Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 354 . mál.


750. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins.

    1.     Hverjar eru þær aflaheimildir sem Hagræðingarsjóður hefur til ráðstöfunar á yfir    standandi fiskveiðiári skv. 5. gr. laga nr. 40/1990, sundurliðaðar eftir fisktegundum og umreiknaðar í þorskígildi?
    Samkvæmt 5. gr. laga nr. 40/1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, skyldi sjóðurinn árlega fá úthlutað þeim aflaheimildum sem ekki nýttust á næstliðnu fiskveiðiári vegna álags á aflamark við útflutning á óunnum fiski. Aflaheimildir þessar skyldu þó aldrei vera meiri en 12.000 þorskígildislestir.
    Við ákvörðun á úthlutun aflaheimilda til Hagræðingarsjóðs á þessu fiskveiðiári var tekið mið af álagi vegna útflutnings á óunnum fiski á tímabilinu 1. september 1990 til 31. ágúst 1991 eða á síðasta 12 mánaða tímabili fyrir upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs sem er fyrsta heila fiskveiðiárið eftir að lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, komu til framkvæmda. Á áðurnefndu 12 mánaða tímabili féllu niður 11.400 þorskígildislestir af botnfiski vegna álags á aflamark við útflutning á óunnum fiski. Þessar heimildir skiptast á eftirfarandi hátt á milli tegunda: Þorskur 4.205 lestir, ýsa 2.805 lestir, ufsi 1.311 lestir, karfi 4.044 lestir, grálúða 532 lestir og skarkoli 922 lestir.

    2.     Hvernig skiptast aflaheimildir skv. 1. tölul. reiknað í þorskígildum milli einstakra     skipa og báta, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 4/1992?
    Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 4/1992, um breyting á lögum nr. 40/1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, hefur aflaheimildum sjóðsins á þessu fiskveiðiári verið úthlutað til fiskiskipa í samræmi við aflahlutdeild hvers skips af þeim tegundum sem sjóðurinn fékk úthlutað. Á þessu fiskveiðiári hafa alls 2.628 fiskiskip og bátar leyfi til veiða í atvinnuskyni. Af þeim eru 1.126 bátar minni en 6 brl. með leyfi til veiða með línu og handfærum auk dagatakmarkana. Skip og bátar með aflahlutdeild eru því 1.502. Öll aflahlutdeild hefur verið flutt af 171 bát og fengu þeir bátar því enga úthlutun af aflaheimildum Hagræðingarsjóðs. Sama á við um 173 báta sem hefðu fengið minna en sem nemur 100 þorskígildiskílóum. Var þetta lágmark sett þar sem lágmarksgjald, sem útgerð fiskiskips þarf að greiða vegna tilkynningar um aflamark, er eins og kunnugt er 1.000 kr. Alls voru það því 1.158 fiskiskip og bátar sem fengu úthlutað þeim 11.400 þorskígildislestum sem Hagræðingarsjóður hafði til ráðstöfunar á þessu fiskveiðiári.

    3.     Hvers vegna er ákveðið í 7. gr. reglugerðar nr. 89/1992 að forkaupsréttur útgerða     fiskiskipa falli niður ef samanlagðar aflaheimildir, sem útgerð fiskiskipa á forkaupsrétt á, eru minni en 7 þorskígildislestir og hvers vegna er ekki miðað við 3 þorskígildislestir eins og var skv. 9. gr. reglugerðar nr. 156/1991?
    Hagræðingarsjóður skal sinna tveimur meginhlutverkum. Annars vegar skal sjóðurinn greiða úreldingarstyrki vegna fiskiskipa sem hverfa endanlega úr rekstri og hins vegar fær sjóðurinn úthlutað aflaheimildum sem sjóðnum er falið að selja og verður andvirði þeirra frá og með næsta fiskveiðiári nýtt til að standa undir hluta af rekstrarkostnaði Hafrannsóknastofnunar. Þótt sjóðnum verði ekki úthlutað aflaheimildum í þessu skyni fyrr en í upphafi næsta fiskveiðiárs var tekin sú ákvörðun að gefa út reglugerð nú um alla þætti í starfsemi sjóðsins, þar á meðal um ráðstöfun á aflaheimildum sjóðsins. Engu að síður er ljóst að gefa þarf út nýja reglugerð fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs þar sem sum ákvæði reglugerðarinnar gilda einungis fyrir þetta fiskveiðiár.
    Hvað varðar forkaupsrétt til fiskiskipa er ráðherra skv. 6. gr. laganna heimilt að ákveða lágmark þeirra aflaheimilda sem hann nær til. Í reglugerðinni er þetta lágmark sett við 7 þorskígildislestir. Miðað við aflaheimildir þessa árs hefði þessi regla í för með sér að 346 fiskiskipum yrði boðinn forkaupsréttur að aflaheimildum sjóðsins en ef lágmarkið væri 3 þorskígildislestir fengju 465 fiskiskip forkaupsréttinn. Það hlýtur ávallt að vera matsatriði hvar draga eigi slík mörk en tilgangur þess að setja lágmark hlýtur að vera að einfalda alla framkvæmd við ráðstöfun á aflaheimildum sjóðsins. Hins vegar ber að benda á það að samkvæmt lögum sjóðsins á að bjóða forkaupsrétt að heimildum sjóðsins á verði er tekur mið af gangverði sams konar heimilda þannig að ekki er um það að ræða að verið sé að niðurgreiða heimildir sjóðsins á neinn hátt.

    4.     Hvað er áætlað að þær aflaheimildir, mældar í þorskígildislestum, verði samtals     á næsta fiskveiðiári sem forkaupsréttur fellur niður á skv. 7. gr. reglugerðar nr. 89/1992 og hvernig verður þeim aflaheimildum ráðstafað?
    Á næsta fiskveiðiári verður Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins úthlutað 12.000 þorskígildislestum af botnfiski. Aflaheimildum sjóðsins verður skipt á milli einstakra tegunda í hlutfalli við verðmæti þeirra í leyfilegum botnfiskafla.
    Aflaheimildum sjóðsins verður ráðstafað með þrennum hætti. Í fyrsta lagi gefst byggðarlögum, sem höllum fæti standa vegna sölu fiskiskips úr byggðarlaginu, kostur á að fá framseldan til sín hluta af aflaheimildum sjóðsins. Í öðru lagi verður útgerðum fiskiskipa boðinn forkaupsréttur að aflaheimildum sjóðsins í samræmi við aflahlutdeild hvers skips í þeim tegundum sem sjóðurinn fær úthlutað. Áður en útgerðum verður boðinn forkaupsréttur liggur fyrir hvort og að hve miklum aflaheimildum forkaupsréttur verður boðinn til sveitarfélaga. Verði forkaupsréttur t.d. boðinn að 1.000 þorskígildislestum til sveitarfélaga verða því 11.000 þorskígildislestir boðnar til fiskiskipa. Í þriðja lagi verða þær aflaheimildir, sem forkaupsréttur verður ekki nýttur að, boðnar út til hæstbjóðanda. Samkvæmt reglugerð um Hagræðingarsjóð gefst útgerðum þriggja vikna frestur til að nýta forkaupsréttinn. Verði andvirði heimildanna ekki greitt innan þessara þriggja vikna fellur forkaupsrétturinn niður og verða þær þá boðnar út til hæstbjóðanda. Sama á við um þær heimildir sem kunna að hafa verið boðnar sveitarfélögum án þess að þau hafi nýtt sér forkaupsréttinn.
    Á þessari stundu er ekki hægt að segja til hvernig forkaupsréttur að aflaheimildum Hagræðingarsjóðs verður nýttur við upphaf næsta fiskveiðiárs. Margir þættir geta haft þar áhrif á eins og ákvörðun um verð á þessum heimildum, ákvörðun heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár, hvort og þá hve miklar aflaheimildir heimilt verður að flytja á milli fiskveiðiára og fiskigengd, svo að einhver atriði séu nefnd.