Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 495 . mál.


853. Svar



samstarfsráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um áhrif EES-samnings á samnorræna samninga.

    Hver er staða samninga sem gerðir hafa verið í norrænu samstarfi gagnvart samningnum um Evrópskt efnahagssvæði?
    120. gr. EES-samningsins fjallar einungis um tengsl samningsins við gildandi samninga á milli EB annars vegar og EFTA-ríkjanna, eins eða fleiri, hins vegar. 120. gr. á því ekki við um Norðurlandasamningana.
    Í 121. gr. EES-samningsins er sérstaklega tekið fram að EES-samningurinn standi ekki í vegi fyrir norrænu samstarfi svo framarlega sem slíkt samstarf skaði ekki góða framkvæmd samningsins. 121. gr. nær einnig til samninga í norrænu samstarfi í framtíðinni.
    Um tengsl EES-samningsins við aðra gildandi samninga hafa samningsaðilar gert sameiginlega yfirlýsingu sem fylgir EES-samningnum.
    Yfirlýsingin hljóðar svo:
    „EES-samningurinn hefur ekki áhrif á réttindi tryggð með gildandi samningum sem eru bindandi fyrir eitt eða fleiri aðildarríki EB annars vegar og eitt eða fleiri EFTA-ríki hins vegar, til að mynda samningum er varða einstaklinga, aðila í atvinnurekstri, samvinnu á tilteknum svæðum og stjórnvaldsráðstafanir, þar til að minnsta kosti samsvarandi réttindi hafa náðst með samningnum.“
    Samkvæmt EES-samningnum gilda samnorrænir samningar áfram óbreyttir samhliða EES-samningnum. Samkvæmt framangreindri yfirlýsingu er það sameiginleg túlkun samningsaðila að beita megi norrænu samningunum einnig í þeim tilfellum sem þeir veita betri rétt en EES-samningurinn þar til að minnsta kosti sömu reglur gilda innan EES. Í framkvæmd verður því þeim samningi beitt sem gefur betri rétt.

    Hvaða samnorrænir samningar þyrftu endurskoðunar við vegna EES-samnings?
    Breytingar hafa þegar verið gerðar á samnorrænum samningum á sviði almannatrygginga. Endurskoðun norræns samstarfs er til umræðu í mörgum norrænum samstarfsnefndum en engar aðrar ákvarðanir hafa verið teknar um breytingar á samnorrænum samningum vegna EES.

    Hvers efnis eru þær breytingar í aðalatriðum sem gera þyrfti á hverjum einstökum samningi?
    Sjá svar við annarri spurningu.