Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 11:51:00 (5121)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér hefur hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra mælt fyrir frv. sem er nýkomið inn í þingið, líklega lagt fram í gær án þess að ég hafi kannað það sérstaklega. Málið er því nýlega fram komið og ekki hefur gefist mikill tími til að gaumgæfa það. Ég vil hins vegar segja svolítið um málið við 1. umr. og spyrja hæstv. ráðherra um viss atriði sem tengjast því. Einnig er hér einn af þeim sem hefur undirbúið þetta mál, hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, sem er viðstödd umræðuna og leggur inn orð í hana til upplýsingar eftir því sem henni þykir ástæða til.
    Ég tek fram í upphafi að ég skil það mjög vel að þörf sé á því að fara yfir málefni Skálholtsstaðar miðað við núverandi stöðu mála og skólahald þar, sérstaklega þar sem ekki hafa gengið eftir í seinni tíð hugmyndir og stefnumörkun sem var ákvörðuð í lögum um Skálholtsskóla, nr. 31/1977. Hér er verið að leggja til mikla breytingu á högum Skálholtsskóla og stjórnunarformi og skiptir auðvitað miklu að vel takist til um þau efni þegar reynt er að fitja upp að nýju og byggja á reynslu sem hefur ekki verið allt of góð miðað við þær væntingar sem uppi voru þegar lög voru sett um þetta fyrir hálfum öðrum áratug eða svo.
    Ég tek eftir því að það er hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra sem hefur tekið forustu í þessu máli með skipun nefndar sem hefur undirbúið frv. Með þeirri ákvörðun og að höfðu samráði við núv. hæstv. menntmrh. virðist svo sem menntmrn. hafi vísað þessu máli frá sér. Það gefur tilefni til að spyrja, virðulegi forseti, hvort hæstv. menntmrh. sé viðstaddur þingfund eða hvort hann geti komið í þingsal því að mér finnst eðlilegt að hann sé einnig hér í forsvari vegna þessa máls sem heyrir nú undir hans ráðuneyti. Hér er verið að breyta til.
    Samkvæmt því frv. sem liggur fyrir er gert ráð fyrir að stofninn í starfsemi í Skálholtsskóla verði áfram fræðslustarfsemi en nú er verið að vísa því undir forræði dóms- og kirkjumrn. og kirkjuráðs sérstaklega sem er falið verulega aukið hlutverk frá því sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Ég vil nefna það strax af þessu tilefni að mér finnst það vera mikið álitamál svo ekki sé meira sagt að færa skólastofnun af þessu tagi frá menntmrn. til dóms- og kirkjumrn. Mér finnst mikið álitamál hvort það eigi að gera. Ef það skref er aftur á móti stigið er spurningin um hvernig haldið er á málum gagnvart skólanum og hvað ástæða er til að setja ítarleg lagafyrirmæli um innri starfsemi hans og reyndar hvort sem er. Mér sýnist að það þurfi nákvæmrar skoðunar við af hálfu þingsins hvort skynsamlegt er að færa þennan skóla alveg frá ráðuneyti menntamála eins og hér er gerð tillaga um, og fela stjórn hans í rauninni þjóðkirkjunni og kirkjuráði einvörðungu. Nú er það svo að margt af þeirri starfsemi sem komið getur til greina og jafnvel fallið undir þau svið sem upp eru talin í 3. gr. geta varðað almenna starfsemi eða starfsemi sem tengist fullorðinsfræðslu með ákveðnum hætti. Ég er ekki viss um að sá rammi standist sem þarna er gerð tillaga um. Það getur þurft að breyta frá honum og mér finnst mjög óráðlegt að tryggja ekki tengsl með einhverjum hætti við ráðuneyti menntamála. Ég hefði sjálfur talið að eðlilegt væri að gera ráð fyrir því að skólinn heyrði áfram undir menntmrn.
    Tengslin við þjóðkirkjuna eru augljós og eru auðvitað líka í gildandi löggjöf með ýmsum hætti þó að fyrst og fremst sé gert ráð fyrir lýðháskólastarfsemi. Skálholtsstaður er auðvitað tengdur kirkjunni bæði fyrr og síðar, hinni kaþólsku og síðar hinni lúthersku kirkju og það er ekki áhugamál mitt að höggva á þau tengsl út af fyrir sig. Þau eru mjög eðlileg miðað við sögu staðarins. En hér er gert ráð fyrir því að eitt af sviðunum verði það sem kallað er guðfræðisvið í starfi skólans og tengist guðfræðideild Háskóla Íslands. Háskóli Íslands heyrir undir ráðuneyti menntamála og menntun guðfræðinga á vegum Háskólans heyrir undir menntrn. Sama gildir um tónlistarskóla í landinu og tónlistarfræðslu en hér er talað um, undir b-lið, kirkjutónlistarsvið. Og af hverju er verið að höggva á þau tengsl sem geta verið við hið almenna fræðslustarf með því að taka skólann undan menntmrn. sem fer með þessi efni í hinu almenna fræðslukerfi í landinu? Hæstv. menntmrh. hefur einmitt nýverið lagt fram frv. til laga um fullorðinsfræðslu til að styrkja þann þátt mála og mér finnst að með starfsemi þessa skóla, sem eftir sem áður verður rekin með verulegum stuðningi af hálfu ríkisins, þurfi að treysta tengslin við hið almenna fræðslustarfsemi í landinu þó svo að áherslurnar tengist guðfræðisviði og kirkjunni með einum og öðrum hætti. Þetta vildi ég nefna.
    Mér er til efs að nauðsynlegt sé og skynsamlegt að lögbinda jafnmikið og gert er í þessu frv. varðandi innri starfsemi skólans og einnig vegna þess að vart er á vísan að róa með sumt af því. Það stangast í rauninni nokkuð á við þá stefnu sem hefur verið tekin í sambandi við lagasetningu um skóla á framhaldsskólastigi að lögbjóða ekki mikið þætti sem snerta beinlínis innra starf. En það er auðvitað álitamál hvað á að segja um þau efni og ekkert óeðlilegt að kveðið sé á um stjórnunarþætti með vissum hætti. Í 6. gr. t.d. eru allítarleg ákvæði um þetta, meira að segja tekið fram að forstöðumaðurinn sé fulltrúi annarra starfsmanna skólans gagnvart kirkjuráði og skuli tala máli þeirra þar. Hann er bundinn af því. Það er lögfest í lok 6. gr. Þetta er bara ábending og dæmi um það hversu langt er seilst í sambandi við löggjöf varðandi innri starfsemi. Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt að ganga svo langt í þeim efnum.
    Ég vil spyrja um hvernig hafi verið unnið að undirbúningi málsins m.a. að því er varðar samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar. Hvaða kynning hefur þar farið fram? Mér skilst að þetta frv. hafi verið sýnt þar fullmótað mjög nýverið en ég bið um upplýsingar um það og staðfestingu hvort svo er. Mér finnst að slík mál séu einn af þeim þáttum sem snerta samskipti Alþingis og kirkjunnar og ef verið er að stíga lengra en áður var í sambandi við tengsl Skálholtsstaðar og kirkjunnar væri ástæða til þess að athuga þau mál frá upphafi í þessari samstarfsnefnd eða strax á mótunarstigi og kannski hefur það verið gert. Mér er ekki fullkunnugt um það en ég hef þó heyrt að frv. hafi verið sýnt fullmótað þar mjög nýlega og gerðar athugasemdir sem ekki hafi orðið til þess að framlagning þess hafi tafist eða verið dregin þannig að málið er hér komið til umræðu.
    Það eru kannski ekki mörg atriði til viðbótar sem ástæða er til að ræða hér. Ég tel þó nauðsynlegt að menn líti á þá löggjöf sem er í gildi um þetta og hún verði borin saman við þær tillögur sem nú eru uppi. Það er alveg ljóst að hér er verið að breyta til með róttækum hætti, einnig varðandi stjórn skólans. Það er verið færa hana alveg yfir til kirkjuráðs í staðinn fyrir að áður var það sjö manna skólanefnd sem stýrði skólanum og starfseminni sem henni tengdist. Ég spyr: Hvaða tengsl voru við þessa skólanefnd í sambandi við undirbúning málsins? Var sú nefnd höfð að einhverju leyti með í ráðum sem starfar samkvæmt gildandi lögum þegar þetta mál var mótað?
    Hæstv. dóms- og kirkjumrh. hefur lagt til að málinu verði vísað til allshn. Alþingis til meðferðar og athugunar. Það finnst mér ekki rétt ráðið. Mér finnst auðsætt að mál af þessu tagi, sem er fræðslumálefni og menntamálefni þó að hugmyndin sé að tengja það með öðrum hætti við starfsemi þjóðkirkjunnar, eigi að vera til umfjöllunar fyrst og fremst í menntmn. þingsins og geri það að tillögu minni að málinu verði vísað þangað. Ég tel hins vegar sjálfsagt að haft sé samstarf við allshn. varðandi málsmeðferðina þannig að allshn. gefist kostur á að fjalla um málið en undir hana munu heyra kirkjuleg málefni samkvæmt starfsskipan og held að það væri farsælt að halda þannig á. Ég bið menn um að taka ekki orð mín þannig að ég vilji vísa þessu máli með einhverjum hætti á bug eins og það liggur fyrir að ekki betur athuguðu máli. Ég hef haft lítið ráðrúm til þess að skoða það en ég tel miklu skipta að það sem hér verður ákveðið sé sem allra best grundað. Ég efast ekki um góðan hug þeirra sem hafa unnið að málinu varðandi það að reyna að styrkja stöðu Skálholtsstaðar og skólans sem þar er risinn. Um það hljóta menn að geta sameinast. Þetta er frekar spurning um það hvernig við leggjum upp þegar reynt er að gera nýtt átak í þessum efnum og ég vil gjarnan stuðla að því að það geti orðið sem best.