EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:31:01 (7038)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel að það sem ég hef mælt í þessari umræðu hafi varðað þetta mál efnislega og gæslu þingskapa vegna þeirra þingskjala sem verið er að leggja fram og vegna þingskjala sem eru ókomin og tengjast þessu máli með fullum hætti sem ófrávíkjanlegur hluti þessa samnings sem meiningin er að lögfesta. Ég hefði getað stytt þessa umræðu hvað mig snertir ef hæstv. ráðherra hefði brugðist við strax í fyrstu ræðu sinni um þingsköp með því að upplýsa efnislega um það sem ég spurði. Þetta kom hins vegar fram í síðasta innleggi hæstv. ráðherra þar sem hann viðurkenndi að stóran hluta málsins vantaði inn á borð þingmanna og sagði jafnframt, og ég vænti þess að ráðherra leiðrétti það ef það er ekki rétt lesið í orð hans, að úr þessu yrði bætt, hingað kæmu inn sem hluti af þessu máli viðaukarnir, ,,acquis communautaire``, sem kynntir voru lauslega í þúsund blaðsíðna riti í fyrra en eru að umfangi um 7.000 síður og eru ókomnir til þingsins. Ráðherrann gat ekki svarað því hvenær þetta yrði og eitthvað mun vera óþýtt enn af þessu efni, sem er óaðskiljanlegur hluti þessa máls, og verða að lögum á Íslandi ef þessi samningur verður staðfestur sem við skulum vona að gerist ekki.
    Um samhengið milli tvíhliða sjávarútvegssamnings við Evrópubandalagið og þessa máls, hafa kannski fáir greint jafnákveðið frá því hvernig þau mál eru tengd, og hæstv. utanrrh. og Evrópubandalagið sem hinn aðili þessa máls, sem ætlar að gera það að skilyrði fyrir staðfestingu samningsins af sinni hálfu að þessi tvíhliða samningur liggi fyrir frágenginn við Ísland.