Orkusáttmáli Evrópu

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:44:00 (5053)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans og upplýsingar um þetta stóra mál sem óhjákvæmilegt er að fjallað verði nánar um á Alþingi á næstunni. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því að hve miklu leyti sú vinna, sem nú er hafin á þessu ári eða frá lokum síðasta árs, er unnin í samvinnu við utanrmn. þingsins og hvort þessi mál hafi verið rædd þar eftir áramótin og kynnt utanrmn. --- það ber vel í veiði að formaður nefndarinnar er kominn í þingsal --- því að ég tel það sjálfsagt og að iðnn. þingsins fái einnig aðgang að þessu. Ég teldi heldur ekki óeðlilegt að umhvn. þingsins væru kynntir a.m.k. þeir þættir sem snúa að umhverfismálum að því er varðar þá samninga sem þarna er verið að undirbúa. Ég tel sem sagt afar brýnt að ekki aðeins ríkisstjórn heldur einnig Alþingi og nefndir þingsins átti sig á því nú á þessu stigi vinnunnar hvað þarna er á ferðinni. Þetta er þeim mun brýnna sem margar gagnrýnar ábendingar komu fram við umræðu í þinginu 16. des. sl., að hæstv. ráðherra fjarstöddum, og mjög ríkar kröfur um að slegnir yrðu gildir varnaglar við undirritun sáttmálans sem hæstv. ráðherra stóð að og fullyrt var af hæstv. utanrrh. að þar kæmu fram ýmsir fyrirvarar hjá hæstv. ráðherra.
    Af upplýsingum hans má marka hversu þýðingarmiklir grundvallarþættir eru hér á ferðinni sem snerta yfirráð okkar yfir auðlindinni og mörg atriði sem tengjast síðan markaðsfærslu. Ég inni hæstv. ráðherra eftir því hvort hann sé reiðubúinn að taka upp það samstarf við þingnefndir sem ég hef nefnt og koma boðum til nefnda þingsins. Og ég spyr hæstv. ráðherra einnig, ef hann vill leggja hér frekar orð í belg, að hve miklu leyti þessi vinna tengist vinnu sem unnin er innan Evrópubandalagsins eða á vegum framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins og hugsanlega er verið að fella þar í samþykktir á vegum þess.