Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:53:00 (4655)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þetta er fróðleg umræða og vonandi verður hún gagnleg. Ég heyri að hæstv. menntmrh. hlustar grannt þó hann hafi ekki lagt mörg orð í belginn. En ég get ekki látið hjá líða að lýsa því sjónarmiði að ég fæ æ minni botn í það hvert Kvennalistinn er að fara í sambandi við uppbyggingu mennta í landinu. Eftir því sem röddum fjölgar hér þá verður sú mynd óskýrari, a.m.k. að því er ég fæ séð. Auðvitað er mjög nauðsynlegt að ræða slík mál og skiptast á skoðunum en æskilegt er að það sé a.m.k. með þeim hætti að menn átti sig svona nokkurn veginn á því hvert verið er að halda. Mér sýnist að talsmenn þeirra, sem taka þátt í umræðunni, séu að vísa nánast allt annað en á ráðuneyti menntamála í landinu. Vísað er í allar aðrar áttir. Það er verið að vísa á einkanám, það er verið að vísa á nám á vegum atvinnulífs og það er verið að vísa á nám sem heyrir undir önnur ráðuneyti og það er verið að vísa á sveitarfélögin í landinu. Hvers konar hugmyndir eru þetta sem hér er verið að bera fram í undirstöðumálum að því er snertir starf eins þjóðfélags, þ.e. fræðslumálin, einhver mikilvægustu málin þar sem öðru fremur ríður á að sé séð fyrir sæmilegu jafnræði þegnanna? Ég veit ekki hvað hv. 18. þm. Reykv. hefur verið að vísa til með því að tala um breytingar í Svíþjóð í sambandi við menntakerfið. Það er væntanlega til eftirbreytni hér sem er verið að vísa á það, þar sem sveitarfélögin eru að taka við undirstöðuþáttum í menntun.
    Ég tel mig þekkja sæmilega til úti um landið og einnig til skólamála og ég veit ekki hvernig menn hugsa sér það að afsala grunnþáttum í menntakerfi landsmanna og einnig hinu svokallaða verknámi. Í rauninni vil ég ekki greina á milli með þeim hætti sem allt of mikið er gert, bæði í umræðu og í lögum, að því leyti að hugur og hönd á að tengjast saman í allri fræðslu og auðvitað með þróun þjóðfélagsins æ samofnara. Vinna þarf gegn þeirri sundurgreiningu sem því miður er allt of mikil í uppbygginu náms og skóla í landinu, og það þarf að tengja þetta saman.
    Ég vil líka nefna að ég held að það séu ekki fjárhagslegar þrengingar frá ári til árs sem geti ráðið því hvernig við höldum á uppbygginu skólamála í einu þjóðfélagi. Ekki er það sem eigi að ráða og þó þröngt sé í búi í sambandi við margt í samfélagi okkar, þrengra en stundum áður, þá geti það ekki verið rök fyrir því að við reynum ekki að koma á þannig tengslum í stjórnkerfi okkar og í mikilvægum þáttum eins og í skólamálunum að þar sé sem best haldið á málum, þar sé reynt að vinna saman og fella saman, en ekki að girða sundur til þess að geta hugsanlega náð einhverjum fjárhagslegum ávinningi fyrir einhvern tiltekinn skóla. Þetta eru grundvallarspurningar. Mér finnst að þessi umræða hér hafi verið svolítið óvenjuleg en hún hefur verið af sérstökum tilefnum sem hafa gefist í umræðunni. Ég tel nauðsynlegt að menn tali einnig sem skýrast í þessum þýðingarmikla málaflokki.