Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 283 . mál.


473. Tillaga til þingsályktunar



um skattlagningu fjármagnstekna.

Flm.: Ragnar Arnalds, Margrét Frímannsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson,


Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon, Guðrún Helgadóttir,


Jóhann Ársælsson, Hjörleifur Guttormsson, Kristinn H. Gunnarsson.


    
     Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leggja fram frumvarp um skattlagningu fjármagnstekna eigi síðar en 15. apríl nk.
     Stefnt skal að því að skattur sé lagður á greidda raunvexti innan ramma núverandi tekjuskatts- og eignarskattslaga en þó ekki á vexti sem féllu til áður en skattskylda kom á. Minni háttar raunvaxtatekjur hjá hverjum einstaklingi, þ.e. tekjur sem eru innan vissra hóflegra marka, skulu þó ekki skattlagðar.

Greinar

gerð.
     Fjármagnstekjur einstaklinga eru annars vegar arður af hlutafjáreign, söluhagnaður hlutabréfa og leigutekjur en hins vegar vaxtatekjur, þar með talin afföll. Í íslenskum skattalögum er almenna reglan sú að tekjur af hlutafé og leigu eru skattskyldar með vissum undantekningum en vaxtatekjur eru svo til allar skattfrjálsar.
     Á löngu skeiði í hagsögu Íslendinga, þegar vextir voru oftast neikvæðir, var hvorki raunhæft né þörf á að skattleggja vaxtatekjur. Fyrst eftir að verðtrygging fjárskuldbindinga fór almennt að tíðkast og raunvextir voru aðeins 3–4% var heldur ekki til umræðu að skattleggja tekjur af ávöxtun fjármagns því að mestu skipti að efla innlenda sparifjármyndun. Eftir að raunvextir þrefölduðust á skömmum tíma um miðjan seinasta áratug fóru kröfur um skattlagningu vaxtatekna eins og annarra tekna hins vegar að gerast háværari.
     Á árunum 1985–1987 flutti fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu nokkrum sinnum þingsályktunartillögu um skattlagningu vaxtatekna en þær náðu ekki fram að ganga. Fyrrverandi fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, skipaði 18. janúar 1989 nefnd til að gera tillögur um skattlagningu fjármagnstekna og var Már Guðmundsson, efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra, skipaður formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði áfangaskýrslu 28. apríl 1989 þar sem gerð var tillaga um að skattur á fjármagnstekjur yrði lagður á um leið og skattur á atvinnutekjur utan ramma laganna um tekjuskatt og eignarskatt.
     Miklar umræður urðu um þessar tillögur og mættu þær harðri andstöðu hagsmunaaðila og stórs hluta stjórnarandstöðunnar á sínum tíma. Nefndin hélt þó áfram störfum og haustið 1990 kynnti þáverandi fjármálaráðherra tillögur um staðgreiðsluskatt á greidda vexti ársins 1991. Þessar tillögur byggðu m.a. á starfi nefndarmanna og var talið að framkvæmd þeirra yrði gagnlegur undirbúningur undir samræmda skattlagningu fjármagnstekna innan ramma laganna um tekjuskatt og eignarskatt. Þáverandi fjármálaráðherra lagði því til að flutt yrði stjórnarfrumvarp um slíka skattlagningu. Af því varð ekki vegna andstöðu ráðherra Alþýðuflokksins. Nefndin hélt áfram störfum og lét semja á sínum vegum drög að frumvörpum um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þessi drög að frumvörpum hafa legið fyrir í fjármálaráðuneytinu síðan.
     Ljóst er að talsverðan tíma tekur að undirbúa framkvæmd þessarar skattlagningar eftir að lögin hafa hlotið afgreiðslu á Alþingi og á það bæði við skattyfirvöld og þá sem falin verður innheimta skattsins, þ.e. banka og verðbréfafyrirtæki. M.a. mun óhjákvæmilegt að breyta tölvukerfum ef innheimta á skattinn í staðgreiðslu. Því má ekki dragast lengur að Alþingi fái frumvörpin til meðferðar ef ætlunin er að skattur verði lagður á fjármagnstekjur ársins 1993. Þess vegna er tillaga þessi flutt.
     Í áfangaskýrslu nefndarinnar 28. apríl 1989 var ráð fyrir því gert að þegar útgefnir flokkar spariskírteina ríkissjóðs yrðu skattfrjálsir áfram þar sem stjórnvöld hefðu lýst því yfir að svo yrði, en vaxtatekjur á nýjum spariskírteinaflokkum yrðu skattlagðir með sama hætti og aðrar vaxtatekjur.
     Haustið 1989 var skattstofn vaxtatekna einstaklinga á árinu 1988 án greiddra vaxta af spariskírteinum áætlaður um 4,8 milljarðar kr. á verðlagi ársins 1989. Miðað við skatthlutfall tekjuskatts hefðu skatttekjur af þessum stofni orðið 1,7 milljarðar kr.
     Flutningsmenn telja hyggilegt að minni háttar raunvaxtatekjur hjá hverjum einstaklingi upp að vissu marki verði ekki skattlagðar til að ekki dragi úr sparnaðarviðleitni fólks almennt. Skatttekjur minnka þá sem því nemur, en miðað við verðlagsþróun frá 1989 má reikna með að tekjur af fjármagnsskatti gætu numið tæpum 2 milljörðum kr.
     Eins og kunnugt er eru fjármagnstekjur skattlagðar eins og aðrar tekjur í flestum löndum. Upplýsingar um fyrirkomulag skattlagningar í öðrum löndum eru hér birtar sem fskj. I og II, en þar er um að ræða gögn frá fjármagnstekjuskattsnefnd fyrrverandi ríkisstjórnar sem m.a. voru notuð af fyrrverandi fjármálaráðherra sem kynningarefni haustið 1989.


Fylgiskjal I.


Skattlagning vaxtatekna í nokkrum löndum

.

Danmörk.
    Nafnvaxtatekjur eru hluti af skattstofni tekjuskatts hjá einstaklingum í Danmörku með þeirri undantekningu þó að verðbætur á vísitölutryggðum lánum mynda ekki skattstofn. Vextir af skyldusparnaði eru einnig undanþegnir skattlagningu. Skatturinn er ekki tekinn í staðgreiðslu. Vaxtagjöld einstaklinga, hvort sem er vegna húsnæðiskaupa eða neyslulána, hafa verið frádráttarbær frá skatti. Af þessum sökum urðu raunvextir eftir skatt hjá lántakendum ekki jákvæðir fyrr en 1985 og hafa síðan legið á bilinu 1–2 1 / 2 %. Raunvextir innlánseigenda eru auðvitað enn lægri eftir skatt. Fyrir hátekjufólk urðu raunvextir ekki jákvæðir fyrr en 1987 vegna þess að það er skattlagt í hærra skattþrepi. Á undanförnum árum hefur verið reynt að draga úr frádráttarbærni vaxta og var hinn svokallaði kartöflukúr hluti af þeirri viðleitni. Eignarskattar eru 2,5%. Reiknaðar leigutekjur af eigin húsnæði eru skattlagðar. Fasteignagjöld eru á bilinu 0,6–3,4%. Lífeyrissjóðir og tryggingafélög eru skattlögð með svokallaðri raunvaxtaskattlagningu (realrenteafgift) sem lagðist á raunvexti umfram 3,5% hjá þessum stofnunum árið 1984. Að öllu samanlögðu má segja að raunveruleg skattlagning raunvaxtatekna sé mjög stíf í Danmörku.

Noregur.
    Að mörgu leyti er skattlagning vaxtatekna lík í Noregi og Danmörku. Tekjuskattur í Noregi er lagður á í tveimur hlutum, annars vegar brúttóskattur sem innifelur iðgjöld til heilsugæslukerfis og almannatrygginga og ákveðinn skatt til ríkisins og hins vegar nettóskattur sem er venjulegur tekjuskattur. Nafnvaxtatekjur eru hluti af skattstofni tekjuskatts einstaklinga við álagningu svokallaðs nettóskatts. Þó eru ákveðnar lágmarksupphæðir undanþegnar skatti en þær eru ekki háar. Skatturinn er ekki tekinn með staðgreiðslu. Vaxtagjöld, hvort sem er vegna húsnæðiskaupa eða neyslulána, eru frádráttarbær við álagningu nettóskatts. Af þessum sökum voru raunvextir eftir skatt hjá lántakendum neikvæðir fyrir meðaltekjufólk fram til 1984 en voru enn neikvæðir fyrir hátekjufólk á árinu 1988. Eignarskattar eru á bilinu 1,2–2,3% eftir stærð eigna. Reiknaðar leigutekjur af eigin húsnæði eru skattlagðar.

Japan.
    Vaxtatekjur eru yfirleitt skattlagðar nema eldri borgarar, börn og öryrkjar geta haft skattfrjálsar tekjur af sparireikningum og ákveðnum tegundum skuldabréfa upp að ákveðnum mörkum. Launafólk getur einnig haft skattfrjálsar tekjur af sparnaði innan ákveðinna marka. Skatturinn er innheimtur í staðgreiðslu og skattgreiðendur geta valið um að hafa hann endanlegan nema á skuldabréfalánum. Reiknaðar leigutekjur eru ekki skattlagðar. Vaxtagjöld vegna íbúðaöflunar eru frádráttarbær upp að ákveðnu marki en vaxtagjöld af neyslulánum ekki.

Sviss.
    Vaxtatekjur eru að jafnaði skattlagðar. Þó eru vextir af sparireikningum undanþegnir tekjuskatti kantóna. Skatturinn er innheimtur í staðgreiðslu nema af skuldabréfalánum. Vaxtagjöld eru yfirleitt frádráttarbær. Reiknaðar leigutekjur eru skattlagðar.
Heimildir:
Vito Tanzi (ritstj.): Taxation, Inflation and Interest Rates. IMF 1984.
Endurnýjun á töflum í Tanzi (1984), sent frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 21. nóvember 1989.
Gögn af fundi norrænna seðlabankahagfræðinga á Þingvöllum í september 1988.
Viðtal við starfsmenn Internal Revenue í Bretlandi.



Fylgiskjal II.

Skattlagning fjármagnstekna einstaklinga


í aðildarlöndum OECD.



VAXTATEKJUR


1. Ríkisskuldabréf:
     Skattlagt:    Ástralía, Kanada, Danmörk, Frakkland, Þýskaland, Írland, Holland, Noregur, Spánn, Svíþjóð, Bretland og Bandaríkin.
     Skattlagt að hluta:    Belgía.
     Skattfrjálst:    Austurríki, Finnland, Grikkland, Ítalía og Ísland.
2. Vissir sparifjárreikningar:
     Skattlagt:     Ástralía, Austurríki, Kanada, Danmörk, Frakkland, Þýskaland, Írland, Ítalía, Holland, Noregur, Spánn, Svíþjóð, Bandaríkin og Bretland.
     Skattlagt að hluta:    Belgía.
     Skattfrjálst:    Finnland, Grikkland og Ísland.
3. Lífeyrissparnaðarreikningar:
     Skattlagt:    Ástralía, Austurríki, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Írland, Holland, Noregur, Svíþjóð og Bandaríkin.
     Skattlagt að hluta:    Belgía og Spánn.
     Skattfrjálst:    Danmörk, Finnland, Grikkland, Bretland og Ísland.
4. Aðrir bankareikningar:
     Skattlagt:    Ástralía, Austurríki, Kanada, Danmörk, Frakkland, Þýskaland, Írland, Ítalía, Holland, Noregur, Spánn, Svíþjóð, Bretland og Bandaríkin.
     Skattlagt að hluta:    Belgía.
     Skattfrjálst:    Finnland, Grikkland og Ísland.
5. Aðrar vaxtatekjur:
     Skattlagt:    Ástralía, Austurríki, Kanada, Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Írland, Ítalía, Holland, Noregur, Spánn, Svíþjóð, Bretland og Bandaríkin.
     Skattlagt að hluta:    Belgía.
     Skattfrjálst:    Ísland.

ARÐUR


     Skattlagt:    Ástralía, Austurríki, Kanada, Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Írland, Ítalía, Holland, Noregur, Spánn, Svíþjóð, Bretland og Bandaríkin.
     Skattlagt að hluta:    Belgía og Ísland.

    Heimild: OECD Studies in Taxation: The Personal Income Tax Base: A Comparative Survey. OECD. París 1990.
     Aths.: Hér vantar Sviss, Japan, Nýja-Sjáland, Portúgal og Tyrkland. Samkvæmt öðrum heimildum er það regla í þessum löndum að vaxtatekjur og arður eru skattlögð hjá einstaklingum. Þó eru nokkrar undantekningar varðandi vaxtatekjur, sbr. Japan hér að framan.
Neðanmálsgrein: 1
Skattlagt í framtíðinni.