Ferill 170. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 170 . mál.


390. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um árangur jafnréttisátaks í Stjórnarráðinu.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    Hefur orðið einhver mælanlegur árangur af jafnréttisátaki í Stjórnarráðinu sem félagsmálaráðherra átti frumkvæði að í tíð síðustu ríkisstjórnar? Óskað er upplýsinga m.a. um eftirfarandi, sundurliðað eftir ráðuneytum:
         
    
    Hversu margir karlar og hversu margar konur gegna stöðum yfirmanna í Stjórnarráðinu? Hefur konum fjölgað í þessum stöðum og ef svo er, hvaða stöður er þá um að ræða?
         
    
    Hver eru meðallaun karla og kvenna sem gegna stöðum yfirmanna? Hafa meðallaun yfirmanna breyst á því tímabili sem hér um ræðir og ef svo er, hver er breytingin hjá hvorum hóp fyrir sig?
         
    
    Hversu margir karlar og hversu margar konur njóta hlunninda í starfi? Hefur konum, sem njóta hlunninda, fjölgað umfram karla á þessu tímabili?
    Voru viðbrögð við þessu átaki mismunandi eftir ráðuneytum og ef svo var, í hverju voru þau fólgin?

    Verður jafnréttisátaki haldið áfram í tíð núverandi ríkisstjórnar og ef svo er, hvernig er þá fyrirhugað að standa að því?
    Hefur félagsmálaráðherra áform um einhverjar aðrar aðgerðir til þess að auka áhrif kvenna við stjórn þjóðfélagsins?

Svar við 1. spurningu.
    Í fyrirspurninni er spurt um jafnréttisátak sem félagsmálaráðherra hafi beitt sér fyrir í Stjórnarráði Íslands í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hér er væntanlega átt við samþykkt um gerð jafnréttisáætlana sem ríkisstjórn undir forsæti Þorsteins Pálssonar gerði í maí 1988 og beint var til allra ríkisstofnana þar sem starfa 20 manns eða fleiri. Samkvæmt samþykktinni skyldu jafnréttisáætlanirnar gilda frá 1. janúar 1989 til loka árs 1993. Enn fremur var ákveðið að meta árangurinn að tveimur árum liðnum, þ.e. á fyrri hluta árs 1991. Jafnréttisráð hefur framkvæmt þetta mat og birt niðurstöðuna í skýrslu sem send var ráðherra sl. haust. Vegna spurningarinnar um hækkun meðallauna kvenna sem gegna stöðum yfirmanna er rétt að taka fram að í jafnréttisáætlunum eru laun ekki gerð að sérstöku viðfangsefni.
    Einnig er rétt að benda á að á þeim tíma, sem jafnréttisáætlanirnar hafa gilt, hefur verið lítil hreyfing á starfsmönnum Stjórnarráðsins þar sem ráðuneytin hafa búið við strangt aðhald að því er varðar launabreytingar og nýráðingar.
    Árið 1991 höfðu samtals 107 karlar og 53 konur starfsheitið ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri, forstöðumaður deildar eða deildarstjóri. Það skal upplýst að samkvæmt áliti launaskrifstofu fjármálaráðuneytisins getur kostnaður við að gera úttekt á meðallaunum kvenna og karla í stöðum yfirmanna í Stjórnarráði Íslands numið allt að 250 þús. kr.
    Þrátt fyrir ágalla á fyrirspurninni, sem m.a. snerta notkun hugtaka eins og „yfirmenn“ og „meðallaun“ sem ekki eru skilgreind, hefur verið reynt að afla þeirra upplýsinga frá ráðuneytunum sem fyrirspyrjandi óskar eftir. Hér á eftir er gerð grein fyrir nokkrum atriðum sem félagsmálaráðuneytinu sýnist helst ástæða til að nefna úr þeim svörum sem borist hafa frá einstökum ráðuneytum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti:
    Við upphaf jafnréttisátaks í ársbyrjun 1989 gegndu tvær konur yfirmannsstöðu í ráðuneytinu. Nú eru þær fjórar. Á sama tíma hefur fjölgað um 0,75 stöðugildi yfirmanna.
    Meðallaun hafa aðeins hækkað í samræmi við breytingar samkvæmt kjarasamningum og hafa meðallaun kvenna hækkað á sama hátt og meðallaun karla.
    Yfirmenn í ráðuneytinu njóta engra þeirra hlunninda í starfi sem talin eru til hlunninda í hlunnindamati ríkisskattstjóra.
    Kjör yfirmanna eru þau sömu hvort sem karl eða kona gegnir stöðunni.

Félagsmálaráðuneyti:
    Á gildistíma jafnréttisáætlunar hefur yfirmannastöðum, sem konur gegna, fjölgað um tvær. Í ráðuneytinu er kona ráðuneytisstjóri og karl skrifstofustjóri. Sjö konur og fjórir karlar eru deildarstjórar.
    Í samræmi við jafnréttisáætlun ráðuneytisins hefur sérstakt átak verið gert í að hækka laun starfsfólks sem ekki gegnir störfum yfirmanna en þar er einungis um konur að ræða.
    Ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri fá bifreiðastyrk eftir sömu reglum og í öðrum ráðuneytum. Yfirmenn fá greitt fastagjald heimasíma.
    Þróun meðallauna yfirmanna í ráðuneytinu hefur á gildistíma jafnréttisáætlunar verið í samræmi við kjarasamninga og þar er enginn munur á launum karla og kvenna.

Fjármálaráðuneyti:
    Yfirmannastöðum kvenna hefur fjölgað um eina og er þar um að ræða deildarstjórastöðu á starfsmannaskrifstofu.
    Ekki liggur fyrir nákvæmur útreikningur á breytingum meðallauna innan ráðuneytisins en fullyrða má að ef meðallaun hafa hækkað þá hefur sú hækkun komið jafnt á konur og karla.
    Ekki njóta fleiri konur hlunninda eftir sem áður enda lítið sem ekkert um slíkar greiðslur í ráðuneytinu.

Forsætisráðuneyti:
    Á tímabili jafnréttisáætlana hefur kona verið skipuð skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins 1. september 1989.
    Engar breytingar hafa orðið á meðallaunum yfirmanna á tímabili því sem hér um ræðir.
    Framangreindur skrifstofustjóri hefur bílastyrk samkvæmt lokuðum aksturssamningi eins og aðrir skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands og fastagjald af heimasíma er greitt.

Hagstofa Íslands:
    Yfirmenn, skilgreindir sem ráðuneytisstjóri, skrifstofustjórar og deildarstjórar, eru jafnmargir nú og þegar jafnréttisáætlun var gerð og skipting milli kynja óbreytt.
    Laun yfirmanna hafa þróast með alveg sambærilegum hætti hvort sem um konur eða karla er að ræða.
    Óvíst er hvað telja beri hlunnindi, en sé t.d. miðað við bílastyrki og símastyrki hefur engin breyting orðið á í þessu efni undanfarin missiri.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti:
    Á tímabilinu hefur konum fjölgað í stöðum yfirmanna í ráðuneytinu þannig að tveir deildarstjórar hafa orðið skrifstofustjórar. Meðallaun hafa hækkað sem svarar launaflokksbreytingu milli deildarstjóra og yfirmanna miðað við þessar tvær stöðubreytingar.
    Meðallaun karla og kvenna, sem gegna yfirmannastöðum, eru í samræmi við samninga opinberra starfsmanna og kynskipting kemur þar ekki til greina. Meðallaun yfirmanna hafa á þessu tímabili aðeins breyst í samræmi við kjarasamninga og þar er enginn munur á launum karla og kvenna hvað breytingar snertir.
    Engin hlunnindi eru greidd vegna þeirra starfa sem hér um ræðir.

Iðnaðarráðuneyti:
    Konum hefur ekki fjölgað í stöðum yfirmanna það sem af er tímabili jafnréttisáætlana ráðuneytanna. Ekki er heldur um að ræða hlutfallslegar breytingar á launahlutföllum karla og kvenna í störfum hjá ráðuneytinu né á hlunnindagreiðslum hvers konar.

Landbúnaðarráðuneyti:
    Konum hefur ekki fjölgað í stöðum yfirmanna á tímabili jafnréttisáætlunar.
    Ekki hefur orðið nein hækkun á meðallaunum kvenna í stöðum yfirmanna umfram þær hækkanir sem orðið hafa á launum annarra.
    Allir yfirmenn ráðuneytisins, konur jafnt og karlar, fá greitt fastagjald heimasíma og hefur svo verið um margra ára skeið.

Menntamálaráðuneyti:
    Á gildistíma jafnréttisáætlunar hefur konum fjölgað í stöðum yfirmanna. Kona hefur verið skipuð skrifstofustjóri og konum hefur fjölgað um tvær í deildarstjórastöðum.
    Laun skrifstofustjóra eru óbreytt en laun kvenna í deildarstjórastöðum hafa hækkað að meðaltali um þrjá launaflokka.
    Ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri fá bifreiðastyrk samkvæmt þeim reglum er gilda annars staðar í Stjórnarráði Íslands. Allir yfirmenn fá greitt fastagjald heimasíma.

Samgönguráðuneyti:
    Laun eru hliðstæð hjá körlum og konum þegar um sams konar stöður er að ræða.
    Meðallaun kvenna og karla hafa ekki breyst á því tímabili sem jafnréttisáætlun hefur verið í gildi.
    Ráðuneytisstjóri og sá skrifstofustjóri, sem er staðgengill hans, njóta bifreiðastyrks.
    Ráðuneytisstjóri, skrifstofustjórar og deildarstjórar fá símastyrki.

Sjávarútvegsráðuneyti:
    Frá gildistöku jafnréttisáætlunar 1. janúar 1989 hefur hvorki nokkur af fastráðnum yfirmönnum ráðuneytisins látið af störfum né nýir verið ráðnir. Fjöldi kvenna og karla í yfirmannastöðum er óbreyttur frá gildandi jafnréttisáætlun, svo og þau stöðuheiti sem starfsmenn bera.
    Starfsmenn ráðuneytisins taka laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Laun þeirra hafa hækkað í samræmi við gildandi kjarasamninga og kemur kynskipting þar ekki til greina. Nákvæmur útreikningur á hækkun meðallauna liggur ekki fyrir.
    Ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri fá bílastyrk eftir sömu reglum og í öðrum ráðuneytum. Yfirmenn frá greitt fastagjald heimasíma.

Umhverfisráðuneyti:
    Þrjár konur hafa á síðustu þrettán mánuðum verið skipaðar deildarstjórar í umhverfisráðuneytinu. Er hér um að ræða deildarstjóra mengunarvarnadeildar, deildarstjóra almennrar skrifstofu og deildarstjóra almennrar lögfræðideildar.
    Meðallaun þeirra kvenna og karla, sem nú skipa deildarstjórastöðu við ráðuneytið en gerðu það ekki á sl. ári, hafa hækkað vegna þeirra breytinga. Laun þeirra og annarra starfsmanna hafa því hækkað í samræmi við gildandi kjarasamninga.
    Kjör kvenna í ráðuneytinu eru ákveðin með sama hætti og annarra starfsmanna þess. Ekki er gerður þar greinarmunur á. Meðallaun þeirra karla, sem skipaðir hafa verið í stöður hjá ráðuneytinu, hafa því hækkað með sama hætti og hjá konunum. Ekki er hægt að segja að fleiri konur njóti nú hlunninda en áður eins og spurt er um, en þess ber að geta að ráðuneytið tók til starfa á árinu 1990 og er því enn ungt að árum.

Utanríkisráðuneyti:
    Kona var skipuð sendiherra í Stokkhólmi í upphafi árs 1991 og er hún fyrst kvenna til að gegna starfi sendiherra í utanríkisþjónustu Íslands.
    Kona var skipuð deildarstjóri í upplýsinga- og menntadeild ráðuneytisins í upphafi árs 1991.
    Kona var skipuð varamaður sendiherra í Brussel í mars 1991 og gegna nú þrjár konur slíkum stöðum í utanríkisþjónustunni.
    Nákvæmur útreikningur á meðallaunum karla og kvenna í stöðum yfirmanna er ekki fyrirliggjandi, en meðallaun kvenna hafa hækkað miðað við karla, m.a. samkvæmt ofangreindu.
    Utanríkisráðuneyti mun áfram vinna að jafnréttisátaki.

Viðskiptaráðuneyti:
    Konum hefur ekki fjölgað í stöðum yfirmanna það sem af er tímabili jafnréttisáætlana ráðuneytanna. Ekki er heldur um að ræða hlutfallslegar breytingar á launahlutföllum karla og kvenna í störfum hjá ráðuneytinu né á hlunnindagreiðslum hvers konar.

Svar við 2. spurningu.
    Ekki er merkjanlegur munur á viðbrögðum ráðuneytanna við jafnréttisátakinu.

Svar við 3. spurningu.
    Samkvæmt upphaflegri samþykkt ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar er gert ráð fyrir að jafnréttisátakið standi til loka árs 1993. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhald átaksins eftir það.

Svar við 4. spurningu.
    Vísað er til gildandi framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Framkvæmdaáætlunin var lögð fyrir Alþingi sl. vor og gildir til ársins 1995. Þessi framkvæmdaáætlun er nú í endurskoðun vegna ákvæða í nýjum jafnréttislögum.

    Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að gerð verði úttekt á heildarlaunum kvenna og karla innan BSRB og BHMR fyrir árið 1991 sundurliðað eftir:
    launaflokkum,
    yfirvinnu,
    álagsgreiðslum, bílastyrkjum og öðrum kostnaði,
    nefndarlaunum.
    Á það skal minnt að árið 1988 samþykktu norrænu jafnréttisráðherrarnir jafnréttisáætlun til fimm ára. Eitt þýðingarmesta verkefnið innan ramma áætlunarinnar hefur það markmið að afla upplýsinga um launamun kynja og greina ástæður hans. Einnig verður þróun launamunar kynjanna á Norðurlöndunum rannsökuð, upplýsingum miðlað og umræðan um launajafnrétti efld. Markmið verkefnisins, sem nefnt er norræna jafnlaunaverkefnið, er einnig það að leita nýrra leiða til að ryðja ástæðum launamunar kynjanna úr vegi. Áætlað er að verkefninu ljúki í árslok 1993.
    Samhliða því að félagsmálaráðherra ákvað að Ísland tæki þátt í norræna jafnlaunaverkefninu var ákveðið að ráða verkefnisstjóra sem hóf störf fyrir rúmu ári síðan. Skipuð var verkefnisstjórn en í henni eiga sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Vinnumálasambands samvinnufélaganna, Vinnuveitendasambands Íslands, Jafnréttisráðs, norrænu embættismannanefndarinnar sem fjallar um jafnréttismál og félagsmálaráðuneytis.
    Ráðherra skipaði vinnuhóp í september sl. á sviði tölfræði við norræna jafnlaunaverkefnið.
    Hlutverk vinnuhópsins er að setja fram tillögur um úrbætur á sviði opinberrar tölfræðilegrar upplýsingaöflunar og þróa aðferðir við úrvinnslu svo að greina megi launamun karla og kvenna og afmarka áhrif kynferðis á þennan mun. Enn fremur að kanna hvort fylgni sé á milli hlutfalls kvenna í einstökum starfsgreinum og kjara.
    Vinnuhópurinn skal einnig vera til ráðgjafar um framkvæmd kannana og athugana sem gerðar verða á vegum norræna jafnlaunaverkefnisins.
    Loks skal vinnuhópurinn aðstoða við framsetningu á tölulegum upplýsingum á vegum norræna jafnlaunaverkefnisins.
    Í þessum vinnuhópi eiga sæti fulltrúar Hagstofu Íslands, kjararannsóknarnefndar, kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna, norræna jafnlaunaverkefnisins og Þjóðhagsstofnunar.