Framhald þingfundar

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 16:34:00 (5403)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er að sjálfsögðu ákvörðunaratriði hverju sinni hversu lengi er fundað á Alþingi en við höfum nú einu sinni almennar reglur sem hafa verið settar sem við hljótum að ganga út frá að séu í heiðri hafðar á meðan ekki er um annað rætt og um annað samið. Ég hef ekki heyrt að hér ætti að halda áfram þingstörfum til klukkan sex á þessum degi eða fram yfir umsaminn tíma sem er miklu fyrr, í lengsta lagi til klukkan þrjú á fimmtudögum samkvæmt þeim reglum sem kynntar voru í þingbyrjun. Hið sama gildir um föstudaginn, það væri mjög æskilegt að fá vitneskju um það með fyrirvara hversu lengi er ráðgert að funda. Þetta er afar óheppilegt. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið þar að lútandi.