Ferill 335. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 335 . mál.


542. Tillaga til þingsályktunar



um mat á skólastarfi.

Flm.: Valgerður Sverrisdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir,


Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að kanna reynslu erlendis frá af mati á skólastarfi og móta tillögur um hvernig best verði staðið að þessum málum hér á landi. Í nefndinni eigi sæti m.a. fulltrúar Kennarasambands Íslands, Hins íslenska kennarafélags, Félags háskólakennara, fræðslustjóra og Rannsóknastofnunar uppeldismála, auk menntamálaráðuneytis. Úttekt þessi nái yfir öll skólastig.

Greinargerð.


    Mjög hefur færst í vöxt erlendis að skólar geri úttekt eða láti fara fram mat á starfi sínu og þeirri þjónustu sem þeir bjóða upp á. Hér á landi eru þessi mál stutt á veg komin. Þó hefur á síðustu árum verið unnið að greiningu og mati á skólastarfi í grunnskólum með skólaþróunarstarfi í tengslum við aðalnámsskrá og gerð skólanámsskráa. Úttekt eða gæðamat er þekkt greiningartæki í stjórnunarfræði og er beitt á fyrirtæki, stofnanir og samtök. (Á ensku er oft talað um „review“, „assessment“ eða „evaluation“.)

Tilgangur með mati á skólastarfi.


    Á Norðurlöndum hefur á síðustu árum verið unnið að því að móta og koma í framkvæmd mati á skólastarfi á öllum skólastigum. Í Bandaríkjunum hafa lengi tíðkast úttektir á háskólum og háskóladeildum, einstökum starfsþáttum, sem og rannsóknum og kennslu og jafnvel starfsmenntun, kennurum og starfsmönnum í stjórnunarstöðum. Tilgangur skólaúttekta getur verið nokkuð breytilegur en í flestum tilfellum er hann að meta gæði þess starfs og þeirrar þjónustu sem fram fer á vegum viðkomandi skóla.
    Markmið úttektar er hvatning og leiðsögn fyrir þann sem hún beinist að. Hún er einnig hugsuð til þess að styrkja það sem vel er gert. Slíkt getur t.d. leitt til endurskoðunar á námsleiðum og stefnu skóla.
    Önnur ástæða úttektar er stjórnsýslulegs eðlis. Er þá átt við að yfirstjórn skóla þurfi að vita sem best um stöðu og gang mála í ýmsum deildum eða námsbrautum, m.a. með tilliti til þess hvernig skuli ráðstafa fé, mannafla og húsnæði.
    Þriðji tilgangur með úttektum er nokkuð sérstæður og takmarkast helst við háskóla og fagskóla en hann er að öðlast viðurkenningu sérstakra fagsamtaka sem hafa að markmiði að veita hana einungis þeim skólum sem ná fagkröfum samtakanna. Slík viðurkenning er að sjálfsögðu mikilvægur gæðastimpill.
    Í fjórða lagi má segja að skóli, sem gengst undir sjálfsmat, sýni með því fram á faglega ábyrgð á starfi sínu.
    Auk þess að þykja sjálfsagður hluti af starfsemi hverrar stofnunar má einnig færa sterk rök fyrir mikilvægi úttekta. T.d. hefur fjöldi athugana sýnt að skólastarf, sem sýnir alhliða góðan árangur, einkennist mjög af samkennd og samvinnu milli kennara, sameiginlegri stefnumótun innan skólans um markmið og leiðir, skýrum kennslumarkmiðum, forustu í kennslumálum, stöðugleika og samfellu í skólastarfinu, góðum tengslum við nemendur og virku sjálfsmatskerfi.

Ýmsar leiðir og aðferðir til úttektar.


    Oft er greint á milli úttekta eftir því hver gerir þær. Í fyrsta lagi má tala um eigin úttekt eða sjálfsmat. Námsleiðir, kennsluhættir, verkefni og starfsmenn eru oftast viðfangsefni slíkra úttekta. Yfirmenn deilda eða námsbrauta skólans geta gert þessar úttektir.
    Í öðru lagi má nefna úttektir aðila utan stofnunar. Það geta verið þeir sem hagsmuna eiga að gæta eins og menntamálaráðuneyti eða fræðsluskrifstofur sem hafa þekkingu og yfirsýn til að bera viðkomandi skóla og námsleiðir hans saman við aðra sambærilega skóla. Slíkar úttektir skulu þó unnar í samstarfi við starfsfólk viðkomandi skóla.
    Skiptar skoðanir eru á því hvort úttektir ættu að byggja á sjálfsmati eða athugun aðila utan stofnunar. Ef miðað er við blandaða úttekt gengur hún oft þannig fyrir sig að fyrst í stað metur skóli sjálfan sig og leggur síðan fram sína skýrslu. Þar kemur fram stefna skólans og leiðir, ýmsar tölulegar upplýsingar um þróun og vöxt skólans, lýsing á uppbyggingu kennslu og annarri starfsemi ásamt mati skólans á starfseminni og hvað betur mætti fara. Síðan styðst nefnd utanaðkomandi aðila við skýrsluna í mati sínu á skólanum. Hins vegar eru þær úttektir einnig algengar sem byggja eingöngu á sjálfsmati skóla. Í því tilfelli vinna skólar gjarnan að úttektinni í náinni samvinnu við t.d. menntamálaráðuneytið.

Tillögur til úrbóta.


    Talið er að skólakerfið hér á landi sé orðið mjög umfangsmikið og yfirgripsmikið og erfitt sé fyrir menntamálaráðuneytið að fylgjast með gæðum kennslu og námi í hverjum skóla fyrir sig hvort sem er á grunnskóla-, framhaldsskóla- eða háskólastigi. Skýrsla OECD um menntastefnu á Íslandi frá 1987 gefur í skyn að þörf sé á aðhaldi og samræmingu í skólamálum og tengslum milli skólastiga. Með því að beita matsaðferðum á skólakerfið væri betur hægt að tryggja gæði skólans. Því er talin nauðsyn að skipuð verði nefnd til að meta þörf á að tekið verði upp mat á skólastarfi í skólakerfi landsins á öllum skólastigum og komi nefndin með tillögur um fyrirkomulag og leiðir til úrbóta.