Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 216 . mál.


900. Nefndarálit



um till. til þál. um breyt. á þál. um vegáætlun fyrir árin 1991–1994.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Minni hluti nefndarinnar mótmælir harðlega þeim niðurskurði til vegamála sem fram kemur í tillögum meiri hlutans. Skynsamlegt hefði verið að hamla á móti samdrættinum í þjóðfélaginu með því að auka verulega fjármagn til framkvæmda í vegagerð. Í stað þess er framkvæmdafé dregið saman um 765 millj. kr. frá fyrri áætlunum. Aðallega bitnar þessi samdráttur á almennri vegagerð.
     Rétt er að hafa í huga að fé til almennrar vegagerðar, ef frá eru dregin framlög til höfuðborgarsvæðisins og stórverkefna og 62,5% fjárveiting til Ó-vega, hefur minnkað ár frá ári sl. 10 ár, úr 2.415 millj. kr. árið 1982 í 1.662 millj. kr. árið 1992.
     Fjármunir til stórverkefna koma þyngra niður á þessu ári en áætlað var. Miðað hafði verið við að fjármögnunin dreifðist á fleiri ár en framkvæmdir stæðu. Stjórnvöld hafa horfið frá því og ákveðið að fjármagna verkin jafnóðum af vegafé. Þessi breyting hefur það í för með sér að meira fer af vegafé til Vestfjarðaganga í ár en ráð var fyrir gert. Þar er horfið frá 250 millj. kr. lántöku en 40 millj. kr. aukafjárveitingu bætt við til að semja við verktaka um seinkun verkefna.
     Samningur milli fjármálaráðherra og Reykjavíkurborgar um greiðslu á skuldum vegna fyrri framkvæmda eykur útgjöld þessa árs um 74 millj. kr. Ríkisstjórnin skar niður fé til vegamála um 350 millj. kr. á síðasta ári og af þeim sökum var ýmsum verkefnum frestað til þessa árs. Aðallega bitnar þessi þróun á almennum vegaframkvæmdum sem dragast saman um 20% milli ára.
     Almennar vegaframkvæmdir eru hvað mest atvinnuskapandi og sérlega mikilvægar nú þegar byggðir landsins þurfa að bregðast við atvinnumissi vegna minnkandi búvöruframleiðslu, rýrari aflaheimilda og samdráttaraðgerða ríkisstjórnarinnar. Vegagerð er fjárfesting til framtíðar og samkvæmt þjóðhagslegum útreikningum eru vegaframkvæmdir meðal arðbærustu framkvæmda sem kostur er á. Minni hluti nefndarinnar hefur ítrekað bent á að í því atvinnuástandi, sem nú ríkir, er niðurskurður á fé til vegamála óskynsamlegur. Þvert á móti ættu stjórnvöld að nýta sér það svigrúm, sem nú er hjá verktökum og öðrum aðilum vinnumarkaðarins, til að flýta brýnum úrbótum í samgöngumálum sem bíða hvar sem farið er um landið. Það er mikið áhyggjuefni að stjórnvöld skuli ekki hafa meiri skilning á þessum málum en raun ber vitni.
    Við umræðuna munu einstakir nefndarmenn gera nánari grein fyrir afstöðu sinni til tillögunnar og framkominna breytingartillagna við hana.

Alþingi, 11. maí 1992.



Jóhann Ársælsson,

Guðni Ágústsson.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.


frsm.



Stefán Guðmundsson.





Fylgiskjal.



Vegagerð ríkisins:

Þróun fjárveitinga til almennrar vegagerðar.


(20. mars 1992.)




1982          
2.415

1983          
1.965

1984          
2.366

1985          
2.096

1986          
2.094

1987          
1.773

1988          
1.824

1989          
1.698

1990          
1.652

1991          
1.527

1992 áætl.     
1.612


    Allar ofangreindar tölur eru í milljónum króna og á áætluðu verðlagi 1992, vísitala vegagerðar 4.740.
    Innifaldar í tölunum eru fjárveitingar til almennra verkefna, bundinna slitlaga og sérstakra verkefna á stofnbrautum, til þjóðbrauta og brúagerðar. Með í tölunum eru einnig 37,5% af fjárveitingum til Ó-vega.
    Ekki eru meðtaldar fjárveitingar til stórverkefna, höfuðborgarsvæðis og 62,5% fjárveitinga til Ó-vega.
    Tölur fyrir árin 1982–1990 eru teknar úr skýrslum samgönguráðherra um framkvæmd vegáætlunar. Tölur 1991 eru samkvæmt vegáætlun og tekið tillit til lækkunar fjárveitinga sem ákveðin var sl. sumar. Tölur 1992 eru samkvæmt fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar um breytingu á vegáætlun.



Yfirlit um breytingar á vegáætlun 1992.


(6. mars 1992.)



    Eftirfarandi tölur sýna breytingar á niðurstöðutölum vegáætlunar 1992:
M.kr.

    Niðurstöðutala samkvæmt gildandi vegáætlun
         (vísitala vegagerðar 4.925)     
6.318
    Niðurstöðutala samkvæmt gildandi vegáætlun færð
         til áætlaðs verðlags 1992 (vísitala vegagerðar 4.740)     
6.081
    Niðurstöðutala tekna samkvæmt fjárlögum      5.830
    Niðurstöðutala útgjalda samkvæmt fjárlögum      5.566

    Mismunur (magnminnkun) 6.081 – 5.566 = 515 millj. kr. (þar af flatur niðurskurður á launum og rekstri 14 millj. kr.).
    Við gerð vegáætlunar var enn fremur miðað við að aflað yrði lánsfjár til Vestfjarðaganga að upphæð um 250 millj. kr. Átti lánsfé þetta að koma til viðbótar fjárveitingum til verkefnisins í vegáætluninni. Samkvæmt fjárlögum 1992 verður þessa lánsfjár ekki aflað.



Minnisblað um greiðslu


kostnaðar við gerð Vestfjarðaganga.


(17. desember 1991.)



    Ein af forsendum gildandi vegáætlunar var að fjármögnun Vestfjarðaganga yrði nokkru hægari en framkvæmdahraði og við það miðað að mismunur yrði brúaður með lántökum.
    Í verksamningi er gert ráð fyrir verklokum 1995 en að lán tekin á verktímanum yrðu greidd með framlögum á vegáætlun 1996–1998. Ríkisstjórnin heimilaði þessa tilhögun áður en verksamningur var undirritaður.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1992 er gert ráð fyrir að framkvæmdir þessar verði fjármagnaðar án lántöku.
    Hér á eftir er samanburður á nauðsynlegu fjármagni samkvæmt verksamningi og fjárveitingum samkvæmt gildandi vegáætlun (vísitala vegagerðar 4.740 stig).

Fjárveiting

Kostnaður

Mismunur



1991          
320 1
320 0
1992          
502
760 258
1993          
492
650 158
1994          
492
750 258
1995          
810

1 Fjárveiting samkvæmt vegáætlun á árinu 1991 er 390 millj. kr. og innstæða frá fyrra ári 30 millj. kr.   Niðurskurður fjárveitinga samkvæmt sérstakri ákvörðun var síðan 100 millj. kr.


Minnisblað um greiðslu skuldar


Vegasjóðs til borgarsjóðs Reykjavíkur.


(17. desember 1991.)



    Samkvæmt samningi fyrrverandi fjármálaráðherra og borgarstjóra frá 3. apríl 1991 um greiðslu skuldar Vegasjóðs til borgarsjóðs var gert ráð fyrir eftirfarandi greiðslum á yfirstandandi vegáætlunartímabili (upphæðir í milljónum króna):

1992          
123

1993          
123

1994          
124


    Upphæðir þessar eru miðaðar við lánskjaravísitölu 2.969 stig og skulu taka breytingum í samræmi við hana. Greiðsludagur er 1. júlí ár hvert. Miðað við forsendur fjárlagafrumvarps gæti lánskjaravísitala 1. júlí 1992 numið u.þ.b. 3.280 stigum.
    Hér á eftir er samanburður á fjárveitingum samkvæmt gildandi vegáætlun (vísitala vegagerðar 4.740 stig) og greiðslum samkvæmt samningnum (lánskjaravísitala 3.280 stig). Upphæðir eru í milljónum króna.

Vegáætlun

Samningur



1991          
18

1992          
44
136
1993          
121
136
1994          
141
137


    Til viðbótar fjárveitingum 1991 og 1992 vantar 74 millj. kr. á árinu 1992 til að standa við samninginn. Á árinu 1993 vantar 15 millj. kr. en fjárveiting 1994 virðist lítið eitt of há.