Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 58 . mál.
59. Frumvarp til laga
um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.
(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)
1. gr.
Heiti XXII. kafla breytist svo að í stað „ Skírlífisbrot“ komi: Kynferðisbrot.
2. gr.
194. gr. orðist svo:
Hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manneskju til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 10 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
Hafi hættuleg aðferð verið notuð við verknaðinn eða sakir eru miklar að öðru leyti skal refsing vera fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.
3. gr.
195. gr. orðist svo:
Hver sem með annars konar ólögmætri nauðung þröngvar manneskju til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
4. gr.
196. gr. orðist svo:
Hver sem notfærir sér geðveiki eða aðra andlega annmarka manneskju til þess að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar eða þannig er ástatt um hana að öðru leyti að hún getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
5. gr.
197. gr. orðist svo:
Ef umsjónarmaður eða starfsmaður í fangelsi, geðsjúkrahúsi, vistheimili, uppeldisstofnun eða annarri slíkri stofnun hefur samræði eða önnur kynferðismök við vistmann eða vistkonu á stofnuninni varðar það fangelsi allt að 4 árum.
6. gr.
198. gr. orðist svo:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við manneskju utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota freklega þá aðstöðu sína að hún er honum háð fjárhagslega eða í atvinnu sinni skal sæta fangelsi allt að 3 árum eða, sé manneskjan yngri en 18 ára, allt að 6 árum.
7. gr.
199. gr. orðist svo:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við manneskju vegna þess að hún heldur ranglega að þau hafi samræði eða önnur kynferðismök í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hún er í þeirri villu að hún heldur sig hafa samræði eða önnur kynferðismök við einhvern annan skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
Sömu refsingu varðar það ef samræði eða önnur kynferðismök eiga sér stað vegna þeirrar blekkingar að um læknisfræðilega eða aðra vísindalega meðferð sé að ræða.
8. gr.
200. gr. orðist svo:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skal sæta fangelsi allt að 6 árum og allt að 10 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
Önnur kynferðisleg áreitni manns gagnvart barni sínu eða öðrum niðja en sú er greinir í 1. mgr. varðar allt að 2 ára fangelsi og allt að 4 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
Samræði eða önnur kynferðismök milli systkina varða fangelsi allt að 4 árum. Hafi annað systkina eða bæði ekki náð 18 ára aldri, þegar verknaður átti sér stað, má ákveða að refsing falli niður að því er þau varðar.
9. gr.
201. gr. orðist svo:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn eða ungmenni, yngra en 18 ára, sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, skal sæta fangelsi allt að 4 árum og allt að 6 ára fangelsi sé barn yngra en 16 ára.
Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 2 árum og allt að 4 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
10. gr.
202. gr. orðist svo:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 14 ára, skal sæta fangelsi allt að 10 árum. Önnur kynferðisleg áreitni varðar fangelsi allt að 4 árum.
Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir ungmenni á aldrinum 14–16 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
11. gr.
204. gr. orðist svo:
Hafi brot skv. 201. eða 202. gr. verið framið í gáleysi um andlegt ástand eða aldur þess er fyrir broti varð skal beita vægari refsingu að tiltölu sem þó má ekki fara niður úr lægsta stigi refsivistar.
12. gr.
205. gr. orðist svo:
Refsing skv. 194.–199., 202. og 204. gr. má falla niður, ef karl og kona, er kynferðismökin hafa gerst í milli, hafa síðar gengið að eigast eða tekið upp óvígða sambúð, ef þau voru þá í hjónabandi eða óvígðri sambúð, hafa eftir það tekið upp eða haldið áfram sambúð.
13. gr.
206. gr. orðist svo:
Hver sem stundar vændi sér til framfærslu eða hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða ungmenni, yngra en 18 ára, til þess að hafa ofan af fyrir sér með lauslæti.
Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að útflutningi nokkurs manns úr landi í því skyni að hann hafi ofan af fyrir sér erlendis með lauslæti, ef útflytjandinn er yngri en 21 árs eða honum er ókunnugt um þennan tilgang með utanförinni.
Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða gerir sér lauslæti annarra að tekjulind, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða varðhaldi ef málsbætur eru.
14. gr.
208. gr. orðist svo:
Nú hefur maður, sem sæta skal refsingu eftir 206. gr., áður verið dæmdur fyrir brot á þeirri grein, eða hann hefur áður verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir auðgunarbrot, má þyngja refsingu svo að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.
15. gr.
209. gr. orðist svo:
Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en varðhaldi eða sektum ef brot er smávægilegt.
16. gr.
Úr 181. gr. falli niður orðin „eða lauslæti eða fær viðurværi sitt frá kvenmanni, sem hefur ofan af fyrir sér með lauslæti“.
Enn fremur falli brott 190. gr., 203. gr. og 207. gr.
17. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Frumvarp þetta var lagt fram á 111., 112. og 113. löggjafarþingum en varð ekki útrætt. Það er nú lagt fram að nýju óbreytt.
Alþingi samþykkti 22. maí 1984 svohljóðandi þingsályktunartillögu:
„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa fimm manna nefnd er kanni hvernig háttað er rannsókn og meðferð nauðgunarmála og geri tillögur til úrbóta í þeim efnum.“
Þáverandi dómsmálaráðherra, Jón Helgason, skipaði 12. júlí 1984 eftirtalda í nefndina:
Jónatan Þórmundsson prófessor, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar, Ásdísi J. Rafnar lögfræðing, Guðrúnu Agnarsdóttur, lækni og alþingismann, Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðing, Sigrúnu Júlíusdóttur félagsráðgjafa. Þorsteini A. Jónssyni, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, var falið að vera ritari nefndarinnar.
Nefndin lauk störfum og skilaði skýrslu sinni til dómsmálaráðherra í nóvember 1988. Meðal tillagna nefndarinnar var að ákvæðum 194.–199. gr. í XXII. kafla hegningarlaga, nr. 19/1940, verði breytt og skilaði nefndin frumvarpi þar að lútandi.
Með hliðsjón af þeirri stefnubreytingu, sem fram kom í frumvarpi nauðgunarmálanefndar um breyting á almennum hegningarlögum og því að á Alþingi vorið 1988 var frumvarpi um breyting á 202. og 203. gr. almennra hegningarlaga vísað til ríkisstjórnarinnar, ákvað dómsmálaráðherra að leggja frumvarp nauðgunarmálanefndar ekki fram fyrr en endurskoðun á öðrum greinum í XXII. kafla hegningarlaganna væri lokið.
Jónatan Þórmundsson prófessor vann það verk í samvinnu við Þorstein A. Jónsson, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu.
Um gildissvið breyttra ákvæða.
Frumvarp þetta felur í sér endurskoðun á XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr.
19/1940, um skírlífisbrot og á 190. gr. úr XXI. kafla laganna um sifskaparbrot.
Í samræmi við tillögur nauðgunarmálanefndar tekur endurskoðun þessi annars vegar til 194.–199. gr., sbr. 202. gr. laganna. Öll þessi ákvæði eru nú kynbundin, þ.e. einungis konur njóta refsiverndar samkvæmt þeim og karlar einir geta verið gerendur. Kona gæti þó gerst sek um hlutdeild í broti karlmanns. Rétt þykir að öll þessi ákvæði nái jafnt til karla sem kvenna í samræmi við réttarþróun í öðrum löndum. Í norsku hegningarlögunum hefur lengi verið ókynbundið ákvæði en lögum var einnig breytt í það horf í Danmörku 1981 og í Svíþjóð 1984. Þótt brot þessi bitni nær eingöngu á konum og núverandi orðalag sé því næst raunveruleikanum er ekki ástæða til að ætla að víðtækara orðalag raski á nokkurn hátt réttarstöðu kvenna.
Hins vegar tekur endurskoðunin til 190. gr. um sifjaspell og 200.–209. gr. Nokkur þessara ákvæða eru nú kynbundin og er þeim öllum með frumvarpi þessu breytt í það horf að þau verði ókynbundin. Ákvæði frumvarpsins eiga því jafnt við um athafnir karla og kvenna og taka til kynferðismaka og annarra kynferðisathafna samkynja persóna, eftir því sem við á.
Um verknað og fullframningu.
Ákvæði 190. gr. og 194.–201. gr. eru nú á því byggð að samræði eigi sér stað. Ekki
er ætlast til í frumvarpi þessu að fullframið samræði sé virt með sama hætti og tíðkast hefur í réttarframkvæmd, þ.e. þegar getnaðarlimur karlmanns er kominn inn í fæðingarveg konu og samræðishreyfingar hafnar. Nægilegt er að getnaðarlimur karlmanns sé kominn inn í fæðingarveg konu að nokkru leyti eða öllu. Sáðlát þarf ekki að hafa átt sér stað og meyjarhaft þarf ekki að rofna ef því er að skipta. Nákvæm skilgreining fullframins samræðis skiptir minna máli en áður ef fyrirhugaðar breytingar verða að lögum, svo sem nú skal nánar skýrt.
Lagt er til að svokölluð „önnur kynferðismök“, sem nú er fjallað um í 202. gr. hgl., verði lögð að jöfnu við samræði, svo sem gert hefur verið í hinum nýju sænsku ákvæðum í Brottsbalken frá 1984. Svarar þá hvort tveggja nokkurn veginn til hugtaksins „utuktig omgang“ í 192. gr. norsku hegningarlaganna. Ber að skýra hugtakið „önnur kynferðismök“ fremur þröngt þannig að átt sé við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju, er kemur í stað hefðbundins samræðis eða hefur gildi sem slíkt (surrogat). Eru þetta athafnir sem veita eða eru almennt til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu.
Ný ákvæði eru í 8.–10. gr. frumvarpsins um breyting á 200.–202. gr. laganna um kynferðislega áreitni sem ekki telst slík misnotkun á líkama að hún komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt, þ.e. „önnur kynferðismök“. Hér er átt við ýmiss konar káf, þukl og annars konar líkamlega snertingu og ljósmyndun af kynferðislegum toga sem hingað til hefur verið heimfært undir 209. gr. laganna. Rétt þykir að veita slíkri háttsemi meiri athygli en áður með þessu sérákvæði og taka harðar á brotum. Með þessu er engan veginn ætlunin, fremur en verið hefur, að takmarka eðlilega umhirðu og gælur foreldra og annarra ættingja við börn sín og barnabörn.
Ef kynferðisathafnir falla ekki undir neina af ofangreindum verknaðarlýsingum, þ.e. samræði, önnur kynferðismök eða aðra kynferðislega áreitni kann 209. gr. að eiga við um þær (brot gegn blygðunarsemi).
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Hér er tekið upp heitið kynferðisbrot í stað skírlífisbrot. Eðlilegt er að miða fremur við einkenni háttseminnar en þau áhrif sem hún hefur á brotaþola eða öllu heldur á hið siðræna viðhorf almennings til brots og brotaþola.
Um 2. gr.
Lýsing verknaðaraðferða er rýmkuð að því leyti að auk beinnar valdbeitingar tekur þetta ákvæði frumvarpsins til allra refsiverðra ofbeldishótana, en ekki til annarra hótana, sbr. hins vegar nú 196. gr. hgl. Einnig felst í ákvæðinu rýmkun á þann veg að ekki er lengur áskilið að hótun veki ótta um líf, heilbrigði eða velferð. Ofbeldishótanir eru almennt svo alvarlegar í eðli sínu að óþarft er að halda þessu skilyrði. Að sjálfsögðu dæma dómstólar aðeins fyrir þær hótanir sem alvarlega eru meintar eða hótunarþoli hefur a.m.k. réttmæta ástæðu til að taka alvarlega. Orðalag hins nýja ákvæðis útilokar ekki að efni ofbeldishótunar geti beinst að nánum vandamanni brotaþola eða að því sé ætlað að bitna á honum, t.d. barni brotaþola, sbr. gildandi ákvæði.
Ekki felst efnisbreyting í 2. málsl. 1. mgr. varðandi aðferðir sem lagðar verða að jöfnu við ofbeldi.
Lagt er til að ákvæðið verði tvískipt, almennt ákvæði, 1. mgr., og refsihækkunarákvæði með sjálfstæðum refsimörkum (2. mgr.). Er sú tilhögun álitlegri að gefa nokkurt svigrúm í almenna ákvæðinu fremur en að taka upp strangara almennt ákvæði að viðbættu refsilækkunarákvæði. Sem refsihækkunarástæða er nefnd hættuleg aðferð, t.d. notkun bareflis eða annarra vopna, og miklar sakir að öðru leyti, svo sem ef brot er framið af fleiri mönnum saman, sbr. 2. mgr. 70. gr., ef um endurtekin brot er að ræða eða trúnaðarbrot.
Almenn refsimörk ákvæðisins eru milduð frá því sem nú er, þ.e. 10 ára fangelsi sem hámark og 30 daga fangelsi sem lágmark, sbr. 34. gr. hgl. Séu refsihækkunarástæður fyrir hendi eru refsimörk svipuð og nú, þ.e. hámark 16 ára fangelsi og lágmark 1 árs fangelsi. Fellt er niður ævilangt fangelsi. Rétt er að taka fram að ofangreind refsimörk eru þyngri en í dönsku hegningarlögunum, svipuð og í sænsku refsilögunum, en ívið vægari en í norska ákvæðinu. Sænsku lögin hafa að vísu 2 og 4 ára lágmark en tiltölulega mild hámarksákvæði.
Um 3. gr.
Greinin svarar efnislega til 196. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að allar ofbeldishótanir varða við 194. gr. samkvæmt frumvarpinu. Verður aðgreiningin við það mun gleggri milli nauðgunarbrota og annarrar ólögmætrar kynferðisnauðungar. Engin dæmi eru hér nefnd um slíka nauðung en hafa má 225. gr. hgl. til hliðsjónar þótt sú grein sé ekki tæmandi hér. Nefna má hótanir yfirboðara eða samstarfsmanns á vinnustað um uppsögn, óhagstæð starfskjör, sakburð eða annað óhagræði. Refsimörk eru óbreytt.
Um 4. gr.
Það nýmæli felst í þessu ákvæði að um ótvíræða misneytingaraðferð þarf að vera að ræða „notfærir sér“. Tilgreint ástand brotaþola nægir ekki eitt sér. Hinu afbrigðilega ástandi brotaþola er lýst með nokkru almennari orðum en í gildandi ákvæði 195. gr. „andlegir annmarkar“. Slík rýmkun verður tæpast talin varhugaverð ef misnotkun aðstöðu er áskilin hverju sinni. Rétt þykir að leggja óvígða sambúð að jöfnu við hjúskap í þessu sambandi.
Um 5. gr.
Fyrir utan þær breytingar, sem lýst var í hinum almennu athugasemdum, er ákvæðið að mestu óbreytt efnislega þótt stofnananöfn séu færð í nútímahorf.
Um 6. gr.
Refsimörk eru hér þyngd og aldursmark lækkað. Hins vegar þykir rétt í þessu sambandi að leggja óvígða sambúð að jöfnu við hjúskap.
Um 7. gr.
Auk þeirra tveggja svikaþátta, sem fyrir eru í gildandi ákvæði, er bætt við svikum í sambandi við læknisfræðilega eða aðra vísindalega meðferð. Rétt þykir í 1. mgr. ákvæðisins að leggja óvígða sambúð að jöfnu við hjúskap.
Um 8. gr.
Meginefni 190. gr. um sifjaspell er með þessu ákvæði flutt úr XXI. kafla laganna um sifskaparbrot í hinn nýja kafla um kynferðisbrot og sameinað þar nýju ákvæði um aðra kynferðislega áreitni gagnvart niðjum. Fer betur á þessari tilhögun þar sem slík brot eru oft nátengd öðrum brotum gegn ákvæðum þessa kafla, einkum 202. gr., sbr. 10. gr. frumvarpsins.
Í ákvæði þessu eru „önnur kynferðismök“ lögð að jöfnu við samræði og má um það nýmæli vísa til hinna almennu athugasemda með frumvarpi þessu.
Felld er niður refsiábyrgð barna og annarra niðja, sem hlut eiga að samræði eða öðrum kynferðismökum milli ættingja í beinan ættlegg. Til þess liggja m.a. þau rök að alla jafna eru það börn og ungmenni sem sæta misnotkun af hálfu hinna eldri er skáka í skjóli aldurs og reynslu. Breyting þessi er og í samræmi við lög í nálægum löndum, svo sem í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Ákvæðið á jafnt við brot gagnvart skilgetnum og óskilgetnum börnum og það nær til brota kynforeldris gagnvart barni sem ættleitt hefur verið af öðrum, enda sé ásetningur fyrir hendi.
Sé barn yngra en 14 ára verður hinum brotlega einnig refsað fyrir brot gegn 202. gr. (concursus idealis), sbr. 77. og 78. gr. laganna. Sama máli gegnir ef nauðung er beitt. Þá reynir jafnframt á 194. eða 195. gr.
Refsimörk ákvæðisins eru nokkuð þyngd frá því sem nú er, þar sem almenna hámarkið í 1. mgr. er hækkað úr 4 árum í 6 ár og úr 6 árum í 10 ár, sé barnið yngra en 16 ára (miðað er við 18 ára aldur í gildandi lögum). Refsimörk þau, sem hér er gert ráð fyrir, eru þyngri en tíðkast í nálægum löndum og er svo einnig um flest þau ákvæði er á eftir fara.
Ákvæðið í 3. mgr. um systkini er eins og önnur ákvæði kaflans rýmkað á þann veg að „önnur kynferðismök“ eru lögð að jöfnu við samræði. Ákvæðið tekur jafnt til hálfsystkina sem alsystkina. Þá eru refsimörk hert en hins vegar er refsibrottfallsheimild rýmkuð með því að miða við 18 ára aldur í stað 16 ára.
Um 9. gr.
Ákvæði þetta svarar að nokkru til 201. gr. eins og hún hljóðar nú. Í samræmi við önnur ákvæði kaflans eru „önnur kynferðismök“ lögð að jöfnu við samræði. Ákvæðið verður ókynbundið eins og öll önnur ákvæði kaflans. Í upptalningu barna er bætt við stjúpbarni og sambúðarbarni. Áhersla er hér lögð á það að vernda heimilið og fjölskyldulíf fyrir háttsemi sem er til þess fallin að raska fjölskylduböndum og særa trúnað og traust barna á sameiginlegu heimili. Með fósturbarni er átt við hvert það barn sem beint eða óbeint er tengt ákveðnu heimili á þann veg að það lítur á það sem sitt (annað) heimili.
Hliðstætt ákvæði því, sem lagt er til að verði í 200. gr., sbr. 8. gr. frumvarpsins um kynferðislega áreitni, er einnig sett í þessa grein.
Almenn refsimörk 1. mgr. ákvæðisins eru hin sömu og 201. gr. gildandi laga en hér er bætt við þyngra refsihámarki sé barn yngra en 16 ára.
Um 10. gr.
Grein þessi svarar til 200. gr. gildandi laga. Eins og annars staðar í kaflanum eru „önnur kynferðismök“ lögð að jöfnu við samræði. Bætt er við sérstöku ákvæði í 1. mgr. um aðra kynferðislega áreitni. Má um þetta tvennt vísa til þess sem áður er komið fram. Refsihámark 1. mgr. er lækkað úr 12 árum í 10 ár til samræmis við önnur ákvæði kaflans um alvarleg brot. Sé að auki um saknæma aðferð við brot að ræða, t.d. nauðung, er öðrum ákvæðum beitt jafnframt (concursus idealis) og þá tekið tillit til beggja (allra) brotanna við ákvörðun refsingar í samræmi við ákvæði 77. og 78. gr. laganna um brotasamsteypu. Refsimörk ákvæðisins eru svipuð og í Danmörku og Noregi en mun þyngri en í sænsku lögunum.
Síðari málsgrein ákvæðisins er hér ókynbundin og heldur fyllri en í gildandi ákvæði með því að taldar eru upp dæmigerðar aðferðir við tælingu.
Um 11. gr.
Grein þessi er efnislega óbreytt. Hún vísar þó ekki lengur til 195. gr., hér eftir 196. gr., sbr. 4. gr. frumvarpsins. Slík tilvísun á ekki lengur við þar sem nú er áskilin ótvíræð misneyting í 196. gr. „notfærir sér“. Tilgreint ástand brotaþola nægir ekki eitt sér. Ekki er heldur vísað til 203. gr., þar sem lagt er til í frumvarpinu að afnumin verði öll sérákvæði um kynferðisbrot samkynhneigðra persóna.
Um 12. gr.
Ákvæðið er óbreytt að öðru leyti en því að óvígð sambúð er lögð að jöfnu við hjúskap og að greinin tekur ekki til brota gegn 200. og 201. gr., sbr. 8. og 9. gr. frumvarpsins.
Um 13. gr.
Sú breyting er gerð á þessari grein að efni 181. gr. um vændi og hagnýtingu þess er flutt í 1. mgr. greinarinnar og jafnframt breytt í ókynbundið ákvæði. Refsihámarkið er hækkað úr 2 árum í 4 ár.
2.–4. mgr. greinarinnar svara til 206. gr. gildandi laga með þeirri rýmkun á efnissviði 4. mgr. frá því sem nú er í 1. mgr. ákvæðisins, að sá sem með ginningum, hvatningum eða milligöngu stuðlar að því að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu skal sæta refsingu eins og sá sem gerir sér lauslæti annarra að tekjulind. Hér getur t.d. verið um að ræða útvegun ungmenna til þátttöku í kynlífsmyndum eða milligöngu um að manneskja háð vímuefnum eigi kynferðismök gegn greiðslu í einstakt skipti eða oftar.
Um 14. gr.
Á þessari grein eru einungis gerðar smávægilegar breytingar til samræmis við aðrar breytingar er af frumvarpinu leiðir.
Um 15. gr.
Formlega séð eru óverulegar breytingar gerðar á grein þessari. Refsimörkin eru þó hert nokkuð. Af nýjum sérákvæðum í 200.–202. gr., sbr. 8.–10. gr. frumvarpsins um kynferðislega áreitni, leiðir hins vegar að undir 209. gr. fellur nú fyrst og fremst ýmiss konar háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, klúrt orðbragð í síma.
Um 16. gr.
Um 1. mgr. Sjá skýringar við 13. gr. frumvarpsins.
Um 2. mgr. Meginefni 190. gr. laganna er flutt í 200. gr., sbr. 8. gr. frumvarpsins. Sjá nánar skýringar við þá grein.
Þá er lagt til að 203. gr. hgl. verði felld brott. Ástæða þess er að hin nýju ákvæði frumvarpsins eru ókynbundin og taka til athafna samkynja persóna eftir því sem við á. Nauðungarbrot karlmanns gagnvart öðrum karlmanni varðar þannig við 194. eða 195. gr., sbr. 2. og 3. gr. frumvarpsins, og við brotinu liggur sú refsing er þar getur um.
Loks er lagt til að 207. gr. hgl. verði felld brott. Miðað við nútímaviðhorf gagnvart samkynhneigðum er ákvæðið úrelt.
Um 17. gr.
Greinin þarfnast ekki skýringa.