Ósoneyðandi efni

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:36:00 (3485)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það var fróðlegt að heyra þær upplýsingar sem hann gaf hér varðandi samdrátt í notkun bæði klórflúorkolefna og halona og að á undanförnum árum hefði nokkuð áunnist. En ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að taka þessi mál fastari tökum í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið og í ljósi þess sem er alveg skýrt að verður umræðuefnið á þessu ári, þ.e. krafa til flestra þjóða um harðari aðgerðir til að koma í veg fyrir frekari uppsöfnun á þessum mjög svo skaðlegu efnum í háloftunum. Ég tel að Íslandi beri að leggja sitt lóð á vogarskálina og því sé mjög þýðingarmikið í fyrsta lagi í sambandi við þær reglur sem ráðuneyti umhverfismála er að vinna að og kynna að athugað verði nú þegar að miða við strangari kröfur hvað snertir tímamörk heldur en þarna er gert ráð fyrir og jafnframt að litið verði til halonefnanna, þar sem á ferðinni er bróm en ekki klór. Bróm er mjög virkt efni í ósoneyðingu. Ég les það í gögnum að það telst um tífalt virkara á efniseiningu en klórið í sambandi við eyðingu og þess vegna afar þýðingarmikið að einnig verði tekið fyrir notkun halonefnanna.
    Það er rétt að þarna eru öryggisatriði á ferðinni og auðvitað þarf eitthvað að koma í staðinn. Það má ekki falla í sömu gryfjuna og taka efni sem eru skaðleg af öðrum ástæðum. Auðvitað stefnir enginn að því en menn þurfa að gæta sín. Menn þurfa einnig að átta sig á því að hér er um gífurlega mikla vá að ræða til lengri tíma litið fyrir allt líf á jörðinni. Jafnvel þótt menn stöðvi notkun þessara efna í dag, þá er ekki komið jafnvægi á í háloftunum fyrr en kannski að öld liðinni vegna þeirra manngerðu efna sem þar hafa safnast upp á undanförnum áratugum og halda áfram að ráðast á ósonið og brjóta það niður, þennan hlífiskjöld gegn útfjólubláu geislum sem jörðin hefur um sig og er eitt af skilyrðum lífs á þessari plánetu. Hér er því um svo mikið alvörumál að ræða að í rauninni er réttlætanlegt að ganga fram af mikilli festu, jafnvel þótt það rekist á önnur sjónarmið, sem að einhverju leyti teljast öryggissjónarmið, því að hér er sannarlega vá fyrir dyrum ef ekki verður úr bætt.
    Hitt er svo annað mál, virðulegi forseti, að um leið og við fögnum því að stórveldi eins og Bandaríkin ganga fram fyrir skjöldu í þessum málum að því er snertir ósoneyðandi efni, þá er ekki það sama uppi á teningnum hjá þeim --- og eru þau þó ekki einu svörtu sauðirnir, langt frá því í sambandi við mengun andrúmsloftsins --- en það er ekki það sama uppi á teningnum þegar um er að ræða koltvísýring sem veldur gróðurhúsaáhrifum. Þar draga þau lappirnar og það er rétt fyrir Íslendinga að horfa á það í sambandi við alþjóðlega meðferð þessara mála.
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, að hæstv. umhvrh. taki ákvarðandi skref um þessi efni miðað við þau markmið sem ég hef verið hér að nefna. Ég vænti þess að öll Norðurlönd sameinist um það og við fáum svör þar að lútandi innan mánaðar á þingi Norðurlandaráðs.