Röð mála á dagskrá

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 13:57:00 (5210)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur ekki farið mikið fyrir því að þetta mál væri rætt sem einhver stefnubreyting eða ný stefna sem virðist vera að móta varðandi uppsetningu dagskrár. Þó var þess getið af þingflokksformanni í mínum þingflokki að þetta væri sjónarmiðið sem réði ferðinni þessa vikuna. En mér finnst nauðsynlegt, ef þarna er verið að móta að einhverju leyti nýja starfshætti, að það sé tekið upp með mjög skýrum hætti gagnvart þingflokkum. Mér finnst það álitamál, þó að það sé sjónarmið sem forsætisnefnd og hæstv. forseti mæli hér fyrir, að ráða málum með þessum hætti. Mér finnst eðlilegt að það sé málaröð sem fyrst og fremst marki stefnu um það hvenær röðin er komin að málum fremur en það sjónarmið sem hér er nefnt.
    Það er auðvitað nokkur nýbreytni ef ráðherrar ætla að stunda viðveru að jafnaði og sem meginreglu þegar þingmenn mæla fyrir sínum málum. Það hefur oft þurft að ganga eftir því þegar óskir hafa verið um það. Aðrir eru ekki með óskir um það og í mörgum tilvikum er engin ástæða fyrir þingmenn að biðja sérstaklega um viðveru ráðherra vegna flutnings máls hér. Sé áhugi á því hjá þingmanni hefur hann sett sig í samband við viðkomandi ráðherra og reynt að stilla svo til að ráðherrann væri viðstaddur. Hæstv. ráðherrar geta auðvitað haft áhuga á því að leggja orð í belg varðandi mál þingmanna og gera það vissulega oft á tíðum en engin regla hefur verið á því. Ég vil nefna dæmi úr mínu málasafni. Ég á tvær þáltill. á sviði utanríkismála og ég greindi skrifstofu þingsins frá því í síðustu viku að ég gerði enga kröfu um að hæstv. utanrrh. væri viðstaddur þegar ég mælti fyrir þeim málum vegna þess að þau eru í rauninni ekki þess eðlis að þau kalli eftir afstöðu hans frekar en þingsins almennt. Ég hugsa að oft á tíðum sé það þannig að þingmenn eru ekki að leggja neina ofuráherslu á það að ráðherrar séu viðstaddir eða tali í þeim málum sem þeir flytja þó að það sé alltaf ánægjuefni þegar þeir láta í sér heyra í sambandi við málefni þingmanna.