa flutt hér og fyrir liggur á þskj. 99. Ég vil jafnframt lýsa yfir mikilli undrun yfir þeim viðtökum sem þessi tillaga hefur fengið frá hæstv. iðnrh. og hv. þm. Páli Péturssyni. Ég undrast mjög þá skammsýni sem birtist í orðum þessara hv. þm. og þeirri túlkun, mistúlkun, sem þar kemur fram, á efni þessrar tillögu.
    Það er rétt að þessi tillaga er efnislega svipuð annarri sem flutt var í þinginu á næstsíðasta þingi en sú tillaga fékk að mínu mati óeðlilega afgreiðslu í þingsölum. Síðan hafa komið fram gild rök fyrir því að þetta mál verði athugað að nýju hér á Alþingi. Ég undrast það að jafnþingreyndur maður og hv. formaður þingflokks Framsfl. skuli beina tilmælum til forseta um að athuga hvort þetta sé þingleg meðferð á máli. Fyrr má nú vera. Langt er nú seilst til lokunnar þegar þannig er til orða tekið af hv. þm. Veit ekki hv. þm. að það er fullkomlega heimilt að taka upp tillögur á komandi ári þótt felldar hafi verið. Það er

eingöngu varðandi yfirstandandi þing sem þetta ákvæði er sett í þingsköp að ekki megi endurflytja tillögur sem felldar hafa verið og svo er hv. þm. að biðja forseta um að bregða fæti fyrir þessa tillögu með þessum hætti.
    Ég spyr: Hvaða ástæður eru fyrir því að hv. þm. Páll Pétursson bregst við með þessum hætti? Hvaða ástæður liggja fyrir því að hæstv. iðnrh. leggur sig í framkróka um það að kveða niður þessa tillögu sem hér er flutt? Ég get út af fyrir sig skilið það út frá þeim sjónarhóli sem hæstv. ráðherra talaði hér áðan, því að það er nákvæmlega sá sjónarhóll að ekki beri að athuga þetta mál sérstaklega. Þetta er ekki mál sem á að vera á dagskrá. Það var það sem kom hér fram í máli hæstv. ráðherra. Og hann var að reyna að tíunda rök fyrir því en mér fannst honum heldur fatast flugið í sambandi við þá röksemdafærslu og er það ekki í fyrsta sinn þegar verið er að tala um orkunýtingu á Íslandi. Hæstv. ráðherra hefur ekki haldið þannig á málum að hann þurfi að ráðleggja þingheimi mikið í sambandi við orkunýtingu. Ég vil alveg sérstaklega hvetja þingheim til þess að horfa á þetta mál raunsætt út frá orðanna hljóðan í þessari tillögu því þar er ekki verið að reisa neinar skýjaborgir eins og halda mætti af viðtökum hæstv. iðnrh. og hv. þm. Páls Péturssonar. Það er einfaldlega verið að leggja til að Alþingi feli ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að hér á landi verði hafnar skipulegar rannsóknir og undirbúningur að framleiðslu vetnis til notkunar sem eldsneytis til innanlandsnota og til útflutnings. Það er nú ekki annað sem hér er á ferðinni. Ætli það sé goðgá að taka þannig á máli sem getur verið mikið og stórt framtíðarmál í sambandi við búsetu í landinu. Mér fannst nefnilega hv. þm. Páll Pétursson tala gegn sínum eigin hugmyndum þegar hann var að vitna í fiskeldið og hversu geyst menn fóru í þeim efnum. Það var einmitt vegna ónógs undirbúnings. Það var vegna þess að menn uggðu ekki að sér, vegna þess að menn tóku t.d. ekki undir tillögu sem sá sem hér stendur flutti á Alþingi 1983 um allt aðra málsmeðferð og undirbúning vegna fiskeldis sem mögulegs atvinnurekstrar í landinu í einhverjum mæli. Það er einmitt það sem hér er verið að leggja til, eins og ég skil þetta mál, að menn hefji skipulega athugun á því til þess að geti metið það. Nei, það má ekki. Það á að jarðsetja þetta. Það á að kistuleggja þetta efni.
    Þá vil ég koma að ákveðnum kjarna sem mér finnst að þessum hv. þm., hæstv. ráðherra og hv. þm. Páli Péturssyni, sjáist alveg yfir í sinni athugun. Það er talað um það sem sjálfgefið mál að menn búi, ekki aðeins Íslendingar heldur á Vesturlöndum almennt, við svipaða orkugjafa varðandi samgöngur og verið hefur og væntanlega í sambandi við iðnað líka að því er tekur til notkunar á olíu. En er það borðleggjandi að það sé gatan sem við eigum að ganga? Er það borðleggjandi að síðasta spá orkuspárnefndar frá 1988 um notkun olíu á Íslandi sé raunhæf þar sem gert er ráð fyrir að notkun á olíu verði svipuð að magni til á árinu 2015 og var á árinu 1987 þrátt fyrir sparnað og aukna hagkvæmni? Það hafa verið að gerast breytingar í mati manna á aðstæðum og eru tillögur uppi um það, ekki bara hjá einhverjum draumóramönnum, heldur alvarlegar tillögur um það að þjóðir heims verði að bindast samtökum um að draga úr mengun andrúmsloftsins með koldíoxíði, með koltvísýringi, og til þess að það verði staðið við þau markmið, sem m.a. eru kennd við Brundtland-skýrsluna margumtöluðu um sjálfbæra þróun, þá verða menn að hverfa frá þessum vegi og í vaxandi mæli að því að taka upp notkun orkugjafa sem eru þolanlegir fyrir umhverfi okkar og setja ekki allt í hættu, byggðir vítt um heim, vegna gróðurhúsaáhrifa og bráðnunar jökla og hækkunar sjávarborðs sem mundi lækka ansi mikið pundið í fasteignum í höfuðborginni og nágrenni ef eftir gengi. Halda menn að það sé bara hægt að horfa fram hjá þessu? Það er einmitt inn í þetta samhengi sem menn eru að tala um að þróa aðra orkugjafa sem standist mál út frá umhverfislegum forsendum og þar er vetnið vissulega afar freistandi vegna þeirra eiginleika sem það hefur, vegna þess að það er mengunarfrítt í sambandi við brennslu, eins og menn ættu að þekkja. Menn ættu að láta það vera að draga upp kostnaðartölur til að sverta þessar hugmyndir og tala um tvöfalt eða þrefalt hærra orkuverð en á gasolíu plús kostnað vegna dreifingar o.s.frv. Þessi atriði falla um sjálf sig ef menn ætla að taka tillit til umhverfisins, þeirra krafna sem þar eru uppi. Og það á ekki aðeins að breyta um orkugjafa, það á líka að draga úr orkunotkun samkvæmt hugmyndum Brundtland-skýrslunnar um 50% á nokkrum tíma, að draga úr orkunotkun jarðarbúa um helming. Það er eitt af því sem á að vera verkefni Íslendinga.
    Virðulegur forseti. Einmitt eitt af því sem við getum gert til að leggja okkar lóð á vogarskál í hinu alþjóðlega átaki í umhverfismálum með að minnka koltvísýring er einmitt að athuga nýtingu vetnis í framtíðinni. Það er kjörin leið sem við höfum möguleika á að fylgjast með en við eigum ekki að sitja auðum höndum sjálfir, því það þarf að aðlaga hlutina. Það eru ekki margir sem búa eins og við með gnótt af vatnsorku á mælikvarða þjóðarinnar, íbúafjölda, og skipaflota á höfum úti sem er undirstaða útflutningstekna okkar. Og er það ekki eðlilegt að við Íslendingar beitum okkur fyrir þróun í aflvélum skipa þannig að þær geti notað vetni sem eldsneyti og getum kannski notað slíkan búnað sem útflutningsvöru ef þessar hugmyndir ganga upp? Engu er slegið föstu um það í þessari tillögu en nauðsynin er brýn að samþykkja hana og það er ekkert annað en öfuguggaháttur ef menn, stjórnarmeirihluti og fleiri, ætla að leggjast á þetta mál og salta það með sama hætti og gerðist á næstliðnu þingi. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Þegar á árinu 1980 var unnið að því á vegum iðnrn. að athuga þessi mál, þeirri vinnu hefur ekki verið fylgt eftir. Það er nauðsynlegt að menn standi ekki í þeim sporum lengi úr þessu.