Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 180 . mál.


198. Tillaga til þingsálykt

unar

um fráveitumál sveitarfélaga.

Flm.: Sigurður Hlöðvesson, Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta gera úttekt á stöðu fráveitumála hjá sveitarfélögum í landinu, meta kostnað við úrbætur og gera tillögur um hvernig sveitarfélögum verði auðveldað að standa undir kostnaði við úrbætur.

Greinargerð.


     Þann 1. jan. 1990 tók gildi mengunarvarnareglugerð nr. 386/1989. Í reglugerðinni eru mjög hertar kröfur um hreinsun og hámarksgerlamengun skolps sem leitt er í sjó.
    Það er ljóst að víða er ástand fráveitumála mjög slæmt og kostnaðarsamt að gera viðeigandi úrbætur til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar. Jafnframt er ljóst að brýn nauðsyn er á úrbótum, ekki síst ef litið er til þess að við framleiðum matvæli sem við kynnum sem úrvals vöru unna úr hráefni úr hreinu og ómenguðu umhverfi. Ætla má að möguleikar okkar í matvælaframleiðslu í framtíðinni liggi fyrst og fremst í að framleiða hágæðavöru. Þess vegna verðum við nú þegar að gera úrbætur í mengunarmálum þannig að við getum viðhaldið þeirri ímynd sem tekist hefur að skapa að Ísland sé hreint og ómengað matvælaframleiðsluland.
    Kostnaður sveitarfélaga við úrbætur í frárennslismálum er mjög mikill. Til þess að flýta fyrir úrbótum þarf að koma til aðstoð við fjármögnun stofnkostnaðar og leita þarf leiða til að létta sveitarfélögunum þá fjármögnun.
    Ítarleg skýrsla hefur verið unnin um framtíðarskipan sorphirðu, meðferð úrgangsefna og endurvinnslu. Nauðsynlegt er einnig að vinna tillögur til úrbóta í fráveitumálum þannig að uppfylla megi ákvæði mengunarvarnareglugerðarinnar.
    Tillaga þessi er flutt með það að markmiði að ástand fráveitumála sveitarfélaga verði kannað þannig að hægt sé að meta kostnað við úrbætur og gera tillögur um leiðir til að létta sveitarfélögum fjármögnun á nauðsynlegum úrbótum.