Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 15:59:06 (5624)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þá ræðu sem hann flutti áðan vegna þess að mér finnst að hún varpi ljósi inn í hugarfylgsni hæstv. ráðherra, í rauninni miklu betur og skýrar en fram hefur komið við umræður um þetta mál áður. Hæstv. ráðherra fór í saumana á samanburði á tillögum meiri hluta og minni hluta og eigin frumvarps og gerði það betur en ég hafði gert þegar ég mælti fyrir áliti. Í þessu sambandi kom hins vegar í ljós að hæstv. ráðherra hefur þetta mál ekki á valdi sínu. Og það er kannski ekki að undra. Þetta er nokkuð flókið mál og ráðherrann studdist áreiðanlega við heimastíla frá aðstoðarmanni sínum eða aðstoðarfólki og ekkert við því að segja. Hann er að saka okkur um tillögur um atriði sem eru nýmæli en sem eru í rauninni í gildandi lögum þar sem við erum að leggja til að halda því sem óbreytt er, eins og varðandi ákvæði 3. gr. laganna. Hann kom af fjöllum í þeim efnum og um fleiri þætti var það þannig.
    Ég vil ekki þakka ráðherranum fyrir þær hótanir sem hann var með í garð viðskiptavina Lánasjóðs ísl. námsmanna. Hann hóf ræðu sína á hótunum um það að ef frv. yrði dregið til baka eða fellt með því að samþykkja dagskrártillögu okkar í minni hlutanum þýddi það a.m.k. 30% skerðingu á námslánum nú þegar. Það er auðvitað ósæmilegt að koma með þessum hætti fram. Ráðherrann segir það sjálfur og viðurkennir það að hann kemur seint fram með frv. miðað við það sem ætlunin var. Nefndin hefur unnið rösklega og vel að þessu máli og að sjálfsögðu er hægt, ef vilji er fyrir hendi, að endurmeta og endurskoða þetta mál á þessu ári. Þar stefnir ekki í neitt óefni. Og það var um fleiri þætti sem ástæða er til að ræða við ráðherrann þegar betri tími gefst til þess en ég læt þetta nægja.