Upplýsingaskylda ráðuneyta og opinberra stofnana

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:25:00 (3481)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið hefur ítrekað verið minnt á þörfina á lögum um upplýsingaskyldu stjórnvalda og hv. fyrirspyrjandi, sem hér er að ýta á eftir málinu, rakti þessa sögu frá 1970 og árunum þar á eftir. Ég hef ítrekað tekið þetta mál hér upp á Alþingi í formi fyrirspurna. 1990 kom fram frv. til laga eins og hæstv. forsrh. nefndi sem ekki varð útrætt. Ég tel að það hafi verið ófullnægjandi að því er snerti aðgang almennings að upplýsingum hjá framkvæmdarvaldinu. Það er nauðsynlegt þegar fjallað er um nýja löggjöf eða nýmótaða löggjöf að menn séu þar mjög vakandi í sambandi við þessi mál. Það er ánægjuefni ef hæstv. forsrh. kemur því fram, sem hann nefndi hér, að leggja málið í formi frv. fyrir þingið mjög fljótlega, á þessu ári, og þá gefst okkur tækifæri til þess að ræða það efnislega. En þetta er afar brýnt og við erum orðin satt að segja mjög á eftir um þessi efni, a.m.k. miðað við lönd sem standa sig bærilega að þessu leyti. Úr þessu verður að bæta hið fyrsta.