Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 340 . mál.


549. Fyrirspurn



til menntamálaráðherra um málefni leikskólans.

Frá Guðnýju Guðbjörnsdóttur.



    Hvernig verður því fylgt eftir að framkvæmt verði ákvæði 3. gr. laga um leikskóla um að sveitarfélög geri könnun á óskum foreldra um leikskólavistun og setji fram áætlanir til a.m.k. tveggja ára í senn? Hvaða sveitarfélög hafa gert slíka könnun síðan lögin voru samþykkt?
    Hvert er mat ráðherra á þeirri niðurstöðu úr skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans frá því í desember 1991 að þjóðhagslegur ábati eflingar leikskólans geti verið á bilinu 1–1,5 milljarðar kr. árlega?
    Er ætlun ríkisstjórnarinnar að stuðla að eflingu leikskólans á kjörtímabilinu í ljósi ofannefndrar niðurstöðu?
    Að hverju er stefnt með þeirri endurskoðun á lögum um leikskóla sem boðuð er í stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar og hvað líður framkvæmdum?

Greinargerð.


     Þegar leikskólalögin voru samþykkt á sl. þingi náðist því miður ekki samkomulag um að skylda stjórnvöld til að taka markvisst á uppbyggingu leikskólans, þessu mikla hagsmunamáli barna á aldrinum sex mánaða til sex ára og foreldra þeirra. Samkvæmt gildandi lögum er uppbygging og rekstur leikskólans að öllu leyti málefni sveitarfélaga þó að menntamálaráðuneytið fari með yfirstjórn málaflokksins.
     Nú þegar Hagfræðistofnun Háskólans hefur skilað skýrslu þeirri, sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið, m.a. um leikskólann, eru komnar fram nýjar upplýsingar. Í skýrslunni Þjóðhagsleg hagkvæmni eflingar leikskóla og lengri skóladags í grunnskóla kemur m.a. fram að þjóðhagslegur ábati af því að efla leikskólann þannig að 40% barna frá sex mánaða til tveggja ára og 80% eldri barna eigi kost á dagvistun er talinn á bilinu 1–1,5 milljarðar króna árlega. Því þykir fróðlegt að athuga hvort ráðherra er samþykkur þessari niðurstöðu skýrslunnar og ef svo er hvort vænta má framkvæmdarátaks á þessu sviði með endurskoðun laganna, jafnvel á vegum ríkisins.


Skriflegt svar óskast.