Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 320 . mál.


557. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Árna M. Mathiesens um auglýsinga- og kynningarkostnað forsætisráðuneytis.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver var auglýsinga- og kynningarkostnaður forsætisráðuneytis á árinu 1990 annars vegar og fyrstu fjóra mánuði ársins 1991 hins vegar?
    Hvaða aðilar fengu greiðslur vegna þessa kostnaðarliðar?
    Hversu háar voru greiðslurnar og hvenær voru þær greiddar?
    Fyrir hvað var greitt?
    Voru einhverjar reglur í gildi í ráðuneytinu varðandi þessi atriði?


    Samkvæmt færslum í ríkisbókhaldi nam auglýsingakostnaður forsætisráðuneytisins 69.982 kr. á árinu 1990. Fyrstu fjóra mánuði ársins 1991 nam þessi kostnaður 25.661 kr.
    Meginhluti þessa kostnaðar á árinu 1990 var greiddur Lögbirtingablaðinu og dreifast greiðslurnar tiltölulega jafnt yfir árið. Að þeim greiðslum undanskildum var greiddur einn reikningur frá Stjórnartíðindum að upphæð 9.000 kr. (greiðsla dags. 16. október) og reikningur frá samtökunum Vímulaus æska að fjárhæð 7.500 kr. (greiðsla dags. 31. desember).
    Fyrstu fjóra mánuði ársins 1991 voru allir reikningar fyrir auglýsingar greiddir Lögbirtingablaðinu, nema einn reikningur var greiddur Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sá reikningur var að fjárhæð 15.563 kr. (greiðsla dags. 26. mars).
    Engar sérstakar reglur eru í gildi í forsætisráðuneytinu um auglýsinga- og kynningarkostnað, en leitast er við að halda þessum kostnaði í lágmarki.