Skipulag á Miðhálendi Íslands

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 11:18:00 (5421)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir og hæstv. umhvrh. hefur mælt fyrir er athyglisvert mál. Það er flutt hér sem stjfrv. en hæstv. ráðherra greindi frá því að ekki væri tryggur stuðningur við málið í þingflokkum ríkisstjórnarinnar. Vafalaust er hæstv. ráðherra þar að greina frá staðreyndum sem fyrir liggja en ég vek athygli á þessu og mér þykir það lakara að svo stórt málefni skuli koma hér fyrir þingið stefnumál af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og hæstv. ráðherra greindi frá, án þess að búið sé að ganga frá málinu í baklandi ríkisstjórnarinnar. Ég held að við höfum þegar heyrt hér í upphafi þessarar umræðu tóna sem bera vott um það að misjafnar undirtektir verði af hálfu stjórnarandstöðu varðandi málið og þeim mun brýnna hefði ég nú talið að í slíku stórmáli væri búið að stilla saman strengi af hálfu stjórnarliðsins. Þetta er, eins og hæstv. ráðherra greindi frá, atriði sem er í stjórnarsáttmála með ákveðnum hætti. Ef svo mikilsverð mál eins og það sem hér er á ferðinni hefur ekki stuðning þegar á reynir í því liði sem styður ríkisstjórnina hér á Alþingi þá er mjög erfitt að átta sig á hvaða gildi samstarfssamningurinn, hvítbókin svonefnda, hefur í raun varðandi önnur mál.
    Nú er það vissulega svo að ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því hvernig mál ganga fyrir sig innan ríkisstjórnarinnar, hjá stuðningsflokkum hennar, síst af öllu í málum sem mér eru mótdræg og ég er í andstöðu við en hitt er þó umhugsunarefni hvort ekki er þörf á því hér vegna starfa þingsins og vegna stöðu ríkisstjórna að reynt sé að ganga betur frá málum sem varða grundvallaratriði áður en þau eru lögð fyrir þing sem stjfrv.
    Aðdragandi þessa máls hefur að nokkru verið kynntur. Það var unnið að þessu málefni í tíð fyrrv. ríkisstjórnar á hennar vegum, á vegum hæstv. umhvrh. sem þá starfaði sem skipaði nefnd sem kölluð var hálendisnefnd. Það var haustið 1990, í októbermánuði sem það var ákveðið og nefndin starfaði um tveggja til þriggja mánaða skeið ef ég man rétt. Þetta var fjölmenn nefnd sem bar sig saman um það málefni sem hér er komið á dagskrá. Í henni áttu sæti m.a. þrír alþingismenn. Sá sem hér talar var einn af þeim sem þar starfaði, tilnefndur af þáv. menntmrh., en einnig voru tilnefndir þingmenn og fulltrúar annarra þingflokka sem áttu þarna sæti. Þar af voru tveir alþingismenn, sem ég sé ástæðu til að geta um, þeir Geir Gunnarsson frá Alþb. og Jóhannes Geir Sigurgeirsson frá Framsfl.
    Það samráð sem fram fór á vegum þessarar hálendisnefndar var mikilsvert í aðdraganda málsins og sú kynning sem síðan átti sér stað á meðan Alþingi sat, 113. löggjafarþing, og það erindi sem sent var sveitarstjórnum í sambandi við skýrslu sem þáv. umhvrh. lagði fram um undirbúning að löggjöf um stjórnsýslu á Miðhálendi Íslands að því er tekur til skipulags- og byggingarmála. Það var athyglisvert að heyra frá hæstv. ráðherra að engin viðbrögð hefðu komið við þessu erindi frá sveitarstjórnum í landinu og út af fyrir sig mætti hugsanlega eitthvað lesa úr þeirri afstöðu en auðvitað ekki ástæða til að draga af því víðtækar ályktanir aðrar en þá þær að það málefni sem vakin var athygli á með þessari skýrslu og hugmyndum sem henni tengdust væru ekki jafnmótdrægar sveitarstjórnum í landinu og þeim viðhorfum sem þar eru eins og jafnvel hefði verið ástæða til að ætla og verið er að gefa í skyn að muni verða vegna þessa frv. Ég held að við ættum ekkert að gefa okkur fyrir fram í þeim efnum. Auðvitað skiptir það afar miklu máli að samráð sé haft sem víðtækast um svo þýðingarmikið mál sem hér liggur fyrir þinginu og það sé reynt að taka á málinu efnislega, málefnalega og í ljósi þeirrar miklu þýðingar sem það hefur fyrir alla Íslendinga að ráðin verði bót á því ástandi og þeirri þróun sem er í gangi, óheillaþróun leyfi ég mér að segja, að því er varðar umgengni við óbyggðir í landinu.
    Ég tel að það frv. sem hér hefur verið kynnt sé efnislega vel búið. Ég vil ekki dæma um undirbúning. Ég þekki það ekki svo náið fyrir utan hálendisnefndina en ég tel að þær tillögur sem hér eru framreiddar varðandi stjórn skipulags- og byggingarmála á Miðhálendi Íslands séu þess efnis að það sé mjög langt frá því að ástæða sé til að vísa þeim frá. Þvert á móti er fyllsta ástæða til þess fyrir þingið og þingnefndir sem um þetta mál fjalla að taka þetta mál af alvöru og festu til meðferðar og ég er reiðubúinn til þátttöku í því starfi út frá þeim sjónarhóli sem ég stend á þegar litið er til óbyggða í landinu.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara langt út í það að fjalla um þær aðstæður sem kalla á aðgerðir í þessum efnum. Þær ættu í rauninni að vera hverjum manni ljósar sem fylgist með stöðu mála. Það var minnt á það í ræðu hæstv. ráðherra hvernig aðstæður hafa breyst á undanförnum áratugum, á þessari öld, einkum á seinni hluta hennar og möguleikar manna, innlendra sem erlendra, til að ferðast um óbyggðir með vélknúnum tækjum hafa batnað til stórra muna þannig að í rauninni eru þar engir staðir utan seilingar. Og sú staðreynd ætti að vera mönnum umhugsunarefni, ekki út frá því sjónarmiði að það beri að loka þessum óbyggðum fyrir umferð fólks, að það eigi að koma í veg fyrir að menn njóti óbyggðanna, heldur út frá því sjónarmiði að við varðveitum þá kosti sem óbyggðirnar hafa og þá gífurlega miklu möguleika sem Íslendingar hafa til að njóta þessarar auðlindar sem óbyggðirnar eru, þessara landkosta og sérstæðu aðstæðna sem óbyggðir Íslands búa yfir. Það er mjög auðvelt að spilla þessum kostum, að eyðileggja þá í rauninni ef ekki er séð fyrir því með almennum reglum að umgengnin sé í því horfi að kostirnir sem við viljum varðveita séu í reynd verndaðir.
    Það er nokkuð síðan að sett var löggjöf hér á Alþingi um skipulagsskyldu landsins alls. Í reynd hefur sú löggjöf ekki náð fram að ganga varðandi stór svæði á landinu vegna þess að ekki hafa verið virtar þær leikreglur sem þar eru settar, bæði vegna þess að áhuga kann að hafa skort á að virða þær en eins vegna hins að það er veruleg réttaróvissa um stöðu stórra svæða í landinu, afmörkunar á milli heimalanda jarða og afréttarlanda og á milli afréttarlanda og svokallaðra almenninga. Það eru þessar óvenjulegu aðstæður, einstæðar í Evrópu að ég held, sem gera það knýjandi að við tökum þessi mál sérstæðum tökum í ljósi þessara aðstæðna og bregðumst við með því að skapa leikreglur með löggjöf og heimildir til handa framkvæmdarvaldinu til þess að taka á þeim þáttum og stilla saman strengi eins og nauðsynlegt er að gera, ef vel á að fara. Það er með öllu ólíðandi, virðulegur forseti, að mínu mati, ef þröngir hagsmunir fárra í landinu eiga að koma í veg fyrir það nauðsynjaverk að slíkar reglur séu settar. Hverjar reglurnar svo eru og hvernig þær eru mótaðar og hverjir þar koma við sögu, er það mál sem við þurfum að ræða og leita sem víðtækastrar samstöðu um því auðvitað er það svo að því betri stuðningur sem er við ákvarðanir og löggjöf þeim mun meiri líkur eru á að hún haldi í reynd og verði að því gagni sem að er stefnt.
    Það er ekki frambærilegt, virðulegur forseti, að vísa til þess að þessi mál séu í skaplegu horfi í landinu og við höfum tæki nú þegar til þess að bregðast við aðstæðum og það sé ekkert annað heldur en að bæta þær aðstæður, bæta aðstæður þeirra sem þar eigi að koma við sögu. Þannig eru málin ekki og það er ekki frambærilegt, og hljóta flestir að átta sig á því, að tala út frá þeim grunni.
    Þetta mál varðar ekki spurninguna um lögformlegan eignarrétt að landi. (Gripið fram í.) Þetta varðar ekki þá spurningu. Ef svo væri, ef málið hefði verið tekið upp á þeim grunni, þá held ég að það væri ekki komið hér inn á vettvang Alþingis. Þá held ég að það væri ekki komið hingað inn. Vegna þess að væri svo, þá þyrfti löggjafinn að taka á ýmsum óvissuþáttum sem snerta eignarráð og eignarhald á landi í framhaldi af þeim dómum m.a. sem fallið hafa þar að lútandi og sem skilja málið eftir opið og vísa því til Alþingis Íslendinga ef það svo kýs að kveða á um það í löggjöf.
    Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi hefði fyrir löngu átt að taka á því máli til að eyða réttaróvissu eins og svo fjölmörgum málum öðrum sem þingið hefur látið hjá liggja að gera varðandi hin þýðingarmestu málefni. Og það verður að segjast að mér finnst metnaður Alþingis, og þá er ég að tala um okkur í heild, Alþingi sem stofnun, hafi verið ótrúlega lítill á liðinni tíð til þess að taka á slíkum aðstæðum. Þörfin á því að það sé gert verður æ brýnni, verður æ nærtækari og nú þegar farið er að tala um það að breyta grundvelli þeim sem við höfum í raun staðið á hér í landinu um aldir og alveg sérstaklega eftir að við tókum stjórn mála í eigin hendur og fengum fullveldi, stofnuðum ríki, fullvalda ríki á Íslandi, þá er verið að breyta þeim aðstæðum eða boða það með drögum að samningum sem liggja á borðum alþingismanna, að opna Ísland fyrir útlendingum í algjörlega áður óþekktum mæli. Ætla menn sem vilja stíga þetta skref, ég er ekki í þeirra hópi, að standa að slíkum gjörningi án þess að búið sé að ganga frá leikreglum hér innan lands um hin þýðingarmestu efni? Áður en búið er að koma því í kring hvernig menn ætla að taka á skipulagi og stjórnsýslu á stórum svæðum landsins? Og auðvitað líka án þess að hafa tekið á grundvallarspurningum um yfirráðarétt og eignarhald sem svo er kallað? Sem svo er kallað því þar eru mörkin einnig óljós að því er varðar okkar stjórnarskrá og þess vegna liggur málið fyrir Alþingi að taka á því. Ég bið menn að hafa þetta í huga og þær sérstöku aðstæður sem nú eru í sambandi við umræðuna um tengslin út á við við önnur lönd og að deila í áður óþekktum mæli rétti Íslendinga með öðrum þjóðum, í raun öllum íbúum Vestur-Evrópu.
    Þær hugmyndir sem komnar eru í frumvarpsbúning og við ræðum hér eiga rætur í þeirri umræðu sem fór fram innan hálendisnefndar veturinn 1990--1991. Þar var mönnum ljóst, og ég má segja að um það hafi verið sammæli, að ekki væri ráðlegt að taka á þessum málum að neinu leyti út frá spurningunni um eignarhald, heldur hinu að takmarka sig við að setja reglur og löggjöf eftir því sem þörf er á um meðferð skipulags- og byggingarmála í óbyggðum, á hálendi landsins.
    Ég ætla ekki hér að fara að rekja umræðu um þetta á vettvangi nefndarinnar, en ég vil þó nefna það að fulltrúi þingflokks Alþb. í þessari stjórnskipuðu nefnd, Geir Gunnarsson, fyrrv. alþm., átti hlut að því að beina málinu í þennan farveg með því að benda á í nefndinni og hafa að því frumkvæði að slík málstök væru skynsamleg. ( Gripið fram í: Er ekki hægt að fá þetta álit?) Það liggur fyrir, virðulegur þingmaður, í skýrslu frá 113. löggjafarþingi sem þá var lögð fram, 388. mál þess þings á þskj. 693. Það er ekki formlegt nál., það var ekki gefið út nál., heldur tók þáv. umhvrh. saman skýrslu og lagði hana fyrir þingið á þessu þskj.
    Ég var að vona það að umræðan um þetta mál gæti orðið með jafnvinsamlegum og hógværum hætti og var í því samráði sem fram fór í þessari fjölmennu nefnd. Þar á ég bæði við þingmenn sem þar áttu sæti sem og aðra, því að í rauninni greindi menn ekki á um að þörf væri á því að taka á viðfangsefninu. Það voru hins vegar ýmsar hugmyndir uppi um leiðir til þess að ná fram úrbótum, það ætla ég ekki að rekja hér. Ég geri ráð fyrir því að fundargerðir þessarar nefndar séu aðgengilegar fyrir þá sem vilja kynna sér þær, a.m.k. hefði ég ekki á móti því. Þetta var ekki langvinnt nefndarstarf, sem þarna fór fram, en það varð til þess að málið beindist í þann farveg sem málið liggur nú fyrir í og er rætt hér.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara langt út í einstök efnisatriði þessa máls. Hæstv. ráðherra hefur gert tillögu um það að umhvn. þingsins fái mál þetta til meðferðar. Það tel ég rétt ráðið og eðlilega. Umhvrn. fer með skipulagsmál. Hér er um að ræða mál sem snertir umhverfi landsins og er tengdara því heldur en margt annað sem fyrir umvhn. hefur komið, þó ég ætli ekki að gagnrýna neitt af því sem þangað hefur verið vísað, en vil aðeins undirstrika að þetta er stórt mál og mikilsvert.
    Hæstv. ráðherra benti á að hér væru ýmis álitamál á ferðinni og ég tek undir það.

Það er skylt að fara yfir það og leita auðvitað sem víðast álits á þeim tillögum sem fyrir liggja með þessu frv. Eitt af því sem þar hlýtur að verða til álita er fyrirkomulag þeirrar nefndar, stjórnarnefndar sem svo er kölluð, sem gert er ráð fyrir að fari með stjórn skipulags- og byggingarmála á Miðhálendinu.
    Ég ætla ekki hér að fara að viðra neinar beinar tillögur til breytinga frá því sem fyrir liggur, en nefni það þó að mér finnst mjög vel koma til greina að reynt yrði að ná þar betri tengslum heldur en mér sýnist að fært sé samkvæmt þeirri leið sem hér er mörkuð við einstaka landshluta, við einstök kjördæmi getum við sagt, því það fer saman í mörgum tilvikum, fjórðungamörk gömul eða landshlutamörk og kjördæmi landsins. Þar er einnig, þó ekki hafi tekist þannig til eins og þörf væri á, að komið væri á sjálfstæðum stjórnsýslueiningum í landshlutunum, eins konar fylkjaskipan í landinu sem ég hef verið talsmaður fyrir. Það hefði auðveldað margt ef horfið væri að því ráði því málaflokk eftir málaflokk, þegar við erum að ræða um það að styrkja stöðu byggðarinnar í landinu, fólksins víða um landið, þá rekumst við á að það skortir slíkt stjórntæki sem sjálfstætt stjórnsýslustig væri þannig að unnt sé að taka heildstætt á málum og vísa málaflokkum sem eru á verkefni ríkisvaldsins nú yfir til slíks heimavalds sem hlyti og þyrfti að vera lýðræðislega kjörið og kemur ekki sveitarstjórnarmálum við í reynd eða því stjórnsýslustigi nema að takmörkuðu leyti þó að samstarf þyrfti að sjálfsögðu að vera þar á milli. En það er ekki umræðuefni í tengslum við þetta frv. þó ég nefni það hér því það tengist möguleikunum til tengsla við þá stjórnarnefnd sem hér er verið að gera tillögu um.
    Ég geri ráð fyrir því að það verði eitt af því sem við þurfum að ræða að ná slíkum tengslum, einnig við þá aðila sem vinna að skipulagsmálum í kjördæmum landsins þar sem skipulagsstjórn ríkisins hefur vísað málum út til undirstofnana eða skipulagsstofa sem eru starfandi og leitast við að leysa verkefni í samvinnu við skipulagsstjórn svæðisbundið. Þetta er ekki meginmál í sambandi við þetta frv. en skiptir þó mjög miklu að vel takist til í þessu efni þannig að þeir sem næst vettvangi eru, í þessu tilviki næst hverjum þeim hluta Miðhálendisins sem tengist viðkomandi byggðu svæði. Vissulega eru hér hugmyndir um það að tryggja slík tengsl í tengslum við þá skipan sem hér er gerð tillaga um, en sem er eitt af því sem hlýtur að verða til álita.
    Ég hef ekki sett mig náið inn í það hvernig hugmyndin er að fjármagna þá þætti sem varða grunnvinnu vegna skipulags á Miðhálendinu. Ég sé að gert er ráð fyrir því að þeir sem óska eftir mannvirkjagerð þar og umsvifum greiði fyrir slíkt með ákveðnu gjaldi. Slíkt kemur vissulega til álita að gert sé, en hitt er jafnnauðsynlegt að fara yfir þessi málefni á vegum almannavaldsins, á vegum ríkisins og stjórnarstofnana þess, til þess að átta sig á aðstæðum og gera frumúttekt á því hvernig ráðstafa beri landi og leitast við að stýra þar umferð og landnotkun almennt séð. Og það vænti ég að sé hér fyrirhugað í sambandi við þetta mál því að í því efni er mikið verk óunnið, geysilega mikið verk óunnið og það er einmitt eitt af því sem er áhyggjuefni varðandi þetta mál sem við ræðum hér.
    Það er nefnilega mál út af fyrir sig hvort útilokað er að gera mannvirki á tilteknu svæði og tekin afstaða til þess, alveg eins og að reisa mannvirki sem óskir koma um frá einstaklingum eða hagsmunaaðilum. Það er kannski það fyrsta sem stjórnarnefnd og skipulagsaðilar þyrftu að fara yfir: Hvar eru þau svæði, lítt snortin af mannvirkjagerð á hálendi landsins, sem ástæða er til að taka frá og vernda án mannvirkjagerðar eða með sem minnstri mannvirkjagerð til þess að halda eðli þeirra sem slíkra, sem ósnortinna víðerna sem er í rauninni það sem gefur hálendinu gildi í hugum okkar? Síðan er jafnvíst að óskirnar um umsvif, mannvirkjagerð, byggingar, vegi, slóða, muni ekki vanta enda eru þær á okkur nú þegar og landslög brotin í ríkum mæli án þess að vörnum sé við komið í sambandi við umferð á Miðhálendinu.
    Sá aðili í stjórnkerfi landsins sem hvað mest hefur gert til þess að vekja athygli á og reyna að koma vörnum við í sambandi við Miðhálendið og óbyggðir almennt er Náttúruverndarráð. Því hefur tekist í samvinnu við heimaaðila að friðlýsa og ná fram verndun á nokkrum svæðum í óbyggðum, sem betur fer. Þar er yfirleitt um að ræða friðlönd samkvæmt náttúruverndarlöggjöf en ekki þjóðgarða þó að þeir séu einnig þarna til staðar

og aðstæðurnar hafa verið þær að friðlýsing á grundvelli ákvæða náttúruverndarlaga um friðlönd hefur verið það sem eðlilegt hefur verið miðað við aðstæður, þær óskir um að halda hefðbundinni nýtingu sem gjarnan eru uppi hjá þeim sem tengdastir eru viðkomandi svæðum, en með slíku hefur þó tekist að koma við ákveðnum vörnum og koma í veg fyrir óhöpp sem væru orðin ef Náttúruverndarráð á undanförnum 15--20 árum hefði ekki komið þar við sögu. Sama gildir um tengsl ráðsins við opinbera framkvæmdaaðila sem hafa verið með nokkuð skipulegum hætti. Það á bæði við um opinberar stofnanir og framkvæmdaaðila eins og Vegagerð ríkisins. Það á við um virkjunaraðila og rannsóknaraðila og það kerfi, sem þar hefur verið leitast við að byggja upp, þó með veikum hætti sé og með rýrum fjárhag og fjárveitingum, hefur þó komið í veg fyrir stórslys í mörgum tilvikum og orðið til þess að þróa þessi mál, oft í mjög góðu samkomulagi við þá aðila sem hafa staðið fyrir umferð og umsvifum og mannvirkjagerð á hálendinu.
    Það er því ekki svo að við höfum verið með öllu varnarlausir í þessum efnum eða án stjórntækja þótt ófullkomin væru. Ég tel að þó að margt megi betur gera eftir þeirri leið, þá sé einmitt nú þörf á því að taka þessi mál nýjum tökum efnislega með þeim hætti sem hér liggur fyrir í þessu frv., að nú sé rétti tíminn og það megi ekki dragast.
    Ég vænti því, virðulegur forseti, að þetta mál fái athygli hjá framkvæmdarvaldinu og ríkisstjórn hver sem hún er og hver sem hún væri og að núv. ríkisstjórn leitist við að stilla saman strengina innanvert í sínu liði hvað þetta mál snertir því að ekki mun af veita ef menn ætla að ná árangri. Ég vil fyrir mitt leyti taka þátt í því að góð og efnisleg umfjöllun geti orðið um málið á vegum þingnefndar og sem víðast samráð um þetta mikilsverða málefni. Ég er viss um að mjög víða og raunar um allt land er ríkur skilningur á því að það þurfi að grípa til aðgerða í þá átt sem hér gerð tillaga um þó að menn séu kannski ekki reiðubúnir nema að betur athuguðu máli að taka afstöðu til þess nákvæmlega hvaða leið er valin. Og ég vara mjög eindregið við því, virðulegur forseti, að reynt sé að þyrla upp ómálefnalegu moldviðri vegna þess máls sem hér er fram borið og láta í það skína að hér sé um að ræða einhvern hernað Reykjavíkurvaldsins gegn landsbyggðinni. Þetta er mál landsins alls, sama hvar við búum. Þetta er ekkert sérmál Reykvíkinga. Þetta er ekkert sérmál þéttbýlisbúa. Þetta er málefni okkar allra. Þeir sem búa í hinum dreifðu byggðum landsins þurfa að átta sig á því að það eru ekki alltaf þeir sem hæst mæla og telja sig vera þar í vörn fyrir þeirra hagsmuni sem í raun vísa á æskilegustu leiðir í því efni. Um viljann til góðra áhrifa og góðra verka efast ég ekki, en það eru ekki alltaf þeir sem vísa á vænlegustu leiðir að marki í þessum málum.
    Ég tel mig vita nokkuð hvað klukkan slær hjá almenningi um þessi efni, ekki síst hjá því fólki víða um landið sem lætur sér annt um málefni óbyggðanna, þykir vænt um óbyggðirnar, notar þær og nytjar með hefðbundnum hætti en notar þær einnig til lífsfyllingar, hver hjá sér og auðvitað um landið allt á ferðalögum. Við þurfum jafnframt að átta okkur á því að þótt þetta sé íslenskt málefni, háíslenskt máefni, okkar eigin mál, þá snertir þetta auðvitað þann sívaxandi fjölda fólks sem okkur sækir heim, þann atvinnurekstur sem við erum að byggja upp í landinu í formi ferðaþjónustu en ég vil ekki draga nein skýr mörk á milli þeirra sem um landið fara eftir þjóðerni. Þeir eiga allir þann rétt að fara að settum reglum en þeir þurfa þá jafnframt að vita hverjar eru þær reglur. Og ef við gerum kröfur til þeirra sem sækja okkur heim, þá eigum við umfram allt að vera fyrst menn til þess að hegða okkur með þeim hætti sem við viljum að gestkomendur geri.
    Virðulegur forseti. Ég tel ekki ástæðu til að segja fleira að sinni um þetta mál. Ég er reiðubúinn til þess að taka á því á takmörkuðum tíma sem þetta þing hefur. Ég heyrði það á hæstv. ráðherra að þetta væri ekki eindaga mál miðað við þinglausnir eða þingfrestun af hans hálfu en ég tel út af fyrir sig að margt lakara hefði Alþingi gert heldur en afgreiða mál af þessum toga á þeim mánuði eða svo sem við höfum til umráða.