Starfsréttindi norrænna ríkisborgara

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 14:27:00 (5220)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég á að sjálfsögðu enga kröfu á að hæstv. samstarfsráðherra veiti svör við beinum fyrirspurnum þótt ég nefndi það við hann hér utan umræðunnar að ég vildi fræðast um þetta efni af því að hann var hér eftir þegar hinir hlupu á dyr. Það tók ekki langan tíma, það tæmdist hér ráðherrabekkurinn eftir þá nýbreytni sem var innleidd. Það var dálítið slæm staðfesting á vondum grun sem bjó með okkur þingmönnum að nýskipanin leiddi kannski til þess að það yrði ekki nema einn sem sæti eftir á þessum útdeilda

tíma fyrir ákveðin málasvið. En það er önnur saga og ég þakka viðleitni hæstv. umhvrh. til svara í sambandi við þetta. Ráðherrann hefur ekki alveg stillt inn á rétta bylgjulengd þegar ég flutti mitt mál varðandi frv. Ég taldi að hér væri um gott mál að ræða sem ég vonaði að fengi jákvæða afgreiðslu en var aðeins að forvitnast um stöðu þess og hversu tryggt málið væri með tilliti til annarra samninga og miklu stærri mála sem hér eru nærri þótt ekki séu staðfest eða komin til þingsins og nokkur óvissa ríkir um þessa dagana.
    Varðandi það viðhorf og von sem hæstv. samstarfsráðherra lét í ljós um að EES-samningur hróflaði ekki við með neikvæðum hætti þeim samningum sem menn hafa bundist í norrænu samhengi skulum við vona að það viti á gott. Ég er ekki alveg viss um að það gildi í öllum tilvikum en það er eitt af því sem við þurfum að setja okkur inn í í sambandi við þetta. Ég held að það sé alveg ljóst að við höfum ekki kröfu til neinna sérréttinda og þess vegna kemur mér nokkuð á óvart ef við getum lokað okkur af með sérréttindi í slíkum samningum sem ekki gildi fyrir aðra íbúa, óháð þjóðerni, á EES-svæðinu. Ég mun bera fram þinglega fyrirspurn til hæstv. samstarfsráðherra um þetta efni þannig að við fáum þá upplýsingar að athuguðu máli.