Starfsréttindi norrænna ríkisborgara

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 14:14:00 (5218)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér er mál á ferðinni sem varðar gagnkvæm réttindi norrænna ríkisborgara og það er gott mál að samræma aðstæður við það sem reynt hefur verið á hinum samnorræna vinnumarkaði ýmissa starfsstétta. Ég vænti þess að málið geti fengið framgang hér, mér sýnist það vera þess eðlis að það beri að styðja. En nokkrar spurningar vakna upp í sambandi við flutning frv. og snerta samskipti okkar og samningaviðræður sem leitt hafa til samnings um Evrópskt efnahagssvæði sem að vísu hefur ekki verið staðfestur. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. menntmrh. og einnig hæstv. samstarfsráðherra í Norðurlandasamstarfi, sem hér er viðstaddur umræðuna, hvort það hafi verið athugað í sambandi við þennan samning hvort samræmi er milli norrænna laga í þessu efni. Mér sýnist það þó vera fljótt á litið vegna þess sem fram kemur á bls. 4 þar sem vísað er til þess að við samningu frv. hafi m.a. verið stuðst við dönsk lög sem sett voru til að auðvelda fullgildingu danskra stjórnvalda á ákvæðum samnings frá 24. okt. 1990 og löggjöf Evrópubandalagsins um gagnkvæm starfsréttindi. Það mætti því ætla af þessu að þarna sé samræmis gætt. Þetta segi ég vegna Danmerkur sem aðila að norrænu samstarfi og þessum samnorræna samningi.
    Það hefur komið fram að vegna hugsanlegs samnings um Evrópskt efnahagssvæði muni þurfa að endurskoða allmarga af samnorrænu samningunum. Ég vil inna hæstv. samstarfsráðherra eftir því hvort hann geti veitt okkur upplýsingar um það hvað líði mati á því hvaða samningar það eru, hversu mikið umfang þetta er og hversu mikil vinna þarf að fara fram hér og þá í samvinnu við önnur EFTA-ríki norræn og auðvitað varðar þetta Danmörku líka.
    Ég held að æskilegt sé að við fáum vitneskju um þessi atriði áður en vinna að þessu máli hefst í þingnefnd. Auðvitað er það sérstaklega nauðsynlegt að því er snertir frv. en einnig væri gott að fá upplýsingar um stöðu þessara mála með tilliti til þeirra samninga sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að beita sér fyrir.
    Í þessu sambandi vil ég nefna það að breytingar í Evrópubandalaginu í tengslum við vinnumarkaðsmál og félagsleg málefni geta auðveldlega haft bein áhrif á norræna samninga og hafa auðvitað haft það. Þeir geta gert það í auknum mæli ef svo færi að Danmörk yrði aðili að Evrópusamveldinu, þ.e. staðfesti samninginn frá Maastricht um Evrópska samveldið sem við köllum svo og kennt er við samningana frá Maastricht.
    Ég vil nefna hér eitt dæmi sem snýr að Dönum í þessu sambandi, mjög stórt mál sem þar hefur vakið umræðu og getur haft áhrif inn í norrænt samstarf og varðar EES-samstarfið ef af því yrði. Það er ákvæði sem er að finna í Maastricht-samningunum þess efnis að lög þurfi í sambandi við kjarasamninga. Að það sé í rauninni ekkert hald í samningum aðila vinnumarkaðarins eins og við þekkjum þá hér á Norðurlöndum og sem eru algengasta formið. Þeir fái í rauninni ekki staðist og það sé ekki hægt að tryggja að þeir séu virtir vegna þess að Maastricht-samningurinn geri ráð fyrir því að það þurfi lög til að kjarasamningar haldi, séu heldir og veiti einhverja réttarstöðu. Þetta er mikið rætt núna í Danmörku og ég leyfi mér að nefna það hér, virðulegur forseti, í þessu samhengi sem varðar samnorrænt samstarf á sviði félagsmála. Það eru miklar áhyggjur hjá dönsku verkalýðshreyfingunni vegna þessa ákvæðis inni í Maastricht-samningunum sem geta auðvitað haft áhrif á hið norræna samstarf fyrr en varir.
    Ég ætla ekki að gera þetta mál að öðru leyti að umtalsefni hér en vildi nefna það því það er nýtt og býsna stórt mál sem snertir Norðurlöndin í tengslum við Danmörku. Danir eiga eftir að svara því fyrir sig hvort þeir staðfesta samkomulagið og engin vissa er fyrir því að svo fari. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður um Maastricht-samningana þar 2. júní eins og rætt hefur verið hér um nýverið.
    Vissulega eru mörg fleiri atriði sem snerta réttarstöðu vinnandi fólks sem koma sem endurkast frá Evrópubandalaginu og snerta Danmörku, óháð Maastricht-samningunum, þ.e.

varðandi núverandi stöðu. Þar má nefna ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins frá því í marsmánuði 1991 þar sem kveðið var upp úr með það að fyrir verkafólk eða starfsfólk sem leitar að vinnu í öðru landi innan Evrópubandalagsins gildi ekki launasamningar viðkomandi lands nema því aðeins að þeir samningar séu lögbundnir, hafi lagastöðu. Þetta er mikið áhyggjuefni á vinnumarkaði í Danmörku sem eðlilegt er og spurningin er: Hver er staðan hér ef menn fara út í EES-samstarfið? Hver er staða íslenskrar verkalýðshreyfingar að þessu leyti? En ég ætla, virðulegur forseti, með tilliti til þess að þetta er til hliðar við frv. sem við ræðum hér, ekki að fara lengra út í þá sálma þótt ég leyfi mér að nefna þetta hér.
    Ég vil í leiðinni vekja sérstaka athygli á þeim þætti sem varða EES-samningana, þ.e. breytingar á atvinnurétti sem eru gífurlega miklar. Mér finnst að sá þáttur málsins hafi fengið allt of litla umræðu hér. Ég hef ekki orðið var við mikla umræðu á vegum samtaka launafólks þótt hún hafi verið nokkur um þetta efni. En í ljósi þess sem fyrir liggur og m.a. má lesa um í skýrslu hæstv. utanrrh. frá október 1990 á bls. 25--26, þar sem menn hafa dregið saman hvernig þetta liggur, hversu gífurlega miklar breytingar hér er um að ræða í sambandi við vinnurétt og hvernig við afsöluðum okkur því sem tengist íslenskum þegnrétti og því sem við höfum deilt með Norðurlöndunum að þessu leyti og færum yfir á allt annað svið sem hlýtur auðvitað að vera áhyggjuefni í sambandi við hið mikla atvinnuleysi sem ríkir í Evrópu, í Evrópubandalagsríkjunum og fer vaxandi á nýjan leik. Atvinnuleysi er rétt um 10% að meðaltali og auðvitað er það vaxandi og þrengingar eru einnig á vinnumarkaði hér sem annars staðar á Norðurlöndum. Ég leyfi mér að nefna þetta.
    Ég ætla að fara til baka til frv., virðulegur forseti. Er það svo, hæstv. menntmrh., að löggilding starfa, lögbinding starfsréttinda og viðurkenning á prófskírteinum fái að halda sér ótrufluð af þessum samningum og með tilliti til þess að það er sú stefna sem farin er innan Evrópubandalagsins nú? Ég hef ekki sett mig inn í það neitt að gagni. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst okkur um það.