Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 16:48:00 (6822)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég er ansi hræddur um að það eigi eftir að koma fram mörg atriði lík þeim sem hér eru rædd við nánari athugun á þeim 9.000 blaðsíðum af skuldbindandi texta sem Íslendingum er ætlað að taka á sig með samþykkt samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Þá er talað um blaðsíður í broti Stjórnartíðinda Evrópubandalagsins sem hægt er að margfalda með tveimur og vel það. Við heyrum á hvaða ís hæstv. landbrh. og aðrir ráðherrar standa í þessu máli. Hæstv. landbrh. viðurkenndi að hér stæði fullyrðing á móti fullyrðingu og íslenskir ráðamenn mundu freista þess að fá fram viðurkenningu á sínum skilningi á málinu og sama kom hér fram hjá hæstv. viðskrh. Þetta er náttúrlega dæmalaus staða eftir samningaviðræður sem hafa kostað Íslendinga hátt í 100 millj. kr. fram að þessu með embættismannaliðið sem dregið hefur verið á vettvang. En auðvitað er það hinn pólitíski vilji sem að baki býr og það flaustur sem einkennir þessa málsmeðferð sem veldur slíkum skakkaföllum eins og hér er hætta á að fyrir hendi séu.
    Ég held að það væri líka ástæða fyrir menn að horfa betur á 19. gr. samningsins sjálfs að því er snertir viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þó að hún sé meinleysisleg á yfirborðinu, þá gæti verið að hún sé dálítið hæpin þegar farið er að lesa hana með hliðsjón af slíkum bókunum og viðaukum eins og hér er vitnað til þar segir m.a. virðulegur forseti, með þínu leyfi:
    ,,Samningsaðilar skuldbinda sig til að halda áfram viðleitni sinni til að auka smám saman frjálsræði i viðskiptum með landbúnaðarafurðir.`` Og síðan: ,,Í þeim tilgangi skulu samningsaðilar sjá um að fram fari endurskoðun á skilyrðum fyrir viðskipti með landbúnaðarafurðir fyrir árslok 1993 og á tveggja ára fresti þaðan í frá.``
     Menn eiga að standa hér í samningaviðræðum um landbúnaðarþáttinn á tveggja ára fresti þaðan í frá eins og með sjávarafurðir. Síðan er tilvitnun í Úrúgvæ-viðræðurnar um frekari afnám hvers kyns viðskiptahindrana í landbúnaði. Þetta litla mál á mælikvarða heildarinnar, þessa samnings, sem við erum að fá inn á borð í Alþingi, er dæmigert fyrir það sem eftir á að koma.