Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 111 . mál.


114. Tillaga til þingsályktunarum útflutning á raforku um sæstreng.

Flm.: Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon.    Alþingi ályktar að láta fara fram ítarlega könnun á tæknilegum og fjárhagslegum forsendum þess að selja raforku til útlanda um sæstreng. Könnunin verði unnin af óháðum aðilum en í samvinnu við Landsvirkjun, rannsóknastofnanir og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta á þessu sviði og búa yfir sérfræðiþekkingu.
    Könnuninni verði lokið á svo skömmum tíma að unnt verði að hafa niðurstöður hennar til samanburðar í heildarsamhengi efnahags-, atvinnu- og orkumála.
    Iðnaðarnefnd Alþingis hafi forustu um könnun þessa.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur þróast ört tækniþekking sem skapar möguleika til þess að flytja orku með sæstreng um langan veg. Lausleg könnun hefur farið fram á því hvort unnt er að flytja orku um sæstreng frá Íslandi og augljóst er að miklir möguleikar eru til staðar í þeim efnum innan fárra ára. Orkutap var meginvandamál verkefnisins. Nú hefur það vandamál verið leyst að talsverðu leyti.
    Því miður hafa orkumálayfirvöld á Íslandi ekki sinnt þessum málum sem skyldi. Í staðinn hafa menn einblínt á einn kost með viðræðum við tiltölulega þröngan hóp fyrirtækja. Sett hafa verið upp framtíðardæmi með milljarðatekjum fyrir þjóðina sem hafa í raun ýtt allri þróunarviðleitni á öðrum sviðum til hliðar. Þessi hugsunarháttur skammsýninnar hefur því miður haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Stöðnun þessara ára stafar ekki síst af þessu auk þess sem verðbólgu- og vaxtafárið hefur skilið eftir sig spor gjaldþrota og sóunar í hagkerfinu.
    Meðfylgjandi tillaga til þingsályktunar er flutt til þess að ýta á eftir því að kannaðir verði möguleikarnir á því að flytja út orku um sæstreng. Gert er ráð fyrir að könnunin fari fram í samráði við Landsvirkjun og aðra þá aðila sem máli skipta í þessu sambandi. Lögð er áhersla á að niðurstöður könnunarinnar liggi fyrir áður en aðrar ráðstafanir verða ákveðnar með sölu á raforku í stórum stíl.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir að iðnaðarnefnd Alþingis fari með málið. Það er nýlunda. Ástæðurnar eru margar. Í fyrsta lagi ber að nefna þá ástæðu að iðnaðarráðuneytið hefur brugðist í þessum efnum. Þar hafa menn allt frá því að Sverrir Hermannsson gegndi starfi iðnaðarráðherra einblínt á ál og aftur ál. Þó hefur keyrt um þverbak í tíð Jóns Sigurðssonar. Hann hefur nú starfað sem iðnaðarráðherra í þremur ráðuneytum án árangurs og eftir stendur pappírshaugurinn einn og kostnaður upp á nærri milljarð króna sem þjóðin hefur orðið að borga. Þetta ráðslag hefur orðið þjóðinni dýrt og það sem verra er, minna en árangurslaust.
    Hin meginástæðan fyrir flutningi tillögu um að könnunin fari fram undir forustu iðnaðarnefndar Alþingis er sú að sett hafa verið lög um frumkvæði þingnefnda. Það er því í góðu samræmi við anda nýju laganna að iðnaðarnefnd taki sér frumkvæði í málaflokki þar sem iðnaðarráðherra hefur brugðist. Það er einnig í góðu samræmi við þann samstarfsanda sem náðst hefur í hinni nýju iðnaðarnefnd Alþingis.
    Fallist Alþingi á tillöguna tekur þingið ábyrgð á þeim fjárhagslegu afleiðingum sem samþykkt tillögunnar kann að hafa í för með sér. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir 75 millj. kr. af óskiptum liðum iðnaðarráðuneytisins til ýmissa verkefna. Verður að telja eðlilegt að hluti þess fjármagns fari til þess að kosta þessa sérstöku könnun Alþingis.
    Að undanförnu hafa birst margvíslegar upplýsingar um útflutning á raforku með sæstreng. Einna fróðlegast er viðtal sem birtist í Morgunblaðinu við Inga Þorsteinsson, aðalræðismann Íslands í Kenía. Þá hafa birst fréttir um þessi efni í innlendum og erlendum blöðum og sérfræðingur var fenginn til að gera úttekt á þessu máli sérstaklega hér á landi en hann hvarf frá þar sem honum hafði verið tjáð að hér væri engin orka á lausu í þessu skyni fyrr en eftir aldamótin.
    Nánari grein verður gerð fyrir tillögunni í framsöguræðu.