Fullorðinsfræðsla

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 15:08:00 (5226)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það segir ekki nógu góða sögu um Alþingi Íslendinga að það skuli hafa liðið nærri tveir áratugir frá því að fyrst var flutt hér frv. til laga um fullorðinsfræðslu og enn stöndum hér og erum að fjalla um frv. um þennan þýðingarmikla þátt eða þátt sem ætti að vera gildur og þýðingarmikill í fræðslukerfi þjóðarinnar. Við skulum því vona að þessari raunagöngu fari að ljúka og það náist að setja löggjöf um þessi efni á Alþingi. A.m.k. ættu menn að vera búnir að átta sig á því hvað sé þörf á að lögbjóða í þessum efnum. Vissulega var tekið skref í þessa átt með lögum um öldungadeildir menntaskóla á sínum tíma. Ég kann ekki að árfæra hvenær það var gert en það var svona styttri leið sem valin var til þess að greiða fyrir fræðslu fullorðinna í framhaldsskólum eða í tengslum við framhaldsskóla í landinu. Það var góðra gjalda vert að svo var gert enda hafa öldungadeildirnar unnið hið þarfasta verk og orðið mörgum góður skóli og margir sem hafa notað þær sem innkomu á nýjan leik í fræðslukerfi í landinu og aflað sér réttinda fyrir utan almenna fræðslu eftir þeirri leið. Síðan hafa skólar auðvitað verið opnaðir mikið frá því sem áður var þannig að menn hafa möguleika á því að stíga inn í hið formlega skólakerfi með allt öðrum hætti en gerðist án þess að hafa til þess prófgráður eins og við þekkjum, og það er sannarlega vel að það hefur verið gert og e.t.v. hefur það dregið úr þrýstingi á lagasetningu um fullorðinsfræðslu. Eftir sem áður hefur verið spurt eftir slíkri löggjöf og enn er Alþingi beðið um að lögfesta ákvæði um þessi efni.
    Fyrsta frv., sem hæstv. ráðherra vitnaði um og varð tilefni þess að ég tók þennan doðrant með mér í ræðustól, var frv. um fullorðinsfræðslu sem fyrrv. menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson, kenndur við Brekku í Mjóafirði, lagði fram á Alþingi og var mikið mál. Það var mikið að umfangi og var mér raunar minnisstætt þegar mælt var fyrir þessu frv. vegna þess að ég pældi í gegnum þetta sem vesæll skólanefndarformaður austur á landi og við fjölluðum um frv. mjög ítarlega í skólanefndinni í Neskaupstað og veittum umsögn um það. Í þessu þingskjalasafni tekur það yfir frá bls. 322 til 397 þannig að hæstv. núv. menntmrh. er langt frá því að því er snertir umfang málsins að vera jafnoki bóndans frá Brekku sem kom þessu fyrsta frv. hingað inn. Nefnd um þetta efni vann málið fyrir ráðuneytið. Hún var undir forustu Guðmundar Sveinssonar skólastjóra, sem var mjög mikill áhugamaður um fullorðinsfræðslu og flutti um hana útvarpserindi og þessi útvarpserindi er að finna í þessari bók fyrir þá sem vilja kynna sér sögu og hugmyndir og bakgrunn fullorðinsfræðslu aftur í aldir. Þetta er hið fróðlegasta skjal og fyrir utan það er langt heimildasafn, upp á einar þrjár blaðsíður, úr ritum víðs vegar að úr heiminum um málaflokkinn. Þetta mæli ég bara til upprifjunar fyrir okkur í þingnefnd sem eigum eftir að fjalla um þetta sem og aðra áhugaaðila.
    En þetta nægði ekki og mig minnir málið hafa komið nokkrum sinnum fyrir Alþingi í ráðherratíð Vilhjálms á Brekku og ekki gekk rófan, ekki var frv. samþykkt eða lögfest.
    Síðan hafa verið gerðar atrennur að þessu máli og ein atrennan hófst með glímu uppi í Stjórnarráði. Það er náttúrlega ekki í fyrsta sinn sem er glímt í Stjórnarráðinu eða við ríkisstjórnarborðið um hvernig eigi að halda á málum í sambandi við löggjöf í landinu og var hart glímt og hart deilt. Hæstv. ráðherra fór fljótt yfir þá sögu sem eðlilegt var og gaf um það yfirlýsingu að ekki hefði hann treyst sér í að taka þann rammaslag upp á nýjan leik við hæstv. félmrh. sem forveri hans hefði mátt þreyja og orðið undir, ef ég hef skilið málið rétt. Ein afleiðing þess er sú að við erum hér með tvö frv. sem varða fullorðinsfræðslu í landinu til meðferðar á Alþingi þessa dagana, þ.e. frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu sem hæstv. ráðherra vék að í sinni framsögu og frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu. Við ræddum hitt málið við 1. umr. fyrr í vetur og var þá einmitt lýst eftir þessu frv. sem nú er fram komið og sem við ræðum. Það var einnig til umræðu

í þingnefndum, félmn. að ég held og í öllu falli í menntmn., að ástæða væri til að fá að líta á frv. menntmrh. um almenna fullorðinsfræðslu áður en þingnefndir skiluðu áliti varðandi hitt málið sem félmrh. dreif fram, auðvitað langt á undan menntmrh., enda átti hún það í pússi sínu. Ég veit ekki af hverju hæstv. menntmrh. varð á eftir í þessu kapphlaupi þeirra ráðherranna eða tókst ekki að koma ekki með málið nokkurn veginn jafnhliða þannig að okkur gæfist færi á að fjalla um það samtímis sem æskilegt hefði verið því ég lít svo til að hvað sem líður átökum uppi í Stjórnarráði og við ríkisstjórnarborðið þá höfum við hér á Alþingi frjálsar hendur um að leiða saman mál sem saman eiga og stuðla að því að friður geti tekist og löggjöfin orðin sem best úr garði gerð.
    Ég ætla ekki að fara langt út í þá vandræðalegu stöðu sem blasir við okkur í sambandi við frv. sem eru um fullorðinsfræðslu. Það er búið að skila áliti varðandi fyrra málið sem hæstv. félmrh. lagði fyrir þingið, komið er nál. og brtt. og sýnist sitt hverjum. Ég er í hópi þeirra sem tel að rangt sé að staðið í þeim efnum að taka starfsmenntun í atvinnulífinu út úr og tengja ekki við aðra starfsemi í fullorðinsfræðslu og fara að færa fyrri þáttinn undir allt annað ráðuneyti en það sem fer með meginþætti fræðslustarfsemi í landinu. Og ekki aðeins það heldur er jafnframt í frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu verið að búa til hólf fyrir sjútvrh. til að hafa fræðsluþátt að bjóða á sínu sviði. Allt er þetta mjög ambögulegt svo ekki sé meira sagt því í rauninni er verið að búa til tvöfalt kerfi og reyndar þrefalt, með tilheyrandi ráðum og nefndum sem eiga að fjalla um þetta og tveimur sjóðum sem eiga að fjármagnast af fjárlögum. Þetta er auðvitað ekki hægt. Það er auðvitað ekki frambærilegt að koma með mál svona fyrir þingið. En það er ekki í fyrsta sinn. Þetta hefur legið fyrir okkur áður og nú er okkar að breyta þessari vitleysu, vinda ofan af þessari þrætu sem leiðir auðvitað bara til ófarnaðar og erfiðleika í sambandi við að efla málaflokkinn, að efla fullorðinsfræðsluna. Það er það sem liggur fyrir okkur og ég þykist vita að við getum fengið a.m.k. bakstuðning hæstv. ráðherra þó hann kannski hafi ekki mjög hátt um það svona af herkænskuástæðum, en ég treysti því að við gætum átt von á bakstuðningi hæstv. ráðherra til þess að færa þetta í skynsamlegt horf, þó hann ekki treysti sér í glímuna þarna upp frá.
    Það sem kemur í ljós þegar þessi mál eru borin saman er að í rauninni er verið að búa til tvöfalt kerfi. Það sem mér þykir síst til eftirbreytni í þessum málum er það sem snýr að stefnumótun. Starfsmenntaráðinu, sem félmrh. ætlar að ráða yfir, er ætlað að hafa frumkvæði um mótun heildarstefnu varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu samkvæmt ákvörðun starfsmenntaráðs. Og síðan ætlar hæstv. menntrmh. að skipa fullorðinsfræðsluráð til fjögurra ára í senn til að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu. Og hvað er fullorðinsfræðsla, almenn fullorðinsfræðsla og hvað er starfsmenntun og hvernig er greint þarna á milli? Það er þrautin þyngri að hólfa þetta sundur. Það verður þrautin þyngri fyrir viðskiptaaðila Stjórnarráðsins, þjóðina, að vita í hvort ráðuneytið á að skrifa. Það er náttúrlega alveg undir hælinn lagt hvort bréfin verða flutt á milli ráðuneyta ef þau skyldu lenda á röngum stað, því það er engin tenging þarna á milli. Þess er gætt svo vandlega að hvorugur viti af öðrum að í þessum ráðum, fullorðinsfræðsluráði og starfsmenntaráði, sem allnokkrir eiga sæti í, mig minnir sjö hjá hæstv. félmrh., samkvæmt hans frv. Þar er enginn frá hinu ráðuneytinu. Það er passað að sýna ekki á spilin. Það er passað að engin tengsl séu þarna á milli og hvorugur viti af öðrum, svo vandlega er séð fyrir þessari sundurgreiningu. Og ég andmæli þessari stefnu og að fá afkvæmi þessarar þrætu inn á Alþingi í þessu formi. Hér er óskynsamlega á máli haldið og auðvitað óskynsamlegt hvernig sem á málið er litið, en það má ekki hins vegar verða til þess að við missum sjónar á málefninu. Við verðum að reyna að leiða þessi mál hér til einhverra lykta þannig að málefnin gjaldi ekki fyrir þetta fram á næstu öld. Ég veit ekkert hvað hæstv. núv. félmrh. endist í starfi. Hún er einbeitt og gæti vel átt það til að halda hér út og þreyja þorrann ef hún má ráða eitthvað fram eftir áratugnum og kannski lengur. --- Hvað segir hv. þm. mér á vinstri hönd um það? Hann kann að meta það betur en ég. Auðvitað vona ég að við sjáum núv. hæstv. menntmrh. í þingsölum en ég vona að hann vermi ekki stólana í menntmrn. allt of lengi. Það er önnur saga sem ekki tengist beint

þessu frv.
    Það er á þessum þáttum sem ég vildi vekja athygli og þessum tengslum og nú spyr ég hæstv. ráðherra: Er kannski í boði að við dokum við með afgreiðslu hins málsins þannig að menntmn. geti tekið á málinu? Ekki hefði ég á móti því að hún talaði við félmn. því þær þurfa að vita hvor af annarri þó að hin sé búin að afgreiða fyrra málið frá sér þannig að okkur gefist kostur á því að leita að einhverri farsælli niðurstöðu í þessu máli en efnt er til samkvæmt þessum stjórnarfrumvörpum.
    Það einkennir þetta mál hæstv. menntmrh. fyrir utan efnið að það er ekki stórt að umfangi. Það er smátt miðað við málið frá Vilhjálmi á Brekku á sínum tíma og það byggir mikið á því að vísa málum í reglugerð. Út af fyrir sig er það í máli sem þessu stefna sem ég ætla ekki að hafa á móti að sé notuð, að vísa til reglugerðar um útfærslu á ýmsum þáttum eins og hér er gert ráð fyrir.
    Mér finnst að það þurfi að fara ofan í saumana á þessu máli, auðvitað með tilliti til efnis þess en einnig með hliðsjón af hinu málinu og hvernig þetta megi allt saman bæta þannig að málið hafi sóma af umfjöllun þingsins og við náum fram löggjöf um þetta. Auðvitað verðum við að rista okkur fram úr þessum málum í þinginu þó við séum sáróánægð með það sem að okkur er rétt af ríkisstjórnarinnar hálfu í þessum efnum. Ég tala þar fyrir mig og við höfum látið til okkar heyra frá bæði félmn. og menntmn. sem sitjum í þeim nefndum af hálfu Alþb. og ég túlka viðhorf sem við stöndum þar fyrir og höfum þegar kynnt vegna hins fyrra málsins.