Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 65 . mál.


86. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um starfsmannahald ríkisins og sérfræðiþjónustu vegna EES-samninganna.

    1. Hvað er áætlað að EES-samningarnir kalli á mörg ný stöðugildi hjá íslenska ríkinu?
    Samningaferillinn hefur tekið á þriðja ár og hátt í hundrað embættismenn í Stjórnarráðinu og undirstofnunum þess hafa tekið fyrir og athugað einstök sérsvið þeirra. Álagið vegna samningaviðræðnanna hefur verið sambærilegt við og í sumum tilfellum meira en það sem fylgir framkvæmd samninganna. Einstök ráðuneyti og stofnanir munu meta það á næstunni hvort þau þurfi aukinn mannafla þegar samningarnir ganga í gildi árið 1993. Að því er varðar utanríkisþjónustuna er ljóst að bæta þarf við stöðugildum við sendiráðið í Brussel, fastanefnd í Genf og viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Reynt verður að fara hægt í sakirnar í fyrstu og athuga vel hvað hægt verður að komast af með og samráð verður haft við önnur ráðuneyti um útsenda starfsmenn þeirra til sendiráðsins í Brussel. Nú þegar starfar fiskimálafulltrúi við sendiráðið þar á vegum sjávarútvegsráðuneytisins.

     2. Hvaða sérfræðiþjónustu þarf að koma á fót hér á landi í tengslum við EES-samningana?
    Sérfræðiþjónusta verður fyrst og fremst innan ráðuneyta og stofnana stjórnsýslunnar. Sérstök þýðingastofnun hefur starfað vegna samninganna og hefur gefið góða raun. Æskilegt er að sú stofnun fái fastan starfsgrundvöll, annaðhvort sem sjálfseignarstofnun eða á vegum Stjórnarráðsins. Slík stofnun gæti einnig þjónað stjórnsýslunni við þýðingar vegna annarra alþjóðlegra samskipta. Föst stöðugildi gætu verið 10–12 en þær stofnanir, sem til hennar leituðu, mundu væntanlega greiða fyrir þjónustuna.

     3. Hvaða þjónustu ætlar ríkið að veita atvinnulífinu og aðilum vinnumarkaðarins vegna EES-samninganna?
    Haft hefur verið reglulegt samráð við aðila atvinnulífs og vinnumarkaðar á meðan á samningaviðræðum stóð. Samtök atvinnulífsins eru einnig aðilar að ráðgjafarnefnd EFTA og funda þar með samtökum atvinnulífs í öðrum EFTA-löndum og með efnahags- og félagsmálanefnd EB. Önnur EFTA-lönd hafa um langt skeið styrkt samtök atvinnulífs til þátttöku í slíku samstarfi en styrkir íslenskra stjórnvalda hafa verið stopulir til þessa. Æskilegt væri að geta tryggt fulla þátttöku samtaka íslensks atvinnulífs og munu verða lagðar fram tillögur í þá veru fyrir ríkisstjórnina.

     4. Hvað er áætlað að sú þjónusta, sem ríkið þarf að veita vegna EES-samninganna, muni kosta?
    Embættismönnum verður væntanlega falið að undirbúa gerð kynningarbæklinga um EES almennt og einstaka efnisþætti samningsins. Enn liggur ekki fyrir hversu miklu fé verður hægt að verja til kynningarstarfsemi en tillögur verða lagðar fyrir ríkisstjórnina um það innan skamms. Enn hefur ekki verið ákveðið hvort eða hversu háa styrki hægt verður að veita samtökum atvinnulífsins en tillaga um fjárveitingar í því skyni mun einnig verða lögð fyrir ríkisstjórnina.

     5. Hvernig verður staðið að útgáfu á þeim lögum og reglugerðum sem Íslendingar þurfa að laga sig að vegna samninganna um EES?
    Samningurinn verður gefinn út í Stjórnartíðindum eftir samþykkt ásamt fylgiskjölum.

     6. Mun sá kostnaður, sem fylgir EES-samningunum, hafa í för með sér niðurskurð á fjárlögum í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að halda ríkisútgjöldum í skefjum?
    Sá kostnaður, sem fyrirsjáanlegur er, rúmast innan ramma fjárlaga og breytir engu um þá stefnu ríkisstjórnarinnar að halda ríkisútgjöldum í skefjum.