Afgreiðsla þingmála

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:01:33 (6504)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Eins og hæstv. forseta er kunnugt liggja fyrir þinginu tvær skýrslur sem varða starfsleyfi fyrir álver á Keilisnesi. Önnur er skýrsla sem hæstv. umhvrh. skilaði til þingsins sl. haust. Hin er skýrsla frá umhvn. dags. 26. mars sl. og þeirri skýrslu fylgdu óskir af hálfu nefndarinnar allrar um að hún yrði tekin til umræðu í þinginu og einnig þá skýrsla ráðherrans sem yrði rædd við sama tækifæri. Þetta hefur verið rætt síðan ítrekað í umhvn. Mér er kunnugt um að formaður umhvn. hefur borið þessa ósk fram ítrekað við hæstv. forseta. Í morgun var þetta til umræðu í nefndinni og áfram óskað eftir því að það yrði tryggt að þessi mál kæmu til umræðu á Alþingi fyrir þinglok. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu máli hér með orðum mínum um leið og ég legg á það ríka áherslu að það verði skapað svigrúm til umræðu um þessar skýrslur báðar hér og þá innan umsaminna tímamarka sem eðlilegt er miðað við áform um þinglok.