Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 333 . mál.


540. Fyrirspurn



til fjármálaráðherra um áætlanir í ríkisfjármálum fram í tímann.

Frá Guðnýju Guðbjörnsdóttur.



    Hvers vegna fylgdi ekki áætlun um meginstefnu í ríkisbúskapnum næstu þrjú árin með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992?
    Hvernig hafa þær þriggja ára áætlanir reynst sem fylgt hafa fjárlagafrumvörpum frá því að ákvæði 70. gr. laga um ríkisbókhald kom inn í lög (1985)?
    Er áðurnefnt lagaákvæði fullnægjandi til að skapa festu í stefnumörkun ríkisfjármála fram í tímann að mati ráðherra eða telur hann æskilegra að slík stefnumörkun sé ákvörðuð með þingsályktunum á fleiri sviðum en nú tíðkast, sbr. t.d. vegáætlun (lög nr. 6/1977, 10. gr.) og flugmálaáætlun (lög nr. 31/1987, 1. gr.), t.d. á sviði mennta- og menningarmála?
    Telur fjármálaráðherra æskilegt og raunhæft að gera langtímafjárhagsáætlanir fyrir íslenska ríkið eins og tíðkast t.d. hjá Evrópubandalaginu?

Greinargerð.


    Það er skoðun fyrirspyrjanda að ein mikilvæg leið til að fá festu í ríkisfjármálin sé að gera áætlanir fram í tímann. Slíkt ætti bæði að auðvelda alla áætlanagerð í ríkisstofnunum og að koma í veg fyrir þá árlegu óvirðingu við löggjafarvaldið og landsmenn að kippa mörgum ákvæðum landslaga úr gildi við gerð fjárlaga og meðfylgjandi laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Í 70. gr. laga um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga segir að með fjárlagafrumvarpi ár hvert skuli leggja fram áætlun er lýsir í aðalatriðum meginstefnu í ríkisbúskapnum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs sem fjárlagafrumvarpið tekur til. Fróðlegt þykir að fá upplýst hvernig þetta lagaákvæði hefur reynst og hvort ástæða þykir að breyta lagaákvæðum eða framkvæmd á þessu sviði.


Skriflegt svar óskast.