Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:38:00 (4699)

     Hjörleifur Guttormsson :

    Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál hér upp, það er fyllilega tímabært. Hér er um stórt og vandasamt mál að ræða sem snertir okkur Íslendinga, ekki aðeins vegna þeirra viðskipta sem hér eru boðuð heldur einnig siðferðilega og varðar hagsmuni okkar til lengri tíma litið hvernig á málum af þessu tagi er tekið. Ég vek athygli á því að ekki aðeins er verið að ræða um að kaupa fisk frá miðunum utan við landhelgi Kanada, heldur einnig úr stofnum við Grænland. Í því frv. sem við vorum að samþykkja hér eftir 2. umr. er sjútvrh. heimilt að víkja frá ákvæðum laga um löndun erlendra fiskiskipa þegar sérstaklega stendur á. Vandmeðfarið er með slíka heimild og ég tel að við þurfum að athuga gang okkar þegar fyrir liggur að Evrópubandalagið er í raun að brjóta á Kanadamönnum og sérstaklega íbúum Nýfundnalands í sambandi við þetta mál. Okkur ber að veita þeim siðferðilegan stuðning í baráttu þeirra. Við þurfum auðvitað að hafa heildarhagsmuni okkar í huga. Aðalatriðið fyrir Íslendinga er að gæta að sjávarauðlindum sínum og stuðla að sem víðtækastri samstöðu á Norður-Atlantshafi um verndun þeirra. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur að til stendur að gera samning við Evrópubandalagið um að hleypa inn veiðiflota frá þeim með þeim EES-samningi sem liggur nú fyrir í íslenskri þýðingu. Íslenski sjútvrh. upplýsir það með hvaða hætti þeir hafa gengið um garða utan við landhelgi Kanada við veiðar úr stofnum sem ganga þar á milli lögsagna. Ég tek undir tillöguna um að málið gangi til nefndar og tel að þetta þurfi að athuga vel áður en við afgreiðum það frv. sem hér var verið að greiða um atkvæði áðan.