Samskipti ráðherra og sendimanna erlendra ríkja á Íslandi

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:10:00 (3475)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það var sannarlega tilefni til að taka þetta mál hér upp og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa gert það. Viðtalið við sendiherra Bandaríkjanna, sem er tilefni þessarar fyrirspurnar eða að málið kemur upp á yfirborðið, vakti mjög mikla athygli hérlendis og um það var rætt í fjölmiðlum. Það var auðvitað mjög eðlilegt. Hér hefur verið staðið að, af íslenskum ráðherrum, með aldeilis óvenjulegum hætti og eins og fram kemur hjá hæstv. forsrh. þá eru engin hliðstæð dæmi sem hann gat upplýst um frá fyrri tíð. En það sem mér finnst sæta nokkrum tíðindum er að hæstv. forsrh. fjallar um þetta sem sjálfsagt mál og fallið til eftirbreytni. Undir það get ég sannarlega ekki tekið. Skiptir þá engu hvernig menn meta viðkomandi einstakling, sendiherra, persónulega sem í hlut á, hvort hann er vænlegur gestgjafi eða ekki, heldur skipta máli almennar reglur í samskiptum ríkja. Ég ætla að biðja hæstv. forsrh. í fullri vinsemd um að endurskoða þessa afstöðu og beita sér fyrir því á vettvangi ríkisstjórnar sinnar að þessu háttalagi verði ekki fram haldið því það er sannarlega ekki til eftirbreytni. (Forseti hringir.) En vegna þess, virðulegi forseti, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., þá hljóta menn hér á Alþingi að velta því fyrir sér hvort það sé ekki nauðsynlegt að Alþingi taki þetta mál til sérstakrar umfjöllunar og hvort það er ekki nauðsyn af hálfu Alþingis að gefa framkvæmdarvaldinu leiðbeiningar að þessu leyti.