Prentun EES-samningsins

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 13:38:00 (5948)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur flogið fyrir að óskir séu um það af hálfu ríkisstjórnar að hefja hér innan fárra daga umræðu um samning um Evrópskt efnahagssvæði. Nú vitum við að þessi samningur hefur verið undirritaður af hæstv. utanrrh. og þingmenn hafa fengið í hendur próförk af þessum samningi og bókunum sem honum fylgja í tveimur bindum, dags. 9. mars sl. Við höfum fengið eitt eintak í hendur, en þegar leitað er eftir því hjá skrifstofu þingsins að fá fleiri eintök, t.d. til að geta haft eitt á skrifstofu sinni og annað hér í þingsal eða til þess að senda það aðilum til þess að líta á mönnum til stuðnings við athugun málsins, þá fást þau svör að það er ekkert að hafa.
    Ég er með eina eintakið sem er fyrir utan hið skrásetta eintak í skjalasafni skrifstofu Alþingis sem hægt er að lána þingmönnum til þess að glugga í, eitt einasta eintak, og utanrrn. greinir frá því að verið sé að undirbúa prentun að fullbúnum samningi en það sé ekkert að hafa þangað til honum verður dreift hér á þinginu. Ég vildi spyrja hæstv. forseta að því hvort hann telji að þetta sé viðunandi staða varðandi þetta stóra mál, að ekki sé nú talað um kynningu á þessu máli eins og það liggur fyrir gagnvart almenningi sem ætti auðvitað að geta gengið inn í þinghús og fengið eintak af þessu máli ef menn vildu kynna sér það eins og það hefur verið lagt fyrir til þessa.
    Ég vil jafnframt spyrja hæstv. forseta að því hvað forseti og forsætisnefnd ráðgeri til að auðvelda þingflokkum athugun á þessu stóra máli sem rætt hefur verið um af hálfu ríkisstjórnar að taka upp til athugunar og umræðu á sumarmánuðum. Mér er kunnugt um að á öðrum Norðurlöndum hafa verið gerðar ráðstafanir til sérstaks stuðnings við þingflokka til að athuga þetta mál og gaumgæfa og það hlýtur að vera ekki minni þörf á því hér fyrir okkur á Alþingi Íslendinga að aðstaða sé til þess af hálfu þingsins að fara yfir þetta mál og leita svara við þeim mörgu spurningum sem því tengjast og fá til þess eðlilega aðstoð af hálfu Alþingis. Í þessu sambandi hljótum við að minnast þess að varið hefur verið samkvæmt upplýsingum utanrrn. 83 millj. kr. vegna undirbúnings málsins fram undir þetta og væri ekki goðgá að Alþingi yrðu búnar skaplegar aðstæður til þess að athuga málið þegar það berst til þingsins og ekki síðar.
    Ég vænti þess að hæstv. forseti geti svarað nokkru um þetta nú en eftir atvikum að athuguðu máli ef svör liggja ekki fyrir á reiðum höndum.