EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 10:59:05 (7029)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það eru nú fyrst tilmæli hæstv. utanrrh. til mín að lesa þetta hugverk, sem hann leggur hér fyrir þingið, inn á hljóðsnældur. Það kæmi vissulega til greina enda gæfist mér svigrúm til þess að koma við viðhlítandi skýringum á málinu og málavöxtum. (Gripið fram í.) Þá vildi ég inna hæstv. utanrrh. eftir því sem hann ekki svaraði úr mínu máli og það er hvenær vænta megi framhaldsins, þ.e. efni viðaukanna, þetta heildarsafn ,,acquis communautaire``, réttararfleifð Evrópubandalagsins sem á að leggja fyrir Alþingi og er bindandi þáttur þessa máls. Þetta er aðeins upphafið. Mér finnst þingið eiga kröfu á hæstv. utanrrh. að hann upplýsi um það og leggi það fyrir hver heildarramminn um þetta mál er. Hvað er það sem á eftir að koma, hvenær kemur það? Er búið að snúa þessum þáttum til íslensks máls? Ef ekki, hvað vantar á að það sé búið að vinna það verk?
    Ég bið um skýr svör við þessum atriðum og ég inni hæstv. utanrrh. einnig eftir hvað líði svari við skriflegri fyrirspurn sem tengist þessu máli, þ.e. upplýsingum um þær athuganir sem fram hafa farið vegna 6. gr. samningsins á dómum Evrópubandalagsins sem fallið hafa frá því dómstóll þess var settur á laggirnar fyrir 1960, fram til undirritunardags samningsins. En allir þeir dómar eru hluti þessa máls og varða með beinum hætti þennan samning sem hluti af réttargrundvelli hans. Alþingismenn geta að sjálfsögðu ekki tekið afstöðu til málsins nema búið sé að fara vandlega yfir þetta dómasafn og auðvitað eigum við að eiga aðgang að því á íslensku máli. Ég hef lagt fyrir fyrirspurn til ráðuneytisins fyrir nokkru síðan þar sem beðið er um upplýsingar um hvar þetta mál stendur, hvaða athuganir hafa farið fram á því á vegum EFTA eða íslenskra stjórnvalda sérstaklega og hvenær verður það efni aðgengilegt.
    Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. misvirði ekki þessar spurningar og leysi greitt úr því sem hér er spurt um. Það er einfalt að efni og ráðherrann hlýtur að hafa yfirlit um það sem ókomið er í þessu máli fyrir þingið.