Ferill 346. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 346 . mál.


558. Fyrirspurn



til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um ferða- og uppihaldskostnað landsbyggðarfólks vegna glasafrjóvgunar.

Frá Hrafnkatli A. Jónssyni.



    Mun ráðherra beita sér fyrir því að Tryggingastofnun ríkisins greiði að hluta eða öllu leyti ferða- og uppihaldskostnað þeirra sem leita til sérfræðings í Reykjavík vegna glasafrjóvgunar eftir sömu reglum og gilda um endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna sjúkdóma.

Greinargerð.


    Fyrir skömmu voru glasafrjóvganir teknar upp við Landspítalann. Um leið var hafin gjaldtaka fyrir meðferð á glasafrjóvgunardeild Landspítalans. Með því að flytja glasafrjóvgun inn í landið átti að auðvelda þeim sem leita þurftu til læknis af þessum orsökum meðferðina, m.a. kostnaðarlega. Fyrir þá sem búa utan Stór-Reykjavíkursvæðisins hefur þetta í för með sér umtalsverðan kostnað hvað varðar ferðir og uppihald, til viðbótar hinni föstu greiðslu sem allir þurfa að inna af hendi sem meðferðina nota. Vinnutap þeirra sem sækja þurfa þessa meðferð er umtalsvert og verulega meira en þeirra sem búa næst Landsítalanum. Það hlýtur því að koma til álita að Tryggingastofnun taki þátt í því að jafna þennan aðstöðumun með greiðslu kostnaðar af ferðum og uppihaldi.


Skriflegt svar óskast.