Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 21:23:00 (4970)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hefði litið svo á að 5--10 ár væru það sem við flokkum undir nána framtíð. Vissulega geta orðið verulegar breytingar, ófyrirséðar breytingar í málum eins og hefur gerst t.d. í Evrópu á undanförnum árum sem fáir sáu fyrir. Þar á ég við breytingarnar í Austur-Evrópu alveg sérstaklega. Ég sé hins vegar ekki ef ég reyni að meta nána framtíð, það sem maður getur séð fram á veginn, að þar séu nein sólarmerki um að þær breytingar séu að verða sem geti gert aðild Íslands að Evrópubandalaginu aðlaðandi í náinni framtíð. Það sé ég bara alls ekki. Ég bið hv. þm. um að lýsa því fyrir mér hvað hann er að hugsa þegar hann er að varpa slíku upp á vegginn eins og þessu, að hér verði að fara fram opin og víðsýn umræða um kosti og galla EES og EB, væntanlega til þess að menn geti skoðað þetta og mátað flíkina.
    Spurningin stendur um það hvort Íslendingar ætli að afsala sér sínu sjálfstæði og kasta sínum stjórntækjum. Allir vita í hvaða átt Evrópubandalagið stefnir. Það hefur gert sína samninga og samkomulag í Maastricht. Það er að þróast í stórríki. Getur þingmaðurinn séð það fyrir eða telur þingmaðurinn að það komi til greina fyrir Íslendinga að ganga inn í það hús?
    Auðvitað getum við alltaf sagt: Framtíðin er óræð. Mikil ósköp. En ég á afar erfitt með að átta mig á svona leiðsögn því stjórnmálamenn verða náttúrlega að taka á sig ákveðna ábyrgð. Þeir hafa ákveðnu leiðsagnarhlutverki að gegna, upplýsandi hlutverki og leiðsagnarhlutverki en geta ekki bara setið í dyngju sinni og spjallað yfir prjónum og velt fyrir sér ýmsum þáttum sem enginn getur út af fyrir sig sagt fyrir um. Við hljótum að ganga út frá ákveðnum forsendum. Ég hélt að þingmaðurinn sem sagnfræðingur hefði þjálfað með sér hugarfar í þá áttina.