Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 29 . mál.


29. Frumvarp til laga



um breyting á lánsfjárlögum fyrir árið 1991, sbr. 26/1991.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    Eftirfarandi breyting verði á 1. gr. laganna:
    Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein sem hljóði svo:
    Jafnframt er fjármálaráðherra heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka erlent lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 12.800.000 þús. kr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs var í fjárlögum 1991 áætluð tæpir 13,6 milljarðar króna og var áformað að mæta henni allri með lántöku á innlendum lánamarkaði. Við afgreiðslu lánsfjárlaga 1991 á Alþingi í mars sl. var heimildin til innlendrar lántöku hækkuð í 14,7 milljarða króna í samræmi við samþykktir þingsins um viðbótarútgjöld ríkissjóðs á árinu og aukin endurlán. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun stefnir heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs á yfirstandandi ári í að verða um 19,8 milljarðar króna.
    Lánsfjárþörf ríkissjóðs er þannig til komin: Afborganir ríkissjóðs af eldri lánum eru áætlaðar um 7,7 milljarðar króna eins og ráð var fyrir gert í fjárlögum 1991. Veitt ný lán til stofnana og fyrirtækja ríkissjóðs eru talin nema rúmlega 4,7 milljörðum króna og er fjárhæðin sundurliðuð í hjálögðu fylgiskjali. Á móti koma innheimtar afborganir af eldri lánum alls um 3,2 milljarðar króna. Til stofnfjárframlaga eru ætlaðir tæpir 0,3 milljarðar króna og útstreymi umfram innstreymi á viðskiptareikningum ríkissjóðs er talið nema 1,4 milljörðum króna á árinu 1991. Loks er rekstrarhalli ríkissjóðs 1991 álitinn verða rúmlega 8,9 milljarðar króna í stað 4,1 milljarðs króna í fjárlögum.
    Ljóst er að lánsfjárþörf ríkissjóðs verður ekki mætt nema að hluta til á innlendum lánamarkaði þrátt fyrir áform þess efnis. Þegar níu mánuðir eru liðnir af árinu hefur tekist að afla 8,4 milljarða króna á innlendum lánamarkaði. Þar af nema ný spariskírteini um 3,2 milljörðum króna og ríkisvíxlar um 4 milljörðum króna umfram innlausn á eldri víxlum. Önnur lántaka á innlendum markaði nemur 1,2 milljörðum króna. Þess er vænst að unnt verði að selja spariskírteini fyrir um 1,8 milljarða króna til viðbótar, en í ljósi reynslu undangenginna ára er talið að ríkisvíxlarnir gangi til baka og ekki verði um viðbótarfjáröflun í þeim að ræða á þessu ári. Þannig er talið að unnt verði að afla nýs lánsfjár innan lands fyrir um 6,2 milljarða króna eða sem svarar til afborgana af innlendum lánum ríkissjóðs. Það sem upp á vantar, 13,6 milljarða króna, þarf að öllum líkindum að taka að láni í útlöndum. Af þeirri fjárhæð eru 824 milljónir króna sem ríkissjóður hefur endurlánað ríkisfyrirtækjum og sveitarfélögum er höfðu heimildir til erlendrar lántöku í lánsfjárlögum 1990 og 1991. Þar vegur þyngst lántaka vegna smíði ferju fyrir Herjólf hf. í Vestmannaeyjum. Samtals er því í þessu frumvarpi sótt um heimild fyrir ríkissjóð til erlendrar lántöku að fjárhæð 12,8 milljarðar króna. Af þeirri fjárhæð er heimild fyrir ríkissjóð til að veita Byggðastofnun lán að fjárhæð 150 m.kr. vegna fiskeldisfyrirtækja í samræmi við samþykkt núverandi ríkisstjórnar frá sl. sumri um stuðning við fiskeldi.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti:

Yfirlit yfir áformuð veitt lán ríkissjóðs 1991.




Í innlendri

Í erlendri


Í milljónum króna

mynt

mynt

Samtals




Heimildir í fjárlögum 1991     
3.480
250 3.730
Lánasjóður ísl. námsmanna     
3.000
3.000
Alþjóðaflugþjónustan     
250 250
Hafnabótasjóður     
280
280
Atvinnutryggingardeild
Byggðastofnunar     
200
200

Heimildir í lánsfjárlögum 1990 og 1991     
824 824
Herjólfur hf.     
750 750
Flóabáturinn Baldur hf.     
15 15
Skallagrímur hf.     
11 11
Hitaveita Egilsstaða og Fella     
20 20
Bæjarveitur Vestmannaeyja     
28 28

Nýjar heimildir     
150 150
Byggðastofnun v/fiskeldisfyrirtækja     
150 150

Veitt lán alls     
3.480
1.224 4.704