Staða karla í breyttu samfélagi

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 13:06:00 (5062)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 631 ber ég fram fsp. til hæstv. félmrh. um störf nefndar um stöðu karla í breyttu samfélagi. Fsp. er svohljóðandi:
  ,,1. Hvert er erindisbréf nefndar um stöðu karla í breyttu samfélagi sem skipuð var 24. okt. 1991 og hverjir eiga sæti í nefndinni?
    2. Hefur ráðherra fylgst með kynningu einstakra nefndarmanna á opinberum vettvangi á viðfangsefnum nefndarinnar og viðhorfum þeirra til hlutverks hennar?
    3. Hvenær er nefndinni ætlað að ljúka störfum og hvað hefur ráðherra fyrirhugað að gera með niðurstöður hennar?``
    Tilefni þessarar fyrirspurnar eru viðtöl í fjölmiðlum við fulltrúa úr þessari nefnd og blaðaskrif sem af þeim hafa sprottið. Þann 26. febr. sl. var viðtal á fréttastofu Bylgjunnar við einn nefndarmann, Guðmund Ólafsson hagfræðing. Það var alllangt viðtal og þar birtast viðhorf sem mér finnst lýsa inn í allóhugnanlegan hugmyndaheim að því er snertir það viðfangsefni sem hæstv. ráðherra hefur ætlað sér að lýsa inn í með störfum þessarar nefndar. Ég gríp lauslega niður í viðtalið. Hann segir um störf nefndarinnar:
    ,,Við erum að huga t.d. að því hvort lög og reglur mismuni kynjum á hinn veginn miðað við það sem tíðast hefur verið rætt, þ.e. í þágu karla, hvort lög og reglur mismuni körlum. Við erum að kanna fleiri svið, t.d. skólakerfi. Það er sömuleiðis tilfinningalegir og félagslegir þættir sem við höfum áhuga á og bókmenntir.`` Og svo segir hér: ,,Það var náttúrlega gerð krafa á það að menn stæðu sig í vinnunni.`` Hann er að fjalla um hina breyttu þjóðfélagsgerð. ,,En við bættist síðan krafa um það að menn tækju fullan þátt í heimilisstörfum. Þannig hafa menn svona fundið fyrir þessri tvöföldu ábyrgð og þetta er breyting frá því sem var. Og síðan þróuðust þessi jafnréttismál þannig að a.m.k. hluti kvenna ákvað að gera þetta, þennan þátt einkalífsins að pólitísku máli.`` Fréttamaður segir: ,,Já, biddu fyrir þér og þá kemur Kvennalistinn.`` ,,Jú og það má segja að þessi þróun hafi að sumu leyti a.m.k. hvað mig frá mínum bæjardyrum séð, og nú er ég ekki að tala út frá sjónarhóli nefndarinnar, þá varð óheillaþróun á þessu sviði þannig að Kvennalistinn tók, ef svo má að orði komast, upp marxíska stefnu þar sem var barátta marxistanna fyrir öreigana, fyrir hönd þeirra, að því orði var kippt út og konur sett inn í staðinn. Og þarna hófst eins konar, eins og þetta var skilgreint, stéttarbarátta fyrir konur gegn hinum altæka alheimsóheimi, karlinum.`` ,,Kynstríð,`` spyr fréttamaður. ,,Já, konur fóru að endurskilgreina söguna með feðraveldi og aðrar skrýtnar hugmyndir í farteskinu.`` Fréttamaður segir: ,,Og sungu t.d. á jólaböllum: Eva átti dætur sjö.`` ,,Einmitt, og þetta hérna marxíska kjaftæði sem er þarna komið upp í dularbúningi og fólkið sem var orðið þreytt á gamla marxismanum og venjulegri baráttu fyrir verkafólk.``
    Og svona heldur þetta áfram. Þetta er aðeins brot, aðeins smásýnishorn af þeim hugarheimi sem er að baki hjá einum af nefndarmönnum sem hæstv. félmrh. hefur ráðið til starfa til að lýsa inn í verkefni sem gætu út af fyrir sig verið athugunarverð.