Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:43:00 (3418)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er sannarlega tilefni til að ræða þessa fyrirhuguðu heimsókn hæstv. forsrh. Alþingi hefur lýst vilja sínum varðandi deilur Ísraels og Palestínumanna. Það var gert með þingsályktun sem ég held að hafi verið samþykkt samhljóða hér á Alþingi í maí 1989. Í þeirri ályktun segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við frelsissamtök Palestínu, PLO.``
    Ég spyr: Ætlar hæstv. forsh. að fylgja eftir þessum vilja Alþingis í ferð sinni fyrir botn Miðjarðarhafsins m.a. með því að hafa vinsamleg samskipti við málsvara palestínsku þjóðarinnar, PLO, í tengslum við þessa heimsókn og að gefa yfirlýsingar sem felast í viljayfirlýsingu Alþingis frá vorinu 1989?
    Ég vil líka spyrja um það hvort hæstv. forsrh. hafi kynnt sér samantekt Amnesty International á mannréttindamálum í Ísrael. Ég hef hér undir höndum yfirlit fyrir árið 1990 sem dregur fram skelfilega

mynd af stöðu þeirra mála eins og haldið er á þeim af forráðamönnum Ísraelsríkis. Þar segir m.a.:
    Um 25.000 Palestínumenn, þar á meðal samviskufangar, hafa verið handteknir á þessu tímabili vegna uppreisnar borgara á hinum herteknu svæðum, ,,Intifatha``. Yfir 4.000 manns voru hafðir í fangelsi á þessu tímabili án ákæru og þúsundir annarra voru dæmdir af herdómstólum og í lok ársins voru enn 13.000 manns í fangelsum þar í landi án þess að mál þeirra hefðu verið meðhöndluð af réttum dómstólum.
    Er tilefni til þess fyrir forsrh. Íslands að lýsa blessun sinni yfir þetta með því að fara í opinbera heimsókn til þessa ríkis? Ég tel það ekki við hæfi og ég vil mótmæla þessari fyrirhuguðu heimsókn forsrh. Íslands eins og hún hefur verið kynnt fram til þessa.