Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 13:42:00 (5606)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Hjörleifur Guttormsson) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Hér er komið á dagskrá mál sem hefur verið í umfjöllun í menntmn. um tveggja mánaða skeið eða eitthvað nálægt því og mikið verið í því unnið. Nefndarálitum var útbýtt á síðasta eða næstsíðasta þingdegi fyrir páskahlé þingsins, bæði frá meiri hluta og minni hluta ásamt brtt. eins og fram kemur á dagskrá fundarins.
    Það er hins vegar svo að þegar við afgreiddum þetta mál frá hv. nefnd þá höfðu nefndinni ekki borist útreikningar sem óskað hafði verið eftir í byrjun aprílmánaðar við þann aðila sem vann að athugunum á áhrifum frv. miðað við gildandi lög, þ.e. Hagfræðistofnun Háskólans. Þarna var um að ræða athuganir á stöðu lánasjóðsins með tilliti til líklegra affalla af lánveitingum. Bréf fór frá formanni nefndarinnar fyrir hennar hönd þann 7. apríl til Ríkisendurskoðunar til viðbótar við áður munnlega ósk og eftir að Hagfræðistofnun hafði tekið að sér að vinna þetta verk þar sem óskað var eftir því eftir beiðni frá Hagfræðistofnun Háskólans að Ríkisendurskoðun aðstoðaði Hagfræðistofnun við að meta afföll í breyttu lánasjóðskerfi. Þetta bréf var dags. þann 7. apríl en áður hafði Hagfræðistofnun byrjað sínar athuganir að ég best veit.
    Í menntmn. var um það rætt og allir höfðu áhuga á því að fá þessar upplýsingar. Við í stjórnarandstöðunni drógum það í efa að skynsamlegt væri að afgreiða málið frá nefndinni fyrr en þær lægju fyrir þannig að við gætum í okkar nefndarálitum tekið tillit til niðurstöðu úr þessum athugunum og lögðum á það áherslu. Hitt varð þó niðurstaðan að málið var afgreitt frá nefnd og nefndarálitum skilað í trausti þess --- og það held ég að gildi um okkur öll sem sæti eigum í menntmn. --- að niðurstöður þessara umbeðnu útreikninga lægju fyrir áður en málið kæmi til umræðu.
    Ég vil taka fram að formaður nefndarinnar var mjög viljugur til þess að verða við beiðni okkar stjórnarandstæðinga við athuganir á einstökum þáttum fyrir utan það að full samstaða var um í nefndinni að athuganir sem óskað var eftir að gerðar yrðu þannig að ég er á engan hátt að kvarta yfir því. Ég veit það að sá sem hér talar og vafalaust fleiri hafa verið að fylgjast með því hjá nefndadeild Alþingis hvort niðurstöður lægju ekki fyrir um þetta efni. Eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. geri sér grein fyrir sem og ráðherrar og hæstv. forseti þá er um mikilsvert mat að ræða á þessum tillögum, á þessu frv. sem fyrir liggur ásamt brtt. að því er varðar líkleg afföll í kerfinu. Mér finnst því í rauninni mjög erfitt að taka þetta mál

til 2. umr. núna á meðan þetta liggur ekki fyrir. Mér hefur verið tjáð að þess sé að vænta nú í dag að útreikningar og skil komi frá Hagfræðistofun, þó e.t.v. með einhverjum fyrirvörum af þeirra hálfu um þessi efni. Því vil ég bera þá ósk fram við hæstv. forseta að þetta mál verði ekki tekið til 2. umr. í dag vegna þess að það er auðvitað nauðsynlegt að við þingmenn getum áttað okkur á þessum atriðum sem þarna er von á sem snerta málið efnislega. Ég er með þessu á engan hátt að leitast við að seinka því að umræða geti hafist með eðlilegum hætti um þetta frv. sem er búið að vera lengi á vegum þingnefndarinnar í umfjöllun en þessir útreikningar sem öll nefndin varð sammála um að væri æskilegast að fá, hafa ekki enn þá borist og því ber ég, virðulegur forseti, þessa ósk hér fram.