Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 478 . mál.


736. Tillaga til þingsályktunar



um skipstjórnarfræðslu.

Flm.: Árni Johnsen, Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson,


Sigríður A. Þórðardóttir.



    Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra að fella úr gildi ný og þrengri skilyrði til inntöku nemenda í skipstjórnarnám, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 174 frá 15. mars 1991.

Greinargerð.


    Hinn 15. mars 1991 setti þáverandi menntamálaráðherra nýjar reglugerðir um skipstjórnarnám, nr. 174 og 179. Skv. 4. gr. reglugerðar fyrir Stýrimannaskólann í Reykjavík (nr. 174/1991) eru almenn inntökuskilyrði þessi:
    Vottorð um sjón, heyrn og málfar sem skipstjórnarstaða krefst.
    Að hafa lokið 9. stigi í sundi.
    Að hafa lokið þeim einingafjölda í almennum greinum og faggreinum sem námsvísir kveður á um fyrir hvert skipstjórnarstig.
    Heilbrigðis- og sakavottorð.
    Lágmarkssiglingatími til inngöngu í 1. stig er 6 mánuðir á skipi yfir 6 rúmlestir eða brúttótonn að stærð sem aflað er eftir 15 ára aldur. Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók innlendri eða útlendri eða vottorði frá lögskráningarstjóra.
    Hér er um miklar breytingar að ræða, sérstaklega að því er varðar 3. og 5. lið greinarinnar. Samkvæmt fyrri reglum (3. gr. reglugerðar nr. 259/1974) þurftu nýnemar að hafa lokið gagnfræðaprófi (nú grunnskóla, 10. bekk) og stundað sjó í 24 mánuði eftir 15 ára aldur.
    Allt bendir til þess að gangi reglugerðin frá árinu 1991 fram muni aðsókn að skipstjórnarnámi dragast verulega saman og vantar þó menntaða yfirmenn á fiskiskipaflota landsmanna. Reglugerðin frá 1991 gerir í raun ráð fyrir að skipstjórnarefni hafi lokið eins árs framhaldsnámi til þess að fá inngöngu í stýrimannaskóla. Stór hluti nemenda í skipstjórnarfræðum eru menn sem hafa farið á sjóinn að loknu grunnskólanámi, stofnað heimili, komið sér þaki yfir höfuðið og síðan á aldrinum 25–35 ára ákveðið að afla sér skipstjórnarréttinda eftir umtalsverða reynslu á sjó. Þessir menn hafa ekki farið inn í fjölbrautaskólana og er glöggt dæmi Vélskólinn í Vestmannaeyjum sem árlega útskrifaði tugi vélstjóra á fiskibáta, en eftir að hann var fluttur inn í Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum 1979 hafa nemendur verið að öllu jöfnu 1–3 á ári.
    Tilhneiging til lengingar náms er ótrúlega mikil en sjaldan er lagt í að fella brott eða minnka eldra námsefni þegar nýjar kröfur koma til. Mikilvægt er að reyna að rúma nauðsynlegt námsefni innan þeirra tímamarka sem hafa gilt um árabil varðandi námstíma. Námskeið koma einnig til greina. Sem dæmi um óeðlilega lengingu náms má nefna fósturnám, hjúkrunarnám og ljósmóðurnám (hefur lengst um átta ár) og kennaranám.
    Stýrimannaskólarnir í Vestmannaeyjum og á Dalvík legðu að öllum líkindum upp laupana ef reglugerðin frá 1991 kæmist í framkvæmd og yrði það óbætanlegt fyrir Vestmannaeyjar þar sem skipstjórnarfræðsla hefur verið frá öldinni sem leið og óslitið frá árinu 1957, en lögin um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum eru frá 1964. Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum hafa að jafnaði einnig sótt fjölmargir nemendur víðs vegar að af landsbyggðinni og þar hafa nemendur getað framfleytt sér og sínum á auðveldari hátt en annars staðar vegna atvinnumöguleika með námi í stærstu verstöð landsins. Skólanefndarmenn Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum eru sammála um að sögu skipstjórnarfræðslu í Vestmannaeyjum ljúki ef ekki verður hætt við fyrirhugaða breytingu. Sama er að segja um skipstjórnarfræðsluna á Dalvík sem verið hefur mikil lyftistöng í þessum efnum fyrir Norðurland allt.
    35. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands samþykkti sl. haust áskorun til menntamálaráðherra um að afturkalla reglugerð nr. 174 frá árinu 1991 fyrir Stýrimannaskólann í Reykjavík.
    Í umsögn Friðriks Ásmundssonar, skólastjóra Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, segir um þetta mál:
    „Samkvæmt nýrri skólareglugerð kemur fram í II. kafla, 3. tölul. 4. gr., þar sem kveðið er á um almenn inntökuskilyrði, að væntanlegir nemendur í skipstjórnarnámi þurfi að hafa lokið þeim einingafjölda í almennum greinum og faggreinum sem námsskrá kveður á um fyrir hvert skipstjórnarstig. Samkvæmt þessu þurfa væntanlegir nemendur stýrimannaskólanna að hafa lokið tveimur önnum í almennum greinum eftir grunnskóla til þess að fá innritun.
    Það kom skýrt fram hjá skólanefndarmönnum að þeir óttast mjög að aðsókn að skipstjórnarnámi minnki stórlega með þessari nýju skipan. Aðsókn að skipstjórnarnámi á þessu skólaári er mikil vegna þess að nemendur hópuðust í skólana þegar umræða varð um þessa lengingu.
    Flestir nemendur stýrimannaskólanna hafa eingöngu lokið grunnskólaprófi þegar þeir hefja nám þar. Skólaárið 1987–1988 hefði enginn nemandi af 17, sem innrituðust í 1. stig, fullnægt væntanlegum námskröfum til setu þar. Einn skólaárið 1988–1989, enginn 1989–1990 og einn 1990–1991.
    Stór hluti nemenda okkar, að meðaltali níu undanfarin ár, hefur ekki lokið grunnskólaprófi þegar þeir sækja um 1. stig. Þeir hafa flosnað úr námi í 9. bekk (nú 10. bekk), farið á sjó, náð sér í 24 mánaða siglingatíma eða meira, fest ráð sitt og stofnað heimili þegar þeir koma til okkar á inntökunámskeið í ágúst þar sem þeir hafa lokið námsefni 9. bekkjar í almennu greinunum og farið í framhaldi af því í 1. stig.
    Skólanefndarmenn eru hræddir við að þeir sem svona er ástatt um leggi ekki í það viðbótarnám sem nú verður krafist til þess að komast í skipstjórnarnámið. Þarna verður þröskuldur sem þessir menn eiga erfitt með að yfirstíga. Oft hafa þetta reynst ágætis námsmenn með mikla reynslu af sjómennsku þegar í skólann er komið. Það yrði mikill skaði að missa þá.
    Skólanefndarmenn telja sex mánaða siglingatíma fyrir skipstjórnarnámið of lítinn, sérstaklega þar sem aðeins gæti um sumarsjómennsku orðið að ræða sem gefur litla mynd af sjómennskunni eins og hún er hér á Norður-Atlantshafi að vetrinum til. Og það er hæpið að unglingar komist nú á sjó sumarlangt eftir grunnskóla og eftir eitt ár í framhaldsnámi þannig að þeir geti náð sex mánaða siglingatíma til að halda námi óslitið áfram eins og áhersla hefur verið lögð á. Skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum telur því sex mánaða siglingatíma of stuttan. Hún telur að væntanlegir nemendur stýrimannaskólanna þurfi að hafa öðlast meiri reynslu á sjónum.
    Skipstjórnarnámið hefur ekki verið eftirsótt á undanförnum árum, of fáir hafa farið í það núna þannig að í undanþágur sækir. Skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum telur að sá þröskuldur, sem nú verður til þess að innritast í skipstjórnarnámið eins og það hefur verið, fækki útskrifuðum og undanþágum fjölgi enn.
    Skólanefndarmenn taka fram að fyrirhugaðar nýjar námsgreinar eru góð viðbót við núverandi námsefni. En ný skipan skipstjórnarnámsins má alls ekki verða til þess að aðsókn verði minni en nú er. Menntun skipstjórnarmanna er þjóðinni mjög mikilsverð. Þeim má ekki fækka sem í það fara.“
    Á málþingi Stýrimannaskólans í Reykjavík um sjómannafræðslu, sem haldið var í Reykjavík 15. febrúar sl., kom fram hjá Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni, skólastjóra Stýrimannaskólans, að strangari skilyrði um inntöku í 1. stig skipstjórnarfræðslu mundu draga verulega úr aðsókn að skipstjórnarnámi. Ómar Þór Karlsson, deildarstjóri stýrimannabrautar Dalvíkurskóla, telur einnig að reglugerðin frá 1991 muni minnka verulega aðsókn að skipstjórnarnámi og yrði það furðuleg þróun að lengja skipstjórnarnámið og gera mönnum erfiðara um vik á sama tíma og það vantar menntaða skipstjórnarmenn.
    Mikilvægt er að reglugerðinni verði breytt hið fyrsta svo að eðlileg skipan komist á skipstjórnarfræðsluna næsta haust, en það kom fram hjá Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni á fyrrgreindu málþingi að þótt nokkrir nemendur hefðu hafið nám sl. haust samkvæmt reglugerðinni frá 1991 yrði ekki hægt að halda því námi áfram næsta haust vegna lélegrar aðsóknar, en þessir fáu nemendur mundu fá að stunda nám samkvæmt gamla kerfinu.
    Þess vegna er það tillaga flutningsmanns að 3. tölul. 4. gr. reglugerðar orðist svo: Að hafa lokið grunnskólaprófi (10. bekk). Og 5. liður orðist svo: Lágmarkssiglingatími til inngöngu í 1. stig eftir 15 ára aldur er 12 mánuðir samkvæmt lögskráningu á skipi yfir 6 rúmlestir eða brúttótonn að stærð. Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók innlendri eða útlendri eða vottorði frá skráningarstjóra.
Fylgiskjal I.

Bréf frá skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum


til Stefáns Ólafs Jónssonar, menntamálaráðuneyti.


(7. mars 1991.)


Efni: Úr fundargerð. — Um nýja skipan skipstjórnarnáms.
    Föstudaginn 22. febrúar sl. var haldinn fundur í skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. 1. mál á dagskrá var væntanleg nýskipan skipstjórnarnáms.
    Skólastjóri sagði frá fundi sem hann var á í Reykjavík 15. febrúar sl. með Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni, skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík, og Stefáni Ólafi Jónssyni, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu. Þar kom fram að ákveðið er að á næsta skólaári 1991–1992 taki gildi ný reglugerð fyrir stýrimannaskóla og einnig ný prófreglugerð fyrir þá.     
    Samkvæmt nýrri skólareglugerð kemur fram í 3. tölul. 4. gr. II. kafla þar sem kveðið er á um almenn inntökuskilyrði að væntanlegir nemendur í skipstjórnarnámi þurfi að hafa lokið þeim einingafjölda í almennum greinum og faggreinum sem námsskrá kveður á um fyrir hvert skipstjórnarstig. Samkvæmt þessu þurfa væntanlegir nemendur stýrimannaskólanna að hafa lokið tveimur önnum í almennum greinum eftir grunnskóla til þess að fá innritun.
    Það kom skýrt fram hjá nefndarmönnum að þeir óttast mjög að aðsókn að skipstjórnarnámi minnki stórlega með þessari nýju skipan. Aðsókn að skipstjórnarnámi á þessu skólaári er mikil vegna þess að nemendur hópuðust í skólana þegar umræða um þessa lengingu varð.
    Flestir nemendur stýrimannaskólanna hafa eingöngu lokið grunnskólaprófi þegar þeir hefja nám þar. Skólaárið 1987–1988 hefði enginn nemandi af 17 sem innrituðust í 1. stig fullnægt væntanlegum námskröfum til setu þar. Einn skólaárið 1988–1989, enginn 1989–1990 og einn 1990–1991.
    Stór hluti nemenda okkar, að meðaltali níu undanfarin ár, hefur ekki lokið grunnskólaprófi þegar þeir sækja um 1. stig. Þeir hafa flosnað úr námi í 9. bekk (nú 10. bekk), farið á sjó, náð sér í 24 mánaða siglingatíma eða meira, fest ráð sitt og stofnað heimili þegar þeir koma til okkar á inntökunámskeið í ágúst þar sem þeir hafa lokið námsefni 9. bekkjar í almennu greinunum og farið í framhaldi af því á 1. stig.
    Nefndarmenn eru hræddir við að þeir sem svona er ástatt fyrir leggi ekki í það viðbótarnám sem nú verður krafist til þess að komast í skipstjórnarnámið. Þarna verður þröskuldur sem þessir menn eiga erfitt með að yfirstíga. Oft hafa þetta reynst ágætis námsmenn með mikla reynslu af sjómennsku þegar í skólann er komið. Það yrði mikill skaði að missa þá.
    Nefndarmenn telja sex mánaða siglingatíma fyrir skipstjórnarnámið of lítinn, sérstaklega þar sem aðeins gæti um sumarsjómennsku orðið að ræða sem gefur litla mynd af sjómennskunni eins og hún er hér á Norður-Atlantshafi að vetrinum til. Og það er hæpið að unglingar komist nú á sjó sumarlangt eftir grunnskóla og eftir eitt ár í framhaldsnámi þannig að þeir geti náð sex mánaða siglingatíma til að halda námi óslitið áfram eins og áhersla hefur verið lögð á.
    Skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum telur sex mánaða siglingatíma of stuttan. Hún telur að væntanlegir nemendur stýrimannaskólanna þurfi að hafa öðlast meiri reynslu á sjónum.
    Mestar eru áhyggjur nefndarmanna af næstu tveimur skólaárum. Sú staða getur orðið að enginn verði á 1. stigi 1991–1992 og enginn á 2. stigi 1992–1993. Skólastjóri sagði að Stefán Ólafur Jónsson hefði sagt að aðlögunartími yrði gefinn til þess að mæta þessum vanda þannig að 1. stig félli ekki niður 1991–1992 né 2. stig árið eftir vegna þess að væntanlegur fjöldi umsækjenda hefði ekki tilskilinn grunn námslega samkvæmt nýju reglugerðinni. Skólanefndin telur nauðsynlegt að ráðuneytið ákveði sem fyrst hvernig þetta vandamál verður leyst. Hún telur nauðsynlegt að geta frætt umsækjendur strax um þessi mál.
    Skipstjórnarnámið hefur ekki verið eftirsótt á undanförnum árum, of fáir farið í það núna þannig að í undanþágur sækir. Skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum telur að sá þröskuldur, sem nú verður til þess að innritast í skipstjórnarnámið eins og það hefur verið, fækki útskrifuðum og undanþágum fjölgi enn.
    Nefndarmenn taka fram að fyrirhugaðar nýjar námsgreinar eru góð viðbót við núverandi námsefni. En ný skipan skipstjórnarnámsins má alls ekki verða til þess að aðsókn verði minni en nú er. Menntun skipstjórnarmanna er þjóðinni mjög mikilsverð. Þeim má ekki fækka sem í það fara.


Fylgiskjal II.

Bréf til menntamálaráðherra frá skólanefnd


Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum.


(25. september 1991.)


Efni: Um nýja skipan skipstjórnarnáms.
    Ljósrit fylgir af bréfi skólanefndar Stýrimannaskólans frá 7. mars. sl. til Stefáns Ólafs Jónssonar, deildarstjóra verk- og tæknimenntunardeildar. Einnig ljósrit af reglugerð fyrir Stýrimannaskólann í Reykjavík frá 1991.
    Eins og fram kemur í fyrrnefndu bréfi hafa skólanefndarmenn Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum miklar áhyggjur ef og þegar fyrrnefnd reglugerð tekur gildi. Þessar áhyggjur fara vaxandi og nú eru allir sammála um að saga skipstjórnarfræðslu í Vestmannaeyjum sé úr sögunni að þessu skólaári loknu verði ekki hætt við fyrirhugaða breytingu.
    Það yrði óbætanlegt fyrir Vestmannaeyjar, en skipstjórnarfræðsla hefur verið þar síðan á öldinni sem leið, óslitið frá árinu 1957, og lögin um skólann eru frá 1964.
    Með þessu bréfi fer skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum fram á að hætt verði við að láta fyrrnefnda reglugerð taka gildi. Skólanefndin tekur fram í þessu sambandi að það er mjög erfitt nú að ná endum saman í rekstri skólans og fyrirhugaðar breytingar hafa enn meiri kostnað í för með sér.


Fylgiskjal III.

Bréf til menntamálaráðherra frá skólanefnd


Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum.


(12. febrúar 1992.)


    Á fundi í skólanefnd 12. febrúar 1992 var einróma samþykkt að fara þess á leit við menntamálaráðherra, Ólaf G. Einarsson, að hann felli úr gildi reglugerð um skipstjórnarnám nr. 174/1991, þannig að reglugerðin sem enn er kennt eftir í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum verði áfram í gildi.
    Hinn 25. september 1991 sendi skólanefnd menntamálaráðherra bréf um þetta efni. Hún tekur fram að við nánari skoðun er álit hennar enn það sama og þá og alltaf hefur verið hvað þetta mál varðar.


Fylgiskjal IV.

Skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum:

MENNTUN SKIPSTJÓRNARMANNA


(Vegna fram kominna tillagna um lengingu skólatíma


og breytingar á námi í stýrimannaskólum.)


    1. Viðurkennt er að lengja þurfi námið í stýrimannaskólunum. Nýjar greinar berja að dyrum og vart hægt að fella út nokkuð af því sem fyrir er. Þær tillögur, sem séð hafa dagsins ljós, miða að því að lengja námið um þrjár annir eða eitt og hálft skólaár.
    2. Byltingar í skólakerfum hafa ekki gefið góða raun á Íslandi, sbr. mengjakerfið sáluga. Fram komnar tillögur um breytingu á námi skipstjórnarmanna eru byltingarkenndar. Námstíminn er lengdur verulega og mönnum gert erfitt um vik að komast inn í hið eiginlega skipstjórnarnám. Þá gera fram komnar tillögur ráð fyrir að námið í sjálfum stýrimannaskólunum verði slitið sundur, ekki samfellt eins og nú er.
    Í tímans rás hafa orðið verulegar breytingar á skipstjórnarnámi á Íslandi. M.a. hefur námið lengst verulega, bæði 1. og 2. stigs námið. Þær breytingar fóru rólega fram, voru ekki byltingarkenndar. Nýjum greinum var smám saman bætt inn í, námið lengdist í rólegheitum og menn tóku því með jafnaðargeði þótt skólatíminn lengdist um einn til tvo mánuði.
    3. Nú liggja fyrir tvær tillögur um breytingar á náminu, hin fyrri frá skólanefnd Stýrimannaskólans í Reykjavík og hin síðari frá Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni.
    Fyrri tillagan gerir ráð fyrir fornámi eða aðfaranámi kjarnagreina í framhalds- eða fjölbrautaskóla áður en sjálft námið verði hafið við stýrimannaskóla. Gert er ráð fyrir að það fornám taki tvær annir eða heilt skólaár. Að auki skulu svo nemendur að loknu 1. stigi taka eina önn til viðbótar í framhaldsskóla áður en þeir fái rétt til að setjast á 2. stig. Að auki gerir þessi tillaga ráð fyrir mun minni siglingatíma en nú er krafist. Ljóst er, verði þessi tillaga samþykkt, að stýrimannaskólarnir á Dalvík og í Vestmannaeyjum munu leggjast af vegna þátttökuleysis. Spurning er hvernig skólinn í Reykjavík muni fara út úr dæminu.
    Tillaga Guðjóns Ármanns gengur ekki jafnlangt hinni, nokkurs konar málamiðlun. Engu að síður er hún byltingarkennd miðað við það sem áður hefur verið sagt um breytingu á náminu. Í þeirri tillögu er lagt til að nemendur komist inn á 1. stig strax að afloknum grunnskóla og fái þar takmörkuð réttindi. Síðan taki við nám í kjarnagreinum í framhaldsskóla áður en nám á 2. stigi geti hafist. Sem sagt, námið slitið í sundur eins og í fyrri tillögunni.

Tillögur skólanefndar Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum.


    1. Okkur finnst felast ákveðin þversögn í því þegar annars vegar er talað um að fornámið skuli tekið í framhalds- eða fjölbrautaskólum og hins vegar talað um að skólarnir (þ.e. stýrimannaskólarnir) skuli bjóða upp á það nám. Við sjáum ekki tilgang þess að slíta kjarnagreinarnar úr samhengi við þær greinar er tengjast sjómennsku og ekki er til bóta. Eðlilegra væri að taka þetta samhliða eins og verið hefur.
    2. Hér í Vestmannaeyjum höfum við satt best að segja ærið misjafna reynslu af því þegar menn hafa komið með próf upp á vasann frá hinum og þessum framhalds- og fjölbrautaskólum þar sem stendur að viðkomandi hafi lokið hinum og þessum áfanganum í íslensku, stærðfræði og tungumálum með viðunandi árangri.
    Raunin er oftast sú að þessir nemendur svara alls ekki þeim kröfum sem við gerum um undirstöðu í þessum greinum. Þetta hefur valdið vandræðum, svo sem töfum í námi þeirra (og annarra), auk þess sem dæmi eru um að þessir nemendur hafi fallið á prófum hér.
    Með fullri virðingu fyrir fjölbrautakerfinu á Íslandi teljum við okkur betur til þess fallna að vega og meta þá áherslupunkta sem með þarf í íslensku, tungumálum og stærðfræði er tengjast námi í stýrimannaskóla. Satt að segja hrýs okkur hugur við því að eiga e.t.v. eftir að taka á móti nemendum með hina og þessa pappíra í höndunum, pappíra sem ekkert segja um raunverulega færni manna.
    3. Við teljum affarasælla að tengja saman bóklegt nám og verklegt eins og verið hefur en að slíta kjarnagreinarnar úr samhengi við sjómennskugreinarnar. Sú hætta er fyrir hendi að nemendur færu að skipta náminu niður í „nauðsynlega hlutann“ og „ónauðsynlega hlutann“ eða „skemmtilega hlutann“ og „leiðinlega hlutann“.
    Sé aftur á móti námið samtengt, kjarnagreinarnar notaðar til að styðja við aðrar greinar, er tæpast hætta á slíku.
    Til sjós þykir það góður kokkur sem býður upp á fjölbreytt fæði en ekki einhæft. Og sá kokkur þætti ekki par góður sem byði upp á eintóma soðningu í heilan mánuð og svo eintómt hangikjöt næsta mánuðinn. Líkt og til sjós þykir okkur eðlilegra að blanda fæðið þannig að enginn verði leiður eða líði næringarskort.
    4. Við teljum það varhugavert að ætla að skera siglingatíma jafnverulega niður og áætlað er í báðum tillögum. Spurning er hvort menn eru búnir að gera upp hug sinn um starfið eftir fáeina mánuði á sjó eða hvort þeir hafa þá kunnáttu í sjómennsku sem okkur þykir nauðsynleg til að hefja nám í stýrimannaskóla.
    Okkar reynsla er sú að bestu nemendurnir séu þeir sem hafa nokkurra ára starf að baki á sjónum. Þeir vita um hvað málið snýst, auk þess sem þeir taka námið yfirleitt fastari tökum en hinir. Okkur þætti slæmt að missa þennan hóp út eins og við teljum hættu á verði hróflað jafnverulega við náminu og fyrri tillagan gerir ráð fyrir.
    5. Við áréttum enn að byltingar í skólamálum eru sjaldnast til góðs, betra að fara hægar í sakirnar og laga hlutina rólega að breyttum tímum. Við gerum það að tillögu okkar að nám til hins meira fiskimannaprófs verði lengt úr tveimur árum í þrjú og gefi hvert námsár ákveðin stighækkandi réttindi.
    Við leggjum eindregið til að námið verði allt stundað innan skólans, þ.e. stýrimannaskólans, og það „blandað“ í eðlilegum hlutföllum.
    Við teljum að sú lenging á náminu, sem óhjákvæmileg er, valdi hvað minnstu umróti verði þessi leið valin.
    Við vörum eindregið við því að skerða siglingatíma fyrir skóla niður fyrir 18 mánuði.
    6. Náist hljómgrunnur fyrir þessum tillögum erum við reiðubúnir til samstarfs um það hvernig námsgreinum skuli skipt niður á þessi þrjú skólaár; teljum á þessu stigi málsins ekki þörf á að koma með fastmótaðar tillögur um það.