Ferill 63. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 63 . mál.


64. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 43 4. júní 1985, um Verðlagsráð sjávarútvegsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    6. gr. laganna orðist svo:
     Verð á öllum tegundum fersks sjávarafla, úrgangsfiski og fiskúrgangi, sem seldur er hér á landi, skal ákveðið með frjálsum samningum milli kaupenda og seljenda eða með sölu á uppboðsmarkaði, sbr. lög nr. 123 28. desember 1989.
     Verðlagsráði er þó heimilt með meiri hluta atkvæða að ákveða lágmarksverð einstakra tegunda sjávarafla fyrir tiltekið tímabil.

2. gr.


    2. mgr. 8. gr. laganna orðist svo:
     Verðlagsráð kveður sjálft á um verðlagstímabil.

3. gr.


    10. gr. laganna falli niður og breytist töluröð annarra greina til samræmis við það.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Á tímabilinu frá birtingu laga þessara og til 31. desember 1992 er Verðlagsráði, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 43 4. júní 1985, með meirihlutaákvörðun heimilt að gefa verðlagningu á tilteknum fisktegundum frjálsa. Á þessu tímabili skal yfirnefnd ákveða lágmarksverð á tegundum sem vísað hefur verið til hennar og er yfirnefndinni ekki heimilt að gefa verðlagningu frjálsa.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Með frumvarpi þessu er lagt til að dregið verði úr hlutverki Verðlagsráðs sjávarútvegsins í áföngum og frjálsræði við ákvarðanir á verði fersks sjávarafla verði aukið að sama skapi. Með samþykkt núgildandi laga um Verðlagsráð sjávarútvegsins á árinu 1985 var Verðlagsráði heimilað að gefa verðlagningu á tilteknum fisktegundum frjálsa ef sérstaklega stóð á enda væri um það einróma samkomulag í ráðinu. Þessari heimild hefur verið beitt með ágætum árangri varðandi tilteknar tegundir, t.d. loðnu en samstöðu hefur skort í ráðinu til að beita heimildinni í ríkum mæli varðandi aðrar tegundir, þar á meðal ýmsar mikilvægustu tegundir sjávarfangs svo sem botnfisk. Þrátt fyrir það hafa áhrif verðákvarðana ráðsins sífellt haft minni og minni þýðingu því að í framkvæmd hefur verð verið ákveðið í æ ríkara mæli með samkeppnisboðum á uppboðsmarkaði eða frjálsum samningum.
     Í frumvarpinu er lagt til að stigin verði tvö skref í átt að afnámi ráðsins. Í fyrra skrefinu er heimilað að ákveða frjálst fiskverð með meirihlutaákvörðun í Verðlagsráði, sbr. bráðabirgðaákvæði frumvarpsins. Er þar með heimilað frávik frá hinni almennu reglu um að Verðlagsráð þurfi að ná samkomulagi um ákvarðanir sínar. Á þessu stigi er því komið í veg fyrir að minni hluti í ráðinu geti hindrað ákvörðun um frjálst fiskverð sem meiri hlutinn styður. Sé ágreiningi vísað til yfirnefndarinnar verður hún á þessu tímabili að ákveða lágmarksverð. Náist ekki meiri hluti um frjálst fiskverð í ráðinu er það því ekki á færi yfirnefndar að heimila frjálst fiskverð. Er lagt til að þessi háttur verði á hafður frá birtingu laganna til ársloka 1992. Með því móti gefst ráðrúm til aðlögunar að því kerfi sem lagt er til að upp verði tekið frá ársbyrjun 1993.
     Frá þeim tíma er gert ráð fyrir því að meginreglan verði frjálst fiskverð og að afnumin verði skylda ráðsins til verðákvarðana. Upp geta þó komið þær aðstæður á einstökum sviðum að skynsamlegt þyki að ákveða lágmarksverð. Er því lagt til að ráðið verði áfram til og geti tekið ákvarðanir um lágmarksverð sé fyrir því meiri hluti í ráðinu. Við þessa skipan verður yfirnefnd Verðlagsráðs óþörf og er því lagt til að 10. gr. laganna verði felld niður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að frá 1. janúar 1993 verði upp tekin sem meginregla að fiskverð sé frjálst hér á landi. Í því felst að fiskverð skal ákveðið í frjálsum samningum milli kaupanda og seljanda eða með sölu á uppboðsmarkaði en um starfsemi uppboðsmarkaða fyrir sjávarafla gildi ákvæði laga nr. 123 28. desember 1989.
     Verðlagsráði er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilað að ákveða lágmarksverð á einstökum tegundum fyrir tiltekið tímabil ef fyrir því er meiri hluti.
     Ákvæði þessarar greinar gilda um sölu á ferskum sjávarafla, úrgangsfiski og fiskúrgangi innan lands. Enda þótt orðalag sé einfaldað frá orðalagi 6. gr. gildandi laga felst ekki í því efnisbreyting. Ákvæðið gildir því án tillits til þess hvort fiskur er seldur til vinnslu innan lands eða seldur um borð í skip eða annað flutningsfar til útflutnings óunninn.

Um 2. gr.


    Lagt er til að fyrri málsliður 2. mgr. 8. gr. verðlagsráðslaganna verði felldur niður enda á hann ekki við eftir breytingar þær sem gerðar eru á 6. gr. laganna með 1. gr. frumvarps þessa.

Um 3. gr.


    Með þessari grein er lagt til að yfirnefnd Verðlagsráðs verði lögð niður enda er hún óþörf þar sem það leiðir skv. 1. gr. frumvarpsins sjálfkrafa til þess að fiskverð verður frjálst ef ekki næst meiri hluti í ráðinu um tiltekið lágmarksverð.

Um 4. gr.


    Lagt er til að meginreglan um frjálst fiskverð verði í lög leidd frá 1. janúar 1993. Ákvarðanir, sem teknar hafa verið um lágmarksverð fyrir þann tíma, munu þó standa út það verðlagstímabil sem þá stendur.

Um ákvæði til bráðabirgða.


     Enda þótt meginefni laganna öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 1993 er lagt til að frá
birtingu þeirra sé tekið skref í átt til frjáls fiskverðs. Er það gert með því að heimila meiri hluta Verðlagsráðs að gefa verðlagningu á tilteknum tegundum frjálsa. Er þar í raun um að ræða tímabundna breytingu á 2. mgr. 6. gr. gildandi laga og frávik frá núverandi meginreglu þeirra að ákvarðanir ráðsins skuli teknar samhljóða. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að yfirnefnd ráðsins verði að taka ákvarðanir um lágmarksverð varðandi þau ágreiningsatriði sem til hennar kann að vera vísað. Það er því ekki lögð til nein breyting á hlutverki eða heimildum yfirnefndarinnar á þessu aðlögunartímabili.