Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 22:13:00 (4938)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði varðandi þróun innan hinna iðnvæddu samfélaga og þörfina á gerbreytingu í sambandi við þá vegferð alla. En þegar kemur að spurningunni um tengsl Íslands við Evrópubandalagið á ég afar erfitt með að átta mig á þankaganginum hjá hv. þm. Hún hefur um það mörg orð að við þurfum að skoða þetta allt saman mjög opnum huga og er þá væntanlega að gefa í skyn að við höfum ekki verið að því á undanförnum árum. Ég veit satt að segja ekki hvað hv. þm. hefur verið að gera. Ég hef verið að reyna að fara yfir þessi mál í þeirri vídd sem ber að líta á þau. En það er mikill munur á því að athuga landslagið í Evrópu og hugsanleg tengsl okkar þar og svo hitt að ýja að því að við eigum að sækja um aðild að Evrópubandalaginu eða taka málin upp í því samhengi að til þess geti komið. Hv. þm. hefur undanfarna daga verið að gefa það út að hún telji að slíkt geti komið til greina. Hún sagði fyrir fáum dögum: ,,Ég held að við gætum mjög auðveldlega staðið í þeim sporum að við ættum ekki annarra kosta völ en að sækja um aðild og þess vegna vil ég fá þessa umræðu upp núna.`` Fyrir 3--4 dögum ræddi þingmaðurinn þetta einnig. Ég held að við verðum að taka þessa umræðu fordómalaust og við megum ekki bara skoða hvaða áhrif það hefur fyrir íslenskt efnahagslíf og stjórnkerfi að ganga inn í EB. Við verðum að skoða umhverfismálin, velferðarmálin, menningarmálin og ýmislegt fleira og við verðum að skoða það í miklu víðara samhengi hver staða okkar er í alþjóðamálum núna. Aðspurð hvort hún gæti hugsað sér aðild segir hún: Ég get kannski hafnað því fyrir mig en ég treysti mér ekki til þess að hafna því fyrir íslensku þjóðina. Hvert er verið að leiða fólk með hugleiðingum af þessu tagi? Að telja sig í öðru orðinu vera á móti aðild að Evrópubandalaginu en halda samt dyrunum galopnum með þeim hætti sem hér er verið að gera.