Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 261 . mál.


438. Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins um 43. þing þess.

1. Inngangur.
    Gífurlegar breytingar eru að verða í Evrópu. Múrar milli austurs og vesturs eru horfnir. Stjórnskipulag Sovétríkjanna er hrunið og á rústum þess eru ný ríki að sækja fram og afla sér viðurkenningar. Þessi þróun hefur áhrif á samstarf Evrópuþjóðanna og þær stofnanir sem um það hafa verið myndaðar. Evrópuráðið er ein þessara stofnana. Því hefur verið líkt við hlið sem þjóðir á leið til lýðræðislegra stjórnarhátta verða að fara í gegnum til að geta orðið virkir þátttakendur í Evrópusamstarfinu almennt fyrir utan Ráðstefnuna um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE).
    Þessi þróun setti svip á 43. ráðgjafarþing Evrópuráðsins sem hófst í apríl 1991 og lauk í febrúar 1992. Á þessum tíma kom til borgarastyrjaldar í Júgóslavíu og leiddi það til þess að sambandi ráðsins við Júgóslavíu var slitið. Eftir upplausn Sovétríkjanna var fulltrúum Rússlands boðin seta á gestabekk Evrópuráðsþingsins.
    Hrun Sovétríkjanna hefur m.a. leitt til umræðna um það hvort setja eigi aðild að Evrópuráðinu landfræðileg mörk í austri. Er ekki fengin niðurstaða í þeim umræðum sem óneitanlega mótast einnig af því að siðir og menning breytast eftir því sem austar dregur. Á vettvangi RÖSE hafa landfræðileg mörk ekki verið dregin, t.d. við Úral-fjöll. Í því sambandi má minna á að RÖSE-samstarfið nær til ríkja í Norður-Ameríku, Bandaríkjanna og Kanada.
    Um það ætti ekki að vera neinum blöðum að fletta að Evrópuráðið gegnir mikilvægu hlutverki fyrir hinar nýfrjálsu þjóðir. Innan vébanda þess er að finna samþykktir og stofnanir sem eiga að stuðla að lýðræði, vernd mannréttinda og tryggingu félagslegra réttinda. Ekkert er brýnna fyrir friðsamlega þróun innan þjóðríkja og í samskiptum ríkja en virðingin fyrir lögum og rétti. Þar kemur sérstaklega til álita hvernig réttur minnihlutahópa er tryggður. Það er brýnt og víða sársaukafullt verkefni í Mið- og Austur-Evrópu.
    Þeir sem kynna sér listann yfir tillögur og ályktanir 43. þingsins, sem birtur er í fskj. I með þessari skýrslu, sjá að störf þingsins hafa að verulegu leyti snúist um afleiðingar atburðanna í Mið- og Austur-Evrópu. Önnur mál hefur hins vegar einnig borið hátt og er sérstök ástæða til að minnast á umhverfismál, landbúnaðarmál og félagsmál.
    Á þessari stundu er ekki unnt að fullyrða neitt um það hvaða áhrif breytingarnar í Evrópu eiga eftir að hafa á Evrópuráðið. Ef aðildarþjóðunum fjölgar í um það bil 40 mun það gjörbreyta starfsháttum þings Evrópuráðsins og hafa veruleg áhrif á starfsemina í höfuðstöðvunum í Strassborg.
    Í þessari skýrslu er ekki farin sú leið að rekja efni einstakra tillagna og ályktana á 43. þinginu. Yfirlit yfir tillögur og ályktanir þingsins er birt í fskj. I. Jafnframt er minnt á að í lok hverrar fundalotu þingsins hefur Íslandsdeildin dreift frásögn af framvindu mála til Alþingis.

2. Almennt um Evrópuráðið.
    Stofnskrá Evrópuráðsins frá 5. maí 1949 er mótuð af þeirri von að Evrópuríkin geti með því að bindast fastari böndum staðið að því að varðveita lýðræði, mannréttindi og frið í heiminum. Í inngangi stofnskrárinnar segjast ríkin staðfesta á ný trú sína á þau verðmæti, andleg og siðferðileg, sem eru hin sameiginlega arfleið þessara þjóða og hin sönnu upptök einstaklingsfrelsis, stjórnmálalegs frjálsræðis og skipunar laga og réttar.
    Í 3. gr. stofnskrárinnar segir um skilyrði til þess að verða aðili að Evrópuráðinu að sérhvert þátttökuríki verði að viðurkenna grundvallarreglurnar um skipun laga og um að öllum einstaklingum innan umdæmis þess skuli tryggð mannréttindi og grundvallarfrelsi. Ríkin verði og í orði og verki að taka þátt í samvinnu til að ná markmiði ráðsins eins og það er skilgreint í fyrsta kafla stofnskrárinnar.
    Hinn 7. febrúar 1950 var þingsályktunartillaga samþykkt á Alþingi um að Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu og kom hún til framkvæmda 1951.
    Frá stofnun Evrópuráðsins hafa fjölmargir Evrópusáttmálar verið settir um ýmis svið þjóðlífsins og er mikilvægastur þeirra Mannréttindasáttmáli Evrópu sem var undirritaður árið 1950. Evrópuráðið hefur því reynst kjörinn vettvangur til þess að styðja þjóðir Mið- og Austur-Evrópu á leið þeirra til lýðræðis og breytts þjóðskipulags, laga og réttar.
Aðildarríki og gestaaðild.
    Frá upphafi hefur aðildarríkjum Evrópuráðsins fjölgað úr 12 í 26, aðallega á allra síðustu missirum eftir mikil umbrot í Mið- og Austur-Evrópu. Aðildarríkin eru nú 26 (innan sviga er getið aðildarárs nýjustu ríkjanna): Austurríki, Belgía, Bretland, Danmörk, Finnland (1989), Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ísland, Ítalía, Kípur, Liechtenstein (1978), Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland (1991), San Marínó (1988), Spánn (1977), Sviss, Svíþjóð, Tékkóslóvakía (1991), Tyrkland, Ungverjaland (1990) og Þýskaland. Hinn 11. maí 1989 var samþykkt á þinginu ályktun um að veita ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, að vissum skilyrðum uppfylltum, gestaaðild að ráðinu. Hefur slík aðild jafnan verið undanfari þess að ríkin fengju fulla aðild að ráðinu. Gestaaðild hafa nú Albanía, Búlgaría, Eistland, Lettland, Litáen, Rúmenía, Slóvenía og Rússland.

Skipulag þinghaldsins.
    Evrópuráðsþingið starfar sem ráðgjafarþing fyrir ráðherranefnd Evrópuráðsins en í henni sitja utanríkisráðherrar allra aðildarríkja eða fulltrúar þeirra. Albert Guðmundsson, sendiherra í París, er nú fulltrúi utanríkisráðherra í ráðherranefndinni fyrir hönd Íslands.
    Þingið er umræðuvettvangur Evrópuráðsins og því er falið að fjalla um þau mál sem heyra undir starfssvið þess samkvæmt stofnskránni og leggur það niðurstöður sínar fyrir ráðherranefndina í formi tillagna. Tillaga (recommendation) er skilgreind sem tillaga þingsins til ráðherranefndarinnar en framkvæmd hennar er í höndum ríkisstjórna aðildarríkjanna. Þingið getur og skilað ráðherranefndinni áliti á málefnum sem hafa verið borin undir það. Álit (opinion) þingsins geta einnig verið í formi ályktana. Ályktun (resolution) er skilgreind sem ákvörðun í mikilvægu málefni sem þingið hefur vald til að framkvæma eða álit sem það eitt ber ábyrgð á. Þingið getur gefið skrifstofu eða öðrum stofnunum þess fyrirmæli (order).
    Mikilvægastar þessara ákvarðana eru tillögur til ráðherranefndarinnar um að samþykkja ákvarðanir þingsins svo að fela megi ríkisstjórnum aðildarríkjanna að hrinda þeim í framkvæmd.
    Evrópuráðsþingið er haldið þrisvar á ári í Strassborg auk sumarþings í einhverju aðildarríkjanna. Nýtt þing hefst að vori en aðalþingið er haldið að hausti. Á sumarþingi í einu aðildarríkja Evrópuráðsins er jafnan lögð höfuðáhersla á nefndarfundi og undirbúning fyrir haustþingið.
    Skipan sendinefndar hverrar þjóðar á þinginu endurspeglar þingstyrk flokkanna í heimalandinu. Á þinginu starfa þingflokkar þar sem tekin er sameiginleg afstaða til þeirra mála sem eru á dagskrá þingsins hverju sinni. Þessir þingflokkar eru Socialist Group, þ.e. jafnaðarmenn (Alþýðuflokkur), European Democratic Group, þ.e. hægri flokkar (Sjálfstæðisflokkur), Liberal Democratic and Reformers Group, þ.e. frjálslyndir (Framsóknarflokkur), European People's Party, þ.e. kristilegir flokkar og United European Left, þ.e. flokkar til vinstri við jafnaðarmenn. Fulltrúar Alþýðubandalags og Kvennalista hafa ekki tekið þátt í störfum þingflokka á Evrópuráðsþinginu.

3. 43. þing Evrópuráðsins.
a. Fulltrúar Íslands á Evrópuráðsþinginu.
    Í samræmi við stofnskrá Evrópuráðsins eru þrír fulltrúar af hálfu Íslands á þingi þess og þrír til vara. Á fyrri hluta ársins 1991 voru þau Ragnhildur Helgadóttir, formaður, Guðmundur G. Þórarinsson, varaformaður, Eiður Guðnason, Ragnar Arnalds, Þórhildur Þorleifsdóttir og Guðmundur Ágústsson í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins. Eftir alþingiskosningar í apríl 1991 var skipuð ný sendinefnd skv. 35. gr. þingskapalaga. Þá völdust í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins: Björn Bjarnason, formaður, Guðmundur Bjarnason, varaformaður, Sigbjörn Gunnarsson, Ragnar Arnalds, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir. Á haustfundi þingsins 1991 tók Þóra Guðnadóttir við starfi ritara Íslandsdeildarinnar af Ólafi Ólafssyni, varaskrifstofustjóra Alþingis.

b. Þingfundir á 43. þingi.
    Fyrsti hluti 43. þings Evrópuráðsins var 22.–26. apríl 1991 í höfuðstöðvum þess í Strassborg. Þá komu: Ragnhildur Helgadóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Ragnar Arnalds. Ragnhildur Helgadóttir fylgdi eftir skýrslu heilbrigðis- og félagsmálanefndar til þingsins sem framsögumaður. Hún lét af embætti varaforseta þingsins sem hún gegndi á 42. þinginu og forsetinn Anders Björck þakkaði henni sérstaklega og íslensku sendinefndinni fyrir störf í þágu Evrópuráðsþingsins.
    Sumarþing Evrópuráðsins var að þessu sinni haldið í Helsinki í Finnlandi dagana 25.–29. júní 1991. Nýja sendinefndin, fyrir utan formann, sótti þingið ásamt ritara.
    Annar hluti þingsins og jafnframt aðalþing ráðsins var haldið dagana 18.–25. september 1991 í Strassborg. Það sóttu Björn Bjarnason, Guðmundur Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson, Ragnar Arnalds og ritari.
    Þriðji og síðasti hluti 43. þingsins fór fram í Strassborg dagana 3.–7. febrúar 1992 og sóttu þá fundi Björn Bjarnason, Guðmundur Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson og Lára Margrét Ragnarsdóttir auk ritara.

c. Nýr forseti Evrópuráðsþingsins.
    Forseti Evrópuráðsþingsins, Svíinn Anders Björck, lét af embætti 26. nóvember 1991 er hann hafði tekið við embætti varnarmálaráðherra Svíþjóðar. Breski hægri maðurinn Sir Geoffrey Finsberg var kosinn forseti þingsins í upphafi þriðja hluta 43. þingsins fram að næstu reglulegu kosningum í upphafi 44. þings í maí nk.

d. Ný ríki og gestaaðild.
    Á haustþinginu fengu Eystrasaltsríkin Eistland, Lettland og Litáen gestaaðild að Evrópuráðinu og var það fyrsta alþjóðastofnunin sem veitti þeim slíka viðurkenningu. Þá áttu Búlgaría, Rúmenía og Sovétríkin einnig gestaaðild. Júgóslavía var svipt gestaaðild 25. nóvember 1991 þar sem talið var að hún uppfyllti ekki lengur kröfur Evrópuráðsins um lýðræðislega stjórnarhætti. Hinn 26. nóvember 1991 fékk Pólland fulla aðild að Evrópuráðinu og er það 26. aðildarríki þess. Á síðasta hluta þingsins, 3.–7. febrúar, var ákveðið að veita Albaníu og Slóveníu gestaaðild en Rússland hefur tekið við af Sovétríkjunum eftir upplausn þeirra. Þá eru umsóknir Makedóníu, Armeníu, Hvíta-Rússlands, Moldóvu og Úkraínu í athugun. Ísrael hefur haft áheyrnarfulltrúa á þingi Evrópuráðsins síðan 1957 en Ísraelar mega aðeins taka þátt í umræðum með samþykki forseta.

e. Ræður þjóðarleiðtoga á 43. þinginu.
    Venja er að á hverju reglulegu þingi Evrópuráðsins ávarpi þjóðarleiðtogar þingmenn og svari fyrirspurnum þeirra. Vorþingið í apríl 1991 sóttu Constantin Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, og Francesco Cossiga, forseti Ítalíu. Á haustþinginu í september 1991 voru Flavio Cotti, forseti Sviss, og Poul Schlüter, forsætisráðherra Danmerkur. Í febrúar 1992 ávörpuðu Lech Walesa, forseti Póllands, og Chaim Herzog, forseti Ísraels, þingið.

f. Ályktanir og tillögur samþykktar á 43. þingi.
    Á 43. þingi Evrópuráðsins voru samþykktar 34 tillögur og 22 ályktanir fyrir utan álit og fyrirmæli. Í fskj. I er birt yfirlit yfir þær. Í þingtíðindum Evrópuráðsins er unnt að kynna sér alla texta og ræður á þinginu.

4. Nefndastörf.
a. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
    Íslandsdeildin skiptist þannig í nefndir:
    Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd     Björn Bjarnason.
    Stjórnarnefnd          Björn Bjarnason.
    Stjórnmálanefnd          Björn Bjarnason.
    Laganefnd               Ragnar Arnalds,
              til vara               Björn Bjarnason.
    Efnahagsnefnd          Guðmundur Bjarnason,
              til vara               Ragnar Arnalds.
    Umhverfis-, skipulags- og
         sveitarstjórnarmálanefnd          Guðmundur Bjarnason,
              til vara               Kristín Ástgeirsdóttir.
    Þingskapanefnd          Guðmundur Bjarnason.
    Landbúnaðarnefnd          Sigbjörn Gunnarsson.
    Fjárlaganefnd          Sigbjörn Gunnarsson.
    Mennta- og menningarmálanefnd          Ragnar Arnalds,
              til vara               Guðmundur Bjarnason.
    Heilbrigðis- og félagsmálanefnd          Lára Margrét Ragnarsdóttir,
              til vara               Guðmundur Bjarnason.
    Nefnd um samskipti við lönd utan
         Evrópuráðsins          Kristín Ástgeirsdóttir,
              til vara               Björn Bjarnason.
    Vísinda- og tækninefnd          Lára Margrét Ragnarsdóttir,
              til vara               Sigbjörn Gunnarsson.
    Nefnd um almannatengsl þingsins          Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Flóttamannanefnd          Kristín Ástgeirsdóttir.

b. Þátttaka í nefndarfundum utan þinga.
    Utan reglulegra þinga tóku fulltrúar Íslandsdeildarinnar þátt í eftirfarandi nefndafundum:
    Björn Bjarnason sótti fund stjórnarnefndar og sameiginlegan fund með ráðherranefndinni 25.– 26. nóvember 1991 í höfuðstöðvum ráðsins í Strassborg en þá var ákveðið að veita Póllandi aðild að ráðinu og tilkynnt að Sir Geoffrey Finsberg tæki við embætti forseta sem fyrr greinir.
    Guðmundur Bjarnason sótti fundi þingskapanefndar 8.–9. janúar 1992 í Lúxemborg en þá voru rædd ýmis vandamál vegna þeirrar fjölgunar sem hefur orðið í Evrópuráðinu, svo og hugsanlegar takmarkanir á ræðutíma og aðrar aðgerðir til hagræðingar þinghalds.
    Sigbjörn Gunnarsson sótti fund undirnefndar landbúnaðarnefndar um fiskveiðar 14. júní í París. Á fundinum var rætt m.a. um framtíð fiskveiða Evrópuþjóða og hugsanlega sameiginlega fiskveiðistefnu.
    Ragnar Arnalds sótti fund mennta- og menningarmálanefndar í París 5.–6. desember 1991. Þar var m.a. fjallað um skýrslur nefndarinnar um bóka- og skjalasöfn í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og um rétt manna til trúfrelsis.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir fór á fundi heilbrigðis- og félagsmálanefndar í Prag 11.–14. nóvember 1991. Voru breytingar á heilbrigðiskerfi Tékkóslóvakíu kynntar og farið í vettvangskannanir á sjúkrastofnanir. Þá var Láru Margréti falið að vera framsögumaður nefndarinnar um skýrslu til þingsins um ástandið eftir kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl.
    Kristín Ástgeirsdóttir sótti fund flóttamannanefndar 28.–30. október 1991 í Vín. Bar þar hæst málefni Júgóslavíu, fólksflutninga frá Albaníu, flóttamanna- og fólksflutningamál í Austurríki.

c. Störf fyrir nefndir.
    Eins og áður greinir hefur Lára Margrét Ragnarsdóttir verið valin framsögumaður skýrslu heilbrigðis- og félagsmálanefndar til þings Evrópuráðsins um afleiðingar kjarnorkuslyssins í Tsjernóbíl.
    Sigbjörn Gunnarsson hefur verið kosinn varaformaður undirnefndar landbúnaðarnefndar um fiskveiðar sem mun standa fyrir ráðstefnu um sjávarspendýr í Reykjavík dagana 25.–27. maí nk. Hann hefur jafnframt verið valinn framsögumaður skýrslu landbúnaðarnefndar til þingsins um málið að lokinni ráðstefnunni. Undirbúningur ráðstefnunnar er hafinn í samráði við aðalskrifstofu Evrópuráðsins, viðkomandi ráðuneyti og Hafrannsóknastofnun.

5. Annað.
a. Tilnefning Íslands í nefnd um meðferð frelsissviptra manna.
    Í samræmi við skyldur sínar skv. 5. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu nr. 19 28. júní 1990 hefur Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins sent forseta þingsins tillögu með þremur nöfnum um einn fulltrúa Íslands í Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Tilnefnd voru sr. Jón Bjarman, Margrét Heinreksdóttir lögfræðingur og Guðrún Agnarsdóttir, læknir og fyrrverandi alþingismaður, en í tillögunni fólst að sr. Jón Bjarman yrði fulltrúi Íslands í nefndinni.

b. Undirbúningur RÖSE-fundar sumarið 1992.
    Hinn 1.–3. apríl 1991 var efnt til þingmannafundar í Madríd til að leggja drög að stofnun RÖSE-þings, þ.e. í tengslum við Ráðstefnuna um öryggi og samvinnu í Evrópu. Þrír þingmenn, Ragnhildur Helgadóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Matthías Á. Mathiesen, sóttu fundinn. Alþingi voru tryggð þrjú sæti á RÖSE-þinginu en upphaflega var gert ráð fyrir að þingfulltrúar á þinginu yrðu 259. Þar sem aðildarríki RÖSE eru nú orðin 48 hafa komið fram tillögur um að fækka fulltrúum og verður ákvörðun tekin um það á næstunni.
    Hinn 13. janúar 1992 var fyrsti fundur formanna sendinefnda á RÖSE-þingið í Madríd. Þar sem ekki er starfandi Íslandsdeild RÖSE-þingsins ákvað forsætisnefnd að fela Birni Bjarnasyni að sækja fundinn í Madríd. Á grundvelli skýrslu hans ákvað forsætisnefndin að fela aðalmönnum í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins að sækja fyrsta RÖSE-þingið, sem verður í Búdapest í byrjun júlí, í beinu framhaldi af sumarþingi Evrópuráðsins þar.

c. Strassborgarráðstefna um lýðræði.
    Dagana 16.–18. september 1991 var haldin þriðja Strassborgarráðstefnan um þingræði og lýðræði. Ráðstefnuna sóttu Björn Bjarnason, formaður Íslandsdeildarinnar, auk ritara. Til ráðstefnunnar var stofnað 1983 og er hún haldin á fjögurra ára fresti. Að þessu sinni tóku um 400 þingmenn frá yfir 80 þjóðþingum þátt í henni. Hlutverk ráðstefnunnar er einkum þríþætt:
—    að efla tengsl milli lýðræðisríkja,
—    að afla og miðla upplýsingum um þróun lýðræðis á þjóðlegum og alþjóðlegum vettvangi og stuðla að eflingu nýrra lýðræðislegra stofnana,
—    að finna leiðir til að efla lýðræðislega stjórnarhætti.
    Á vetrarþinginu nú í febrúar var Björn Bjarnason kjörinn í stjórnarnefnd Strassborgarráðstefnunnar.

d. Alþjóðalýðræðisstofnunin.
    Hinn 17. september 1991 var haldinn í Strassborg fyrsti aðalfundur Alþjóðalýðræðisstofnunarinnar sem Alþingi á aðild að, en störf hennar hófust formlega 1. október 1990. Alls eru tuttugu þjóðþing aðilar að stofnuninni auk Evrópuráðsins, Evrópubandalagsins, Lýðræðisstofnunarinnar í Washington og Norðurlandaráðs. Stjórnarformaður hennar er forseti Evrópuráðsþingsins en auk hans eru sex menn í stjórn, kjörnir til sex ára af aðalfundi. Stofnunin hefur unnið að því að auðvelda þingmönnum og starfsmönnum þjóðþinga frá Mið- og Austur-Evrópu að tileinka sér lýðræðislega stjórnarhætti. Störf hennar hafa beinst í auknum mæli að Eystrasaltslöndunum.

e. Eftirlit með kosningum í Austur-Evrópu.
    Evrópuráðið sendi eftirlitsnefndir til þess að fylgjast með þingkosningum sem fram fóru í Búlgaríu 13. október 1991 og í Póllandi 27. sama mánaðar.

f. Starfsreglur Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.
    Íslandsdeild Evrópuráðsins samþykkti 16. janúar 1992 skv. 35. gr. þingskapalaga að senda tillögur að starfsreglum deildarinnar til umfjöllunar hjá forsætisnefnd og formönnum þingflokka. Tillöguna er að finna í fskj. II, en skv. 35. gr. þingskapalaga setur forseti Alþingis reglur um störf alþjóðanefnda.

Alþingi, 20. febr. 1992.



Björn Bjarnason,

Guðmundur Bjarnason,

Sigbjörn Gunnarsson.


form.

varaform.



Ragnar Arnalds.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Kristín Ástgeirsdóttir.






Fylgiskjal I.


Samþykktir


43. þings Evrópuráðsins.



Tillögur:
Recommendation 1146: on equal opportunities and equal treatment for women and men          on the labour-market,
        um jöfn atvinnutækifæri og jafnrétti kvenna og karla á atvinnumarkaðinum.
Recommendation 1147: on parliamentary responsibility for the democratic reform of          broadcasting,
        um ábyrgð þjóðþinga á lýðræðislegum umbótum á útvarpi.
Recommendation 1148: on Europe of 1992 and migration policies,
         um Evrópu 1992 og stefnu í fólksflutningum.
Recommendation 1149: on Europe of 1992 and refugee policies,
         um Evrópu 1992 og stefnu í flóttamannamálum.
Recommendation 1150: on the situation of the Iraqi Kurdish population and other per          secuted minorities,
        um aðstæður írakskra Kúrda og annarra ofsóttra minnihlutahópa.
Recommendation 1151: on the reception and settlement of refugees in Turkey,
         um móttöku og aðbúnað flóttamanna í Tyrklandi.
Recommendation 1152: on the situation of the Palestine refugees and the immigration of          the Soviet Jews to Israel,
        um aðstæður palestínskra flóttamanna og flutning sovéskra gyðinga til Ísrael.
Recommendation 1153: on concerted European policies for health,
         um sameiginlega evrópska heilbrigðisstefnu.
Recommendation 1154: on North African migrants in Europe,
         um innflytjendur frá Norður-Afríku í Evrópu.
Recommendation 1155: on the powers of the Assembly in budgetary matters,
         um sjálfræði Evrópuráðsþingsins í fjárhagsmálum.
Recommendation 1156: on recent activities of the Social Development Fund of the          Council of Europe,
         um starfsemi Félagsmálaþróunarsjóðs Evrópuráðsins.
Recommendation 1157: on preservation and management of freshwater resources in          Europe,
         um varðveislu og nýtingu ferskvatnsauðlinda í Evrópu.
Recommendation 1158: on security and co-operation in Europe,
         um öryggi og samvinnu í Evrópu.
Recommendation 1159: on the harmonisation of autopsy rules,
         um samræmdar reglur um krufningar.
Recommendation 1160: on the preparation of a convention on bioethics,
         um undirbúning sáttmála um siðfræði í raun- og læknavísindum.
Recommendation 1161: on the crisis in the Soviet Union,
         um neyðarástandið í Sovétríkjunum.
Recommendation 1162: on the contribution of the Islamic civilisation to European                    culture,
         um framlag íslamskrar siðmenningar til evrópskrar menningar.
Recommendation 1163: on the arrival of asylum-seekers at European airports,
         um komu manna til evrópskra flughafna í leit að hæli.
Recommendation 1164: on demographic imbalances between the countries of the          Mediterranean basin,
         um lýðfræðilegt ójafnvægi milli ríkja á Miðjarðarhafssvæðinu.
Recommendation 1165: on the follow-up to the European Campaign for the Countryside,
         um framhald evrópsks átaks í þágu sveita.
Recommendation 1166: on prospects for European integration and détente in the          Mediterranean,
         um horfur á einingu Evrópu og slökun á Miðjarðarhafssvæðinu.
Recommendation 1167: on the crucial role of food supply in helping to consolidate          democracy in Central and Eastern Europe,
        um lykilhlutverk matvælaaðstoðar til að styrkja lýðræðisþróunina í Mið- og Austur- Evrópu.
Recommendation 1168: on the future of the Social Charter of the Council of Europe,
         um framtíð félagsmálasáttmála Evrópuráðsins.
Recommendation 1169: on education for health and drugs misuse in the member states          of the Council of Europe and the European Community,
        um kennslu á sviði heilbrigðis og misnotkun lyfja í aðildarríkjum Evrópuráðsins og Evrópubandalagsins.
Recommendation 1170: on strengthening the European Convention on the Suppression          of Terrorism,
          um eflingu Evrópusáttmála um útrýmingu hryðjuverka.
Recommendation 1171: on the situation of hospitals in Albania: priority needs of the          Paediatric Institute in Tirana,
          um ástandið á sjúkrahúsum í Albaníu: forgangsþarfir barnalækningastofnunarinnar          í Tírana.
Recommendation 1172: on the situation of the cultural heritage in Central and Eastern          Europe,
          um menningararfleið Mið- og Austur-Evrópuríkja.
Recommendation 1173: on the preservation of libraries and scientific archives in the          countries of Central and Eastern Europe,
          um varðveislu bóka- og skjalasafna í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu.
Recommendation 1174: on pan-European co-operation in the field of agriculture,
          um evrópska samvinnu á sviði landbúnaðar.
Recommendation 1175: on the situation in Yugoslavia,
          um ástandið í Júgóslavíu.
Recommendation 1176: on the crisis in Yugoslavia: displaced populations,
          um neyðarástandið í Júgóslavíu: heimilislaust fólk.
Recommendation 1177: on the rights of minorities,
          um réttindi minnihlutahópa.
Recommendation 1178: on sects and new religious movements,
          um sértrúarsöfnuði og nýja sértrúarhópa.
Recommendation 1179: on the exodus of Albanian nationals,
          um landflótta Albaníumanna.
Recommendation 1180: on citizen's participation in politics,
          um þátttöku almennings í stjórnmálum.

Ályktanir:
Resolution 958: on the duration of the term office of committee chairmen,
         um lengd kjörtímabils nefndarformanna.
Resolution 959: on increasing the number of Vice-Presidents of the Assembly from four          teen to seventeen,
        um fjölgun varaforseta þingsins úr fjórtán í sautján.
Resolution 960: on the amendment of Rule 55 a of the Assembly's Rules of Procedure                              (special guest status),
         um breytingu á grein 55a þingskapa Evrópuráðsins (um gestaaðild).
Resolution 961: on food aid and food security policies,
         um matvælaaðstoð og stefnu í dreifingu og framleiðslu matvæla.
Resolution 962: on „1992“, Europe and the world — Consequences of the completion of          the European Community's internal market,
        um „1992“, Evrópa og umheimurinn — Afleiðingar innri markaðar Evrópubandalagsins.
Resolution 963: on Europe's role in a future „new world order“ after the Gulf war,
         um hlutverk Evrópu í „nýrri heimsskipan“ eftir Persaflóastríðið.
Resolution 964: on European air transport policies,
         um evrópska stefnu í loftflutningum.
Resolution on 965: EFTA activities in 1989 and 1990: a changing EFTA in a changing          Europe,
         um starfsemi EFTA 1989 og 1990: breytt EFTA í breyttri Evrópu.
Resolution 966: on East Timor,
         um Austur-Tímor.
Resolution on 967: renewal of the Council of Europe's Social Charter,
         um endurnýjun félagsmálasáttmála Evrópuráðsins.
Resolution 968: in reply to the report of the activities of the Organisation for Economic          Co-operation and Development (OECD) in 1990,
        svar við starfsskýrslu OECD 1990.
Resolution 969: on the crisis in Yugoslavia,
         um neyðarástandið í Júgóslavíu.
Resolution 970: on the situation in Albania,
         um ástandið í Albaníu.
Resolution 971: on Europe and the state of world population,
         um Evrópu og fólksfjölgun í heiminum.
Resolution 972: on the future of ocean fisheries,
         um framtíð fiskveiða í úthöfum.
Resolution 973: on Mr Raoul Wallenberg and Mr Vilmos Langfelder,
          um Raoul Wallenberg og Vilmos Langfelder.
Resolution 974: on renewable energy sources and solar hydrogen,
          um endurnýjanlegar orkulindir og vetnisorku.
Resolution 975: on the organisation of Assembly debates: references to committees and          presentation of amendments,
          um umræður á Evrópuráðsþinginu: vísun til nefnda og umfjöllun um breytingartil          lögur.
Resolution 976: on special guest status,
          um gestaaðild.
Resolution 977: on European transport problems,
          um flutningamál innan Evrópu.
Resolution 978: on European space policy,
          um evrópska geimáætlun.
Resolution 979: on agriculture's contribution to enhancing energy security and saving the          global environment,
          um þátt landbúnaðar í orkusparnaði og umhverfisvernd.
Resolution 980: on citizen's participation in politics,
          um þátttöku almennings í stjórnmálum.



Fylgiskjal II.

Starfsreglur


fyrir Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.



1. gr.

    Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins (La délégation islandaise de l'Assemblée parlementaire du Conseil de l'Europe) er skipuð þremur alþingismönnum sem aðalmönnum og þremur til vara, sbr. 23. gr. laga Evrópuráðsins. Íslandsdeildin starfar í samræmi við lög Evrópuráðsins og samþykktir Evrópuráðsþingsins.

2. gr.

    Þingflokkar skulu tilnefna í Íslandsdeildina eftir hverjar alþingiskosningar og gildir tilnefningin út kjörtímabilið, nema þingflokkar ákveði annað.

3. gr.

    Þingflokkar skulu tilnefna sameiginlega sex þingmenn til setu í Íslandsdeildinni. Þingflokkur skal tilnefna eftir hlutfallsreglu jafnmarga þingmenn og hann á rétt til samkvæmt stærð flokksins. Þeir þrír þingmenn, er hæsta atkvæðatölu hafa, skulu teljast aðalmenn en þó skal hver þingflokkur eigi hafa rétt til nema eins aðalmanns. Aðrir teljast varamenn í þeirri röð sem atkvæðatala þeirra segir til um. Þingflokki, sem ekki hefur styrkleika til að hljóta fulltrúa í Íslandsdeildina, skal heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum deildarinnar. Áheyrnarfulltrúi skal hafa rétt til þátttöku í starfi Evrópuráðsþingsins samkvæmt almennum reglum 7. gr.

4. gr.

    Fulltrúi stærsta þingflokksins kallar Íslandsdeildina saman til fyrsta fundar og skal þá kjósa formann og varaformann deildarinnar fyrir kjörtímabilið.
    Formaður situr í stjórnarnefnd (bureau), fastanefnd (commission permanente) og samstarfsnefnd (comité mixte) Evrópuráðsþingsins, sbr. 8., 42. og 51. gr. starfsreglna þingsins (réglement de l'Assemblée). Að öðru leyti kemur Íslandsdeildin sér saman um þátttöku í þrettán málefnanefndum þingsins og skulu aðal- og varamenn hafa jafnan rétt til starfa í nefndunum.

5. gr.

    Íslandsdeildin hefur ritara sem er nefndinni til aðstoðar, sbr. 3. mgr. 35. gr. þingskapa Alþingis.

6. gr.

    Íslandsdeildin skal árlega leggja fyrir forsætisnefnd Alþingis, innan þess frests sem nefndin ákveður, tillögur um fjárveitingar til starfsemi deildarinnar. Tillagan skal við það miðuð að fjárveiting nægi til að greiða ferðakostnað fulltrúa og annan kostnað sem af starfsemi deildarinnar leiðir. Reikningar skulu endurskoðaðir með sama hætti og önnur útgjöld Alþingis.

7. gr.

    Í upphafi hvers árs ákveður Íslandsdeildin þátttöku deildarinnar í starfi Evrópuráðsþingsins samkvæmt þeirri fjárveitingu sem deildin hefur. Formaður deildarinnar skal að jafnaði sækja öll þau þing sem Íslandsdeildin tekur þátt í. Við val á öðrum þátttakendum á þingin skal miða við stærð þingflokka og beita hlutfallsreglu d'Hondts, þó þannig að alltaf falli niður réttur eins þingmanns af þeim lista sem þingflokkur formanns á aðild að. Þegar þingflokkur formanns á ekki rétt á fulltrúa í sendinefnd samkvæmt hlutfallsreglunni skal í fjárlagabeiðni deildarinnar gert ráð fyrir aukakostnaði sem af þátttöku formanns hlýst. Þátttaka í nefndafundum, sem haldnir eru utan reglulegra þingfunda, skal miðast við að unnt sé að sinna þeim skyldum sem í starfi nefndanna felast og fjárveitingar leyfa.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skulu tilnefningar í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins á þessu kjörtímabili haldast óbreyttar.