Aðgerðir gegn börnum í Río de Janeiro

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:23:00 (5046)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að þessi mál beri á góma á Alþingi Íslendinga. Þessir atburðir í Brasilíu sýna okkur inn í heim sem hefur verið framandi okkur Íslendingum og þó höfum við verið minnt á það að einnig hér í okkar landi eru heimilislaus börn. En ástand og réttleysi af þeim toga sem þarna er um að ræða er sem betur fer, að því er við best vitum, óþekkt í Vestur-Evrópulöndum eða a.m.k. mjög fátítt. Ég óttast að þetta ástand sé engan veginn bundið við Brasilíu eina ríkja rómönsku Ameríku né heldur ef litið er til þriðja heimsins almennt. Ég hygg að sviðsljósin sem beinast nú að Brasilíu vegna umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna beini sjónum manna að þessu hörmulega ástandi. Það þarf í raun alþjóðaátak til þess að ráða þarna bót á. Hluti er vandi norðurs/suðurs, misskipting auðæfa í heiminum. En auðvitað er þetta líka spurningin um réttarríki. Þessi mál bar á góma í skýrslu utanrrh. Ég held að þar hafi ekki verið dregnar réttar áherslur og það er rétt fyrir okkur að líta á þessi mál heildstætt.