Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 395 . mál.


638. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Tyrklands.

(Lögð fram á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Tyrklands sem gerður var í Genf 10. desember 1991.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Á ráðherrafundi EFTA í desember 1989 heimiluðu ráðherrarnir að hefja mætti könnunarviðræður milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands um hugsanlegan fríverslunarsamning milli þessara ríkja. Könnunarviðræður þessar hófust í júlí 1990 og að þeim loknum formlegar samningaviðræður í lok árs 1990 sem lauk í október 1991. Hinn 10. desember 1991 undirrituðu ráðherrar EFTA síðan fríverslunarsamninginn milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands. Stefnt er að því að hann taki gildi 1. apríl 1992. Samningurinn er birtur sem fskj. I með þingsályktunartillögu þessari. Þar eru þó aðeins birtar þær bókanir og viðaukar við samninginn sem máli skipta fyrir viðskipti Íslands og Tyrklands. Í fskj. II er birt bókun um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins.
     Aðdraganda þessa samnings má rekja allt aftur til ársins 1963 er Tyrkland gerði samstarfssamning við EB. Sá samningur og þær breytingar og viðbætur, sem síðar voru gerðar á honum, urðu til þess að skapa mun hagstæðari tollaskilyrði fyrir vöruinnflutning til Tyrklands frá EB-ríkjunum í samanburði við EFTA-löndin. Árið 1988 var ástandið orðið þannig að mjög erfitt var fyrir EFTA-ríkin að halda markaðshlutdeild sinni á tyrkneska markaðnum vegna mun lægri tolla sem giltu í viðskiptum Tyrklands við EB. Þetta varð til þess að þau EFTA-ríki, sem mestra hagsmuna höfðu að gæta, þ.e. Sviss, Svíþjóð og Austurríki, fóru að hvetja til viðræðna EFTA-ríkjanna við Tyrkland um fríverslun. Þegar ákveðið var í desember 1989 að hefja þessar viðræður var talið heppilegast að EFTA-löndin kæmu fram sem ein heild í ljósi þess hversu vel hefði tekist til í viðræðum við Spán 1985 í tengslum við aðild Spánar að EB. Samkvæmt samningi Tyrklands við EB er aðlögunartími til ársins 1995 sem er sá sami og í fríverslunarsamningi EFTA-landanna við Tyrkland. Árið 1995 verður tollfrelsi því komið á í viðskiptum Tyrklands með aðrar vörur en landbúnaðarvörur bæði við ríki EFTA og EB.
     Lagabreytingar vegna þessa samnings er ekki þörf, sbr. heimild í 6. gr. tollalaga til að láta kom til framkvæmda ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum.
     Samningurinn er að mestu byggður á fríverslunarsamningum milli einstakra EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins frá 1972, þ.e. fríverslun með iðnaðarvörur, þ.e. alls þess varnings sem heyrir undir 25.–97. kafla í samræmdri vörulýsinga- og vöruheitaskrá, að undanskildum þeim vörum sem skráðar eru í viðauka I við samninginn. Jafnframt nær hann yfir iðnaðarvörur unnar að hluta eða öllu úr landbúnaðarhráefnum sem tilgreindar eru í samningnum í bókun A auk fisks og annarra sjávarafurða eins og kveðið er á um í viðauka II við samninginn.
     Varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir lýsa samningsríki sig reiðubúin, að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samfelldri þróun viðskipta með landbúnaðarafurðir. Til að ná þessu markmiði hafa EFTA-ríkin gert tvíhliða samninga við Tyrkland til að greiða fyrir viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hvað Ísland varðar er hér um að ræða vörur sem ekki eru framleiddar hér á landi, einkum ávexti.
     Samningurinn miðar að því að efla, með aukningu gagnkvæmra viðskipta, samfellda þróun efnahagssamskipta milli EFTA-ríkja og Tyrklands, að skapa forsendur fyrir eðlilegri samkeppni í viðskiptum ríkjanna, að stuðla þannig með afnámi viðskiptahafta að samfelldri þróun og aukningu alþjóðaviðskipta og að efla samvinnu EFTA-ríkja og Tyrklands.
     Sérstakt þróunarákvæði er í samningnum um það að þegar samningsríki telur það til framdráttar efnahagi samningsríkja að þróa enn frekar þau samskipti, sem til hefur verið stofnað, með samningnum með því að láta þau ná til sviða sem hann tekur ekki til sendir það hinum ríkjunum rökstudda beiðni þar um.
     Viðskiptalegt mikilvægi þessa samnings fyrir Ísland er ekki mikið ef litið er á vöruviðskipti okkar við Tyrkland undanfarin ár. Þess ber að gæta að sveiflur á milli ára verða lítt marktækar vegna þess hve þessi viðskipti eru lítill hluti af heildarviðskiptum.
     Útflutningur til Tyrklands á árinu 1991 var mjög óverulegur eða 253 þús. kr. (innan við 0,01% af heildarvöruútflutningi). Þar af voru prjónavörur úr ull 66,7% miðað við verðmæti. Árin 1989 og 1990 var útflutningurinn 132,9 millj. kr. og 161,2 millj. kr. eða 0,17% af heildarvöruútflutningi bæði árin. Þær vörutegundir, sem þá var um að ræða, voru fyrst og fremst kísiljárn, loðsútuð skinn og svo prjónavörur úr ull, sjá nánar töflu.
     Innflutningurinn árið 1991 var að verðmæti 120 millj. kr. eða 0,12% af heildarvöruinnflutningi, en var árin 1989 og 1990 0,08% af heildinni bæði árin. Er hér um að ræða vörur eins og fatnað annan en skófatnað, spunagarn, vefnaðarvörur o.fl. og ávexti og grænmeti, sjá nánar töflu.
     Árið 1990 var innflutningur allra EFTA-ríkjanna frá Tyrklandi að verðmæti tæplega 34 milljarðar kr. (584 milljónir USD) og útflutningurinn var að verðmæti rúmlega 72 milljarðar kr. (1.243 milljónir USD). Hlutur Íslands í EFTA-heildinni er rúmlega 0,2% bæði í inn- og útflutningi.
     Erfitt er að leggja mat á það hvernig viðskipti við Tyrkland gætu þróast í næstu framtíð. Mikilvægt er þó að hafa í huga að hér er um að ræða markað þar sem íbúafjöldinn er tæplega 60 milljónir manna og gera verður ráð fyrir batnandi efnahag. Hvað útflutning héðan snertir væri ekki óhugsandi að þar gæti myndast markaður fyrir einhverjar fiskafurðir eins og t.d. fiskimjöl og frystan fisk. Aðstaða til þess að efla þann útflutning, sem á undanförnum árum hefur farið þangað, mundi og batna. Varðandi innflutninginn væri ekki ólíklegt að álykta að hann gæti aukist eitthvað í kjölfar lækkandi tolla á þeim vörum sem komið hafa frá Tyrklandi.


Vöruviðskipti Íslands og Tyrklands 1989, 1990 og 1991.


(Verðmæti í millj. kr. Gengi hvers tíma.)



tafla repró




























    Samkvæmt samningnum mun Tyrkland fella niður alla tolla á sjávarafurðum í áföngum á fjórum árum. Það er sami aðlögunartími og gildir fyrir Tyrkland með ýmsar iðnaðarvörur. Að auki er gert ráð fyrir því að tollar falli niður af nokkrum landbúnaðarafurðum sem ekki eru framleiddar á Íslandi, einkum ávöxtum.
     Auk megintexta eru eftirfarandi viðaukar og bókanir við samninginn:

Viðauki I.
     Iðnaðarvörur (kaflar 25–97 í tollskránni) sem falla utan samningsins, sbr. 2. gr. 1 (a) tölul. megintextans. Ísland hefur enga sérstöðu varðandi þennan viðauka. Hér er um að ræða nokkrar vörur, svo sem lífræn efni úr 29. kafla, albúmínkennd efni, umbreytt sterkja, lím og ensím úr 35. kafla, ýmsar kemískar vörur úr 38. kafla, korkur og vörur úr korki úr 45. kafla sem eru þó undanþegnar ef fluttar eru inn m.a. til Íslands og aðrar spunatrefjar úr jurtaríkinu, pappírsgarn og ofinn dúkur úr pappírsgarni úr 53. kafla. Þessi undanþága endurspeglar samsvarandi ákvæði í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna við EB.

Bókun A.
    
Iðnaðarvörur unnar að hluta eða öllu úr landbúnaðarhráefnum sem falla munu undir samninginn og á hvern hátt þær munu gera það, sbr. 2. gr. 1(b) tölul. megintextans. Ísland hefur nokkra sérstöðu þar, sbr. 4. gr. bókunar A og töflu VII við hana. Tafla VII samsvarar töflu 2, listum 1 og 2 í viðauka II í fríverslunarsamningi Íslands og EB ef undan er skilið að fáeinir vöruflokkar hafa verið teknir út.

Viðauki II.
    
Fríverslun með sjávarafurðir, sbr. 2. gr. 1(c) tölul. megintextans. Samkvæmt þessum samningi verður komið á fullri fríverslun með fisk og fiskafurðir í viðskiptum við Tyrkland með sama hætti og innan EFTA, í áföngum á fjórum árum að því er varðar niðurfellingu tolla í Tyrklandi, en það er sami aðlögunartími og gildir fyrir ýmsar iðnaðarvörur. Sjávarafurðir þessar eru úr kafla 2 (0208: kjöt af hval og sel), kafla 3 (fiskur og krabbadýr, lindýr og aðrir vatnahryggleysingjar), kafla 15 (feiti og olíur úr dýra- og jurtaríkinu og klofningsefni þeirra; unnin matarfeiti; vax úr dýra- eða jurtaríkinu), kafla 16 (framleiðsla úr fiski eða krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatnahryggleysingjum) og kafla 23 (leifar og úrgangur frá matvælaframleiðslu; unnið skepnufóður) eins og þær eru skilgreindar í þessum viðauka.
     Tollar á þessum vörum við innflutning til Tyrklands lækka um 60% við gildistöku samningsins en afgangurinn fellur niður á árunum 1993–95, samkvæmt áætlun sem ákveðin verður fyrir lok þessa árs. Að hinu leytinu veita EFTA-ríkin tollfrelsi fyrir sjávarafurðir frá Tyrklandi eins og iðnaðarvörur frá því að samningurinn gengur í gildi, sbr. 4. gr. samningsins.
     Þó hér sé ekki um að ræða verulegar fjárhæðir skiptir fríverslun með sjávarafurðir máli þar sem hún er hérna í fyrsta skipti viðurkennd utan EFTA og kemur væntanlega til með að hafa fordæmisgildi í öðrum fríverslunarsamningum sem koma í kjölfar þessa samnings, svo sem við Pólland, Tékkóslóvakíu, Ungverjaland og Ísrael.

Bókun B.
    
Upprunareglur sem byggðar eru á sömu sjónarmiðum og hafa gilt í samskiptum við önnur Evrópuríki. Reglurnar eru ekki birtar hér en hugsanlegir viðskiptaaðilar geta fengið aðgang að texta þeirra hjá utanríkisráðuneytinu og tollyfirvöldum.

Viðaukar III og IV.
    
Listar yfir vörur, einkum vefnaðarvörur, þar sem tollar verða af hálfu allra EFTA-ríkjanna nema Íslands ekki felldir niður að fullu fyrr en 1. janúar 1996. Almenna reglan varðandi EFTA er að tollar verða felldir niður við gildistöku samningsins, sbr. 2. tölul. 4. gr. megintextans.

Viðauki V.
    
Samkomulag um það hvaða aðlögunartíma Tyrkland fær til að fella niður tolla, sbr. 3. tölul. 4. gr. megintextans. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að Tyrkland felli niður 60% tolla á sjávarafurðir við gildistöku samningsins og afganginn í síðasta lagi 31. desember 1995, sbr. 2. gr. (a) og (b) viðaukans.

Viðauki VI.
    
Undanþágulistar Íslands, Sviss og Tyrklands um bann við fjáröflunartollum, sbr. 1. tölul 5. gr. megintextans. Listi Íslands er samhljóða gildandi lista í fríverslunarsamningnum við EB. Þegar samningaviðræður hófust við Tyrkland þótti rétt að halda þessum tollum þótt stefnt sé að því að fella þá að mestu niður á næstunni.

Viðauki VII.
    
Heimild Íslands og Sviss að hafa eða taka upp útflutningsgjöld, sbr. 2. tölul. 6. gr. megintextans. Heimildin varðandi Ísland er sú sama og er í fríverslunarsamningnum við EB um að taka megi upp útflutningsgjöld á ákveðnar sjávarafurðir.

Viðauki VIII.
    
Undanþáguheimildir við banni á út- og innflutningstakmörkunum, sbr. 2. tölul. 7. gr. megintextans. Íslandi er heimilt að hafa innflutningstakmarkanir á unnar olíur og olíuvörur og bursta í samræmi við fríverslunarsamninginn við EB. Síðan þessi samningur var gerður hafa viðskipti með olíu og olíuvörur verið gefin frjáls og er þessi heimild hvað þær vörur snertir því nú í raun óþörf. Hvað varðar burstana er hér verið að vernda framleiðslu á vegum Blindravinafélagsins.

Viðauki IX.
    
Reglur um tilkynningarskyldu á tæknilegum reglugerðum. Samsvarandi reglur gilda innan EFTA.

Viðauki X.
    
Nánari útfærsla á 2. tölul. 18. gr. megintextans um ríkisstyrki.

Bókun C.
    
Sérstök bókun Sviss og Liechtenstein um að leysa þá frá ákveðnum samningsskyldum í neyðartilvikum.

     Sérstök bókun sem hefur að geyma ýmislegt sem ekki þótti viðeigandi að hafa í megintexta eða í viðaukunum. Flest ákvæði bókunarinnar varða Tyrkland. Ákvæði er varðar Ísland sérstaklega er í 2. mgr. 7. tölul. um aðlögunartíma vegna einkasölurétts Áburðarverksmiðjunnar og aðlögun starfsemi hennar að ákvæðinu um einkasölurétt.