Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 15:40:00 (4963)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er afar fróðlegt að hlusta á hv. þm. Björn Bjarnason og fylgjast með sýn hans og söguskoðun. Hann býr til staðreyndirnar á færibandi og þegar kalda stríðinu er lokið skal það bara keyrt áfram út á raketturnar á Kólaskaga í von um að halda megi Bandaríkjunum við efnið hér á landi. Þetta er sú sýn sem hann dregur upp. Mér finnst hv. þm. vera ansi fastur í kaldastríðsfarinu, ekki komast úr því og það er ekki mjög gott fyrir mann sem er áhrifamaður í flokki sínum varðandi utanríkismál.
    En varðandi Evrópumálin sem voru megininntak hans ræðu tók ég eftir því að hann sagði að aðild að Evrópubandalaginu væri ekki á dagskrá enn. Hann bætti því við.
    Hann gerði heldur ekki athugasemd við þá ábendingu mína að greinilegt samhengi væri á mati hans á finnskum aðstæðum og vilja hans sjálfs að því er Ísland varðar. Þetta er atriði sem við skulum taka eftir. Smáorðin skipta einnig máli í þessu samhengi. Þegar litið er til Norðurlandanna og hv. þm. fer að draga upp stöðumat sitt varðandi þau þá býr hann til staðreyndir alveg eins og hann vill gera í hernaðarlegu samhengi. Hann segir fullum fetum í framsöguhætti: ,,Við stöndum frammi fyrir þeim staðreyndum að öll Norðurlöndin verða innan fárra ára orðin aðilar.`` Síðan býr hann til mat sitt í löndunum til að styðja þessa fullyrðingu. Mér finnst þetta aldeilis undur hvernig hv. þm. flytur mál sitt að þessu leyti og þó vildi hann skapa aðeins svigrúm fyrir danska kjósendur að kveða upp dóm sinn í Danmörku 2. júní. En þegar kom að Noregi benda allar umræður til þess að ákvörðun hafi verið tekin um aðild að Evrópubandalaginu og að Verkamannaflokkurinn á eftir að kjósa sína fulltrúa á flokksþing. Þetta eru alveg hrein undur. Hann fór í ferð til Noregs og þar sá hann doðranta eftir vinstri sósíalista sem væru búnir að snúa frá villu síns vegar ef ég skildi hann rétt.
    Ég veit ekki í hvaða heimi hv. þm. lifir. Ég held að hann ætti kannski að lesa heimalexíuna fyrst áður en hann fer í fleiri ferðir til útlanda þó að ég hafi verið að stinga upp á því að styrkja hann til slíkra ferða til að átta sig.